29.02.1984
Efri deild: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3285 í B-deild Alþingistíðinda. (2820)

182. mál, umferðarlög

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég er meðflm. að þessu frv., sem ég tel mjög þarft, og frumkvæði 1. flm. mikils virði. Ég bendi á að það eru settar ótal reglur um búnað bifreiða, um ýmsa þætti er varða öryggi í umferðinni og hvers konar reglur og lög sem öll stefna að því að auka öryggið, koma í veg fyrir limlestingu og dauða. Ég tel að samþykkt þessa frv. yrði til að fækka umferðarslysum frá því sem verið hefur.

Ég furða mig á þeirri andstöðu sem hér er varðandi þetta. Mér finnst ekki ástæða til að bíða með að setja lög sem þessi því menn eiga ekki að ráða því hvort þeir limlesta annað fólk, hvort þeir verða öðrum að bana. Ég lít svo á að lögfesting ljósanotkunar verði til þess að mun færri slasist í umferðinni. Ég mæti þetta af eigin reynstu og ég bendi á að á síðustu árum og mánuðum hafa æ fleiri farið að nota ljós, talið það sjálfsagt og eðlilegt. Vegna þess að svo er komið ætti að vera mjög létt verk að gera ljósanotkun að skyldu. Það yrði engum til tjóns, en mörgum til gagns og sparaði í raun mikið fjármagn í heilbrigðiskerfinu þegar upp er staðið.

Ég endurtek: Ég skora á hv. þdm. að greiða fyrir þessu frv. og hafa í huga að með því móti er verið að gera umferðarmenninguna betri og e.t.v. að bjarga mannslífum.