28.02.1984
Sameinað þing: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3226 í B-deild Alþingistíðinda. (2788)

173. mál, takmörkun fiskveiða í skammdeginu

Tryggvi Gunnarsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Vesturl. kom inn á margt af því sem ég vildi sagt hafa hér í sambandi við stjórnun á fiskveiðum. Vandræðin eru auðvitað öll út af því að við höfum ekkert stjórnað undanfarin ár. Þar er bresturinn í þessu öllu saman. Við höfum vaðið í þessa auðlind af þvílíkri blindni að við höfum ekkert út í það hugsað hverjar afleiðingarnar yrðu. Þarna höfum við lamist um og barist hver á sínu sviði.

En það er of seint að rifja þetta allt saman upp án efa. Það er komið sem komið er. Tillögumönnum get ég verið sammála að mestu leyti, að það sé æskilegt að minnka sókn á þessum tímum. En þetta rekur sig á annað sem við þurfum að hafa í huga um leið. Útgerðin er í kaldakoli eins og allir vita. Ég reikna með að alþm. þekki þá sögu alla. Í samningum er bundið að hluta t.d. togara verður að greiða þennan tíma sem skipin liggja eða eiga að liggja eftir þessari till. Og ekki bætir það stöðuna.

Annað kom hv. 3. þm. Vesturl. inn á líka. Það voru siglingarnar á þessum tíma. Þær eru mjög hagkvæmar. Það mundi enn gera stöðu þessara útgerða verri, sem reyna þó að bjarga sér þarna, og ekki er á bætandi. Það eru því margar hliðar á þessu. Sjómenn, og ég tala sennilega fyrir hönd þeirra, verða allir fegnir að fá frí um jólin. Það er ekki nokkur sjómaður sem ég þekki sem hefur ánægju af að rjúka út rétt fyrir jól og vera úti alla jóladagana og yfir áramótin. Það er ekki nokkur ánægja fyrir þá. Það vilja allir vera heima hjá sínum fjölskyldum. En það verður að gera fleira en gott þykir í þessum efnum. Þarna er vissulega ýmislegt að athuga.

Það er líka gaman að geta á sumrin tekið sér sumarfrí eins og aðrir menn og vera ekki bundnir af því að vera úti á sjó hvenær sem útgerðinni þóknast, ef ég má orða það svo. Menn geti fengið sína vissu frídaga, t.d. eins og margir miða nú við í landi, verslunarmannahelgina. Ég er viss um að því yrði vel tekið meðal sjómanna ef þeir fengju frí allir saman um verslunarmannahelgina.

Þar sem minnst hefur verið frekar á stjórnun fiskveiða þá er það mér svolítið viðkvæmt mál þegar verið er að skíta, vil ég segja, fyrirgefið forseti, í þennan aflakvóta. Mér finnst sú gagnrýni vera afar hæpin. Þegar loksins er verið að taka dálítið alvarlega á þessum hlutum og menn horfa til þess sem skeð hefur undanfarin ár, þá er endilega farið að agnúast út í það að loksins er farið að stjórna þessu eða gera tilraun til þess. Og þeir menn sem samþykktu það góðu heilli hér á Alþingi að taka upp stjórn á þessum veiðum, ja, mér sýnist sumir þeirra jafnvel vera að hugsa um að renna frá þessu atkvæði sínu. Ég vona að það komi ekki til.

Hitt er annað mál, að ef það skyldi reynast meiri fiskur í sjó hér við Ístandsstrendur en ég og fleiri telja, þá verður hægur vandinn að breyta þessu á miðju ári. Ef við sjáum að allt er að kafna í fiski, þá er allt í lagi að breyta þessu bara eins og með loðnuna, að auka þann skammt sem hver fær. Gerir nokkuð til þó að því yrði skipt nokkurn veginn jafnt á þær hræður sem enn þá vilja lifa á þessu? Það er enn þá til í landinu fjöldi fólks sem þykist ekki hafa aðra möguleika til að sjá sér farborða en að stunda sjó og sækja sinn hlut í sjó. Það eru ekki allir sem taka þetta í landi, sem betur fer.

Ég get vel skilið viðhorf þeirra manna sem eru á móti öllum þessum boðum og bönnum, sem svo eru kölluð. Mér er ekkert vel við þau heldur. En við neyðumst til að taka upp takmarkanir vegna þess hversu komið er. Það sem réttlætir það er að ég tel að fiskurinn sé nánast á þrotum. Ég held að ég verði að rifja aðeins upp hvernig það hefur gengið til um nokkra fiskistofna okkar undanfarin ár. Ég skal gera það í örstuttu máli.

Við veiddum þorsk við Vestur-Grænland. Það var sagt að ekki væri hægt að fiska þar upp, það væru skallar af fiski þarna, það væri ekki hægt að fiska hann upp. Þessi uppgrip voru þó uppurin á örskömmum tíma og þar var ekki fisk að fá í lengri tíma. Nú er hann loksins eitthvað að glæðast, þó ekki þannig að það sé hrópandi húrra fyrir því. Austur-Grænlandsveiðin fór sömu leiðina, bæði karfi og þorskur, sömuleiðis miðin í Hvítahafi og við Bjarnarey. Þetta er saga sem ég þekki og ég veit að þið þekkið, a.m.k. flest ykkar. Þetta hefur allt saman verið klárað upp. Og ef við förum í Norðursjóinn fæst ekki nema fisktittir þar nú orðið. Þar er eintómur smáfiskur. Það er búið að fiska alla stærri fiska upp. Síldin var kláruð þar. Við tókum allir þátt í því, Íslendingar að þurrka það upp. Það átti auðvitað að vera svo mikil síld þar að það væri ekki hægt að veiða hana upp. Þó tókst að gera það um skeið. Hún var friðuð í fjölda ára. Ef við tökum Suðurlandssíldina þá fór alveg eins þar. Hún var friðuð í mörg ár til þess að ná henni upp. Nú er hún loksins að hjarna eitthvað við. Og þó göngum við ekki nógu vel um þann stofn, því að þar fer margt forgörðum því miður. En það er þ6 sýnd viðleitni til að reyna að ráða bót þar á.

Þá má nefna norsk-íslenska síldarstofninn. Þið vitið hvernig fór fyrir honum. Hann er e.t.v. núna fyrst eftir fjölda ára að ná sér eitthvað. Mig minnir að það séu 16 ár síðan hann hætti að veiðast í nokkrum mæli. Nú er kannske einhver von um að þar sé eitthvað að rætast þar úr. Ég gæti haldið áfram miklu lengur. Og þetta er ekkert einsdæmi hvað fisk varðar, þetta á við um allar tegundir sem mannskepnan umgengst. Hún fer svona með þær, það er ekkert nýtt.

Og aðeins í enda ræðu minnar, herra forseti, vil ég minna þingheim á að árið 1844 reru nokkrir menn úr Höfnum suður út að Fuglaskerjum og sóttu þangað tvo fugla.