22.02.1984
Efri deild: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3063 í B-deild Alþingistíðinda. (2667)

204. mál, Ljósmæðraskóli Íslands

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Það vill nú svo til að hér er verið að gera verulegar breytingar. Það er verið að taka þennan skóla undan stjórnarnefnd ríkisspítalanna og setja hér á sérstaka stjórnarnefnd og tekið meira tillit til þeirra fagfélaga sem eiga hlut að máli. Í sambandi við skólastjóra þessa skóla þá hefur það verið í lögum, og hefur bara gengið nokkuð vel þó að nú sé lagt til að breyta því, að yfirlæknir fæðingardeildar Landspítalans skuli vera skólastjóri skólans. Hefur svo verið alla tíð og hefur prófessor Sigurður S. Magnússon gegnt því starfi á síðustu árum.

Varðandi menntun, þá hafa kröfur verið auknar til menntunar. Hefur mikið verið hampað þeirri breytingu sem hefur orðið á námi hjúkrunarfræðinga, mjög mikið. Á vegum þess rn. sem fer með það nám hefur nýlega verið staðfest ákvörðun fyrrv. menntmrh. um að færa allt það nám yfir á háskólasvið og leggja niður núverandi hjúkrunarskóla. Ef ég hefði verið spurður álits á því, þá hefði ég verið á móti því. Ég hefði verið alveg reiðubúinn að breyta og auka nám í hjúkrunar­skóla. Við erum eina landið að undanskildu Finnlandi sem hefur tekið þetta nám upp, því að hliðstætt nám er ekki sambærilegt í Bandaríkjunum og ég veit ekki til þess að háskólanám í hjúkrunarfræðum sé í fleiri löndum, ekki að því er kunnugir telja. En ég tel að hlutur Ljósmæðrafélagsins í þeim breytingum sem frv. gerir ráð fyrir sé góður, enda er frv. unnið í náinni samvinnu við félagið og fulltrúi félagsins átti sæti í umræddri nefnd.

Það sem veldur því að frv. hefur beðið svona lengi í stjórnkerfinu er ákveðið sinnuleysi tveggja ráðuneyta um hvar skólinn ætti að vera. Úr því var skorið, að þar yrði ekki gerð breyting á, svo að ég vænti þess að þetta frv. sé miklu nær því sem Ljósmæðrafélagið hefur óskað eftir og þetta sé víðtækara en t.d. varðandi skólastjóra­starfið að binda það við eina ákveðna stöðu í heilbrigð­iskerfinu.