23.02.1984
Sameinað þing: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3164 í B-deild Alþingistíðinda. (2728)

Umræður utan dagskrár

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þessar umr. hafa nú farið fram hér á sjötta klukkutíma. Ég man ekki til þess þau ár sem ég hef verið hér á Alþingi að umræður utan dagskrár hafi verið með jafn sérkennilegum hætti og þessar. Það er enginn vafi á því að hv. þm. Alþb. hafa orðið fyrir geysilegum vonbrigðum. Þeir voru búnir að gera ráð fyrir að í þessum mánuði, febr­úarmánuði yrðu einhver mikil umskipti í þjóðfélaginu. Að átökin á vinnumarkaðinum út af kaupi fólksins yrðu á þann veg að ríkisstj. mundi verða að fara frá.

Lítum aðeins á hvað hefur gerst. Ríkisstj. neyddist til að skerða samningsrétt takmarkaðan tíma vegna þess neyðarástands sem var í þjóðfélaginu. Þessi tími er liðinn. Nú settust aðilar vinnumarkaðarins að samn­ingaborði til þess að gera samninga á frjálsum grund­velli. Hver varð niðurstaðan? Niðurstaðan varð sú að vinnumarkaðurinn gat ekki leyst þessi mál og setur eiginlega ríkisstj. upp við vegg þannig, að til að leysa þessi mál verður ríkisstj. að leggja fram visst fjármagn. Það er því alrangt sem kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. Steingrími J. Sigfússyni þegar hann segist vilja láta í ljósi álit sitt á þessum samningum og því sem ríkisstj. lætur fylgja. Það er ekki ríkisstj. sem lætur eitthvað fylgja — þetta er eiginlega skilyrði, ég lít á það sem skilyrði hjá aðilum vinnumarkaðarins að þetta komi til ef þeir eigi að ná saman.

Þess vegna er það náttúrlega ekki rétt hjá hv. þm. Svavari Gestssyni þegar hann er að spyrja mig hvað við framsóknarmenn viljum í þessu efni í sambandi við niðurgreiðslurnar. Það eru aðilar vinnumarkaðarins sem benda á þær leiðir sem komi til greina í þessu máli. Ég vil benda hv. þm. Svavari Gestssyni á það að ræða við sína menn í ASÍ og kanna hvort það sé virkilega meiningin að þeir geri kröfu til þess að hækka vöruverð, verð á landbúnaðarvörum fyrir fátækara fólkið í landinu. Það eru þeir, það eru aðilar vinnumarkaðarins sem benda á þessa leið.

Út af fyrir sig eru þær umr. sem hér hafa farið fram alveg út í hött. Það er búið að þrasa um þessi mál í allan dag. Það væri nær fyrir formann Alþb. að taka sína menn, verkalýðsforingjana og tala við þá. Það eru þeir sem standa að þessum samningum. Það eru þeir sem hafa gert þessa kröfu til ríkisstj. Og ríkisstj. verður að meta þá kröfu. Vilja menn frið á vinnumarkaðinum? Eru þetta samningar sem eru þess virði að fórnað sé einhverju til þess að friður verði á vinnumarkaðinum?

En það er auðvitað skýring á þessu öllu. Menn hlustuðu hér á hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson og hans ræðu. Hann er náttúrlega hálfærður út af því að þessi staða skuli vera komin upp. Vonbrigðin eru svo mikil. Það er rétt sem hefur komið fram hjá síðustu tveimur hv. ræðumönnum, Ólafi Þórðarsyni og Eiði Guðnasyni, að þetta er alveg sérstök staða. Það er alveg nýtt í þingsögunni að forustumenn Alþb., þeir sem hafa talið sig vera forsvarsmenn hinna fátækari stétta þjóðfélags­ins, skuli eyða fleiri klukkutímum til að skamma sína forustu í verkalýðsstéttunum. Það er sérstakt og það eru engin undur þó að menn séu undrandi yfir því sem hér hefur farið fram á Alþingi í dag.