29.02.1984
Efri deild: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3277 í B-deild Alþingistíðinda. (2813)

175. mál, fjarvistarréttur foreldra

Flm. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér frv. til l. um fjarvistarrétt foreldra vegna veikinda barna. Meginefni frv. kemur fram í 2. gr., en þar segir, með leyfi forseta:

„Heimilt er foreldri að ráðstafa allt að einni viku árlega af áunnum rétti sínum til fjarvistar vegna veikinda til að vera frá vinnu vegna veikinda barna sinna undir 13 ára aldri, enda verði annarri umönnun ekki við komið. Í þessum veikindaforföllum greiðast starfsmanni dagvinnulaun og vaktaálag skv. reglubundinni verðskrá.

Þetta er mjög einfalt frv. en mikilvægt og um leið er hér gerð tillaga um sanngirnismál.

Í tengslum við kjarasamninga opinberra starfsmanna fyrir rúmu einu ári var samþykkt að veita félagsmönnum BSRB og BHM heimild þá sem hér er gerð tillaga um, þ.e. að vera frá vinnu vegna veikinda barna sinna undir 13 ára aldri. Þetta var ekki algert nýmæli í þeim samningum því að árið áður hafði verið fallist á sams konar ákvæði í samningum ríkisins við starfsmannafélagið sókn. Þetta hefur hins vegar lengi verið krafa opinberra starfsmanna og raunar krafa almennu verkalýðsfélaganna, enda heimildir af þessu tagi í gildi víða um lönd þótt ekki hafi þær fram að þessu verið teknar upp hér nema hjá opinberum aðilum.

Ég held að það þurfi ekki að rökstyðja neitt sérstaklega að eðlilegt er að foreldrar hafi rétt til að vera heima og sinna veikum börnum innan vissra marka. Þegar ákvæði af þessu tagi er búið að vera í gildi um skeið hjá opinberum starfsmönnum, starfsmönnum ríkisins og starfsmönnum sveitarfélaga, er auðvitað líka löngu kominn tími til að slík ákvæði nái til allra launamanna, hvar sem þeir vinna. Þess vegna er þetta frv. flutt hér.

Það þarf tæpast að taka það fram að Alþýðusamband Íslands hefur lagt talsvert þunga áherslu á að mál þetta næði fram að ganga í kjarasamningum, en það hefur ekki orðið enn. Hins vegar er málið þess eðlis að ekki er óeðlilegt að löggjafinn grípi inn í og samræmi reglur um þetta efni á vinnumarkaðinum, auk þess sem eðlilegt er þá að miða við einhver ákveðin fastmótuð mörk um hverjir geti notið þessara réttinda og hverjir ekki. Ljóst er að það sama gildir um þessi réttindi og sum önnur á vinnumarkaðinum, t.d. bara veikindaréttinn eða réttinn til uppsagnarfrests, að menn verða að vera í nokkuð fastri vinnu til að þeir geti öðlast slíkan rétt eðli málsins samkvæmt.

Þegar lögfest var hér á Alþingi árið 1958 að launþegar gætu notið uppsagnarfrests, jafnvel þótt þeir ættu ekki samningsbundinn rétt til þess, og veikindaleyfis, en þetta var gert með lögum nr. 16 9. apríl 1958, þá þótti óhjákvæmilegt að skilgreina hverjir ættu þennan rétt. Var miðað við að viðkomandi hefði verið hjá sama atvinnurekandanum í heilt ár, sem aftur var skilgreint sem 1800 vinnustundir. Ég tel eðlilegt að þau réttindi sem hér er gerð tillaga um verði bundin sama skilyrði og veikindaleyfið atmennt skv. lögunum eða uppsagnarfresturinn. Því er hér vísað sérstaklega í 1. gr. laga nr. 16 9. apríl 1958, með síðari breytingum, og till. gerð um að þeir sem njóta réttar skv. þeim lögum njóti réttar skv. þessu frv.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv., sem skýrir sig að öðru leyti sjálft og er þess háttar réttlætismál að ekki er þörf á að fjölyrða um.

Ég vil láta þess getið að við breytingar á lögum nr. 16 9. apríl 1958 munu þau lög hafa verið gefin út að nýju síðar. Það mun hafa verið 1978 sem þau voru gefin út að nýju um sama efni, en með lítils háttar breytingum. Því mundi vera réttara að vísa í lögin frá 1978 í 1. gr. fremur en að vísa til upphaflegu laganna frá 1958 með síðari breytingum. Það hefur mér orðið á að gera þegar frv. var flutt, enda hefur ekki verið gefið út lagasafn síðan þessi lagabreyting var gerð og því áreiðanlega fleirum en mér sem getur orðið fótaskortur í þessum efnum þegar ekki liggur fyrir á einum stað hvað eru gildandi lög á hverjum tíma. Er það reyndar mál út af fyrir sig hversu útgáfa lagasafnsins hefur dregist úr hófi fram og fyrir löngu orðið óskiljanlegt með öllu og raunar hálfgert hneyksli og veldur stórfelldum vandræðum. En það var ekki tilefni þess að ég steig í ræðustól, heldur hitt að mæla fyrir þessu frv., sem ég legg til að verði vísað til hv. félmn. að lokinni þessari umr.