29.02.1984
Neðri deild: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3297 í B-deild Alþingistíðinda. (2843)

223. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt á því að þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svörin sem hann gaf, þó að ég verði að segja eins og er að þau reynast nú tæpast fullnægjandi. Það er ánægjulegt til þess að vita að hann skuli hafa tekið það upp á vettvangi ríkisstj.ríkisstj. reyndi að greiða fyrir sjómannastéttinni sem verður að taka á sig mikinn kjaraskell, m.a. með því að ívilna mönnum sem þess þurfa í greiðslu opinberra gjalda.

Ég vil aðeins minna á það að ég held að ég muni það rétt, þó ég hafi ekki skattalögin við hendina, að þar séu ákvæði sem beinlínis heimili að skattstjórar veiti skattaafslátt, bæði frestanir á greiðslum og niðurfellingar á álögum þegar um er að ræða mikið tekjutap. Þannig að þarna er aðeins spurning um tvennt. Í fyrsta lagi að vekja athygli manna á þeim rétti sem þeir eiga og í öðru lagi að ríkisstj. beiti sér fyrir því sérstaklega og hafi um það frumkvæði að þetta ákvæði sé framkvæmt gagnvart þeim sem þess eiga að njóta og þá sérstaklega sjómönnum í þessu tilviki. Þarna er ekki spurt um neitt annað en að hæstv. ríkisstj. framfylgi ákvæði sem ég man ekki betur en að sérstaklega hafi verið sett inn í skattalög einmitt um tilvik eins og þetta.

Það er út af fyrir sig ágætt og þarft að menn skuli vera að ræða þetta í ríkisstj. en menn skulu huga að því jafnframt að fyrirframgreiðsla opinberra gjalda er þegar hafin. Ríkisstj. ákvað mjög háa fyrirframgreiðsluprósentu þannig að þegar er komið að því að þessir menn séu rukkaðir um háa fyrirframgreiðslu af launum sem stöðugt fara lækkandi. Þannig er engin ástæða til að bíða með ákvarðanir í þessu sambandi. Langbest væri að sjálfsögðu að frá því yrði gengið sem allra fyrst áður en lengra er haldið, að þessu ákvæði verði framfylgt gagnvart sjómannastéttinni.

Spurning mín til hæstv. ráðh. um hvort til stæði að hækka kvótamarkið var nátengd þessari spurningu. Því aðeins er ástæða til að bíða með aðgerðir í þessu máli að hæstv. ráðh. hafi nú þegar tekið ákvörðun um að hækka þetta mark þannig að sú fyrirsjáanlega kjaraskerðing sem ella verður komi ekki fram. Það er alveg ástæðulaust að vera að bíða fram í apríl eftir því.

Ef hæstv. ráðh. er nú á þessari stundu ekki reiðubúinn til að taka slíka ákvörðun um hækkun á aflamarkinu tel ég að hann, sem einn af meginhöfundum núv. skattalaga, eigi að beita sér fyrir því að þessu ákvæði, sem ég man ekki betur en að sé í skattalögunum, verði framfylgt og hæstv. ríkisstj. hafi um það frumkvæði. Við skulum gera okkur grein fyrir því, eins og hv. þm. Kjartan Ólafsson sagði, að hluti af þeirri lausn sem á að veita útgerðarmönnunum, atvinnurekendahliðinni í sjávarútvegi, er einmitt fólginn í tilfærslu frá launþegunum í þessum atvinnuvegi, frá sjómönnum til útvegsmanna. Hluti af lausninni er óframkominn enn, þ.e. sú skuldbreyting sem á að gera fyrir aðila í útvegi. Þá rís auðvitað sú spurning: Hyggjast menn ekki láta það sama ganga yfir alla? Hver er réttur sjómanna þar? Menn sem þurfa að búa við 44% launahrap milli ára, hvernig skyldi staða þeirra vera til að greiða opinber gjöld og afborganir og vexti af þeim skuldbindingum öðrum sem þeir hafa á sig tekið?

Menn hafa verið að segja í blöðum og víðar að till. um að sama sé látið ganga yfir launafólk og atvinnurekendur sé grínmál. Það sé grínmál ef lagt sé til að launafólk í landinu fái sömu meðferð hjá löggjafanum og atvinnurekendur. Það sé t.d. grínmál ef lagt er til að veita sjómönnum svipaða fyrirgreiðslu varðandi breytingu á lausaskuldum í langtímalán eins og veita á atvinnuveitendum þeirra, útgerðarmönnunum. Þetta sýnir best hvers konar hugsunarháttur hér ræður ríkjum þegar launafólkið á ekki að fá sama rétt fyrir lögum og veita á þeim sem hafa tekjur af eigin eignum og eigin atvinnurekstri.

Herra forseti. Við getum endalaust deilt um hvort það er kvóta.kerfið eða náttúrlegar aðstæður í sjónum sem veldur því að tekjutapið hjá sjómannastéttinni verður 35–44%. Það er ekki meginatriðið í málinu. Meginatriðið er auðvitað niðurstaðan sjálf, sú niðurstaða að enginn ágreiningur er t.d. á milli mín og hæstv. sjútvrh. um tekjutapið. Þessar niðurstöður skulum við ekkert vera að fela með deilum um hvað henni valdi. Það bætir ekkert hag sjómannastéttarinnar að ráðh. haldi því fram að tekjutap hennar stafi af því að aðstæður í sjónum séu með þeim hætti að ekki sé óhætt að fiska meira. Ekki fjölgar það krónunum í vasa sjómannanna. Ekki auðveldar það sjómönnum að greiða opinber gjöld. Þannig að við skulum ekki gera deiluna um ástæðuna fyrir þessu að meginatriði í málinu. Meginatriðið í málinu er auðvitað sú niðurstaða, eins og hæstv. ráðh. réttilega lýsti, að sjómenn þurfa að taka á sig miklu meiri kjaraskerðingu en aðrar stéttir í þjóðfélaginu eftir að hafa tekið á sig meiri kjaraskerðingu en aðrar stéttir hafa þurft allt frá árinu 1977. Spurningin sem þeir spyrja Alþingi og stjórnvöld að er ekki fyrst og fremst spurningin um hvernig stendur á þessu heldur spurningin: Á að láta þetta yfir okkur ganga án þess að rétta svo mikið sem litla fingur til hjálpar á sama tíma og verið er að hjálpa atvinnurekendum í atvinnugreininni sem við störfum við, m.a. með því að taka tekjur frá okkur og flytja til þeirra? Um hvort sú niðurstaða sé fyllilega réttmæt sem menn byggja þetta svokallaða kvótakerfi á geta menn hins vegar deilt um til eilífðar.

Ég er sammála ráðh. um það — og ég held að flestir séu nú farnir að komast á þá skoðun sem við Alþfl.menn stóðum lengi einir að — að fiskveiðiflotinn er allt of stór fyrir þann afla sem eðlilegt er að taka af Íslandsmiðum. Langt er síðan svo varð og lengi vel stóð Alþfl. einn uppi með þá skoðun að það yrði að reyna að spyrna við fótum og koma í veg fyrir að fiskiskipastóllinn héldi áfram að stækka. Ég minni á að ekki eru nema örfá ár síðan það var talið til meiri háttar afreka og menn úr öllum flokkum stóðu upp og klöppuðu fyrir sjútvrh. sem hratt þeirri ákvörðun Kjartans Jóhannssonar að stöðva innflutning á fiskiskipum á meðan tækifæri og tími var til þess.

Hvar er ábyrgð þessara manna nú? Hver er ábyrgð hæstv. forsrh. Steingríms Hermannssonar sem tók sig til fyrir fjórum árum og hratt slíkri ákvörðun út frá þeirri kenningu að það væri allt í lagi að halda þessu áfram? Hann er hlaupinn frá öllu. Hver er látinn borga reikninginn? Sjómannastéttin og þjóðin í heild. Um það deilum við því ekki lengur. Um það deildum við — kannske ekki við hæstv. sjútvrh. Halldór Ásgrímsson, heldur við Alþfl.-menn og þorri hans flokksbræðra, þ. á m. núv. formaður hans flokks. Við deildum um það fyrir þremur og fjórum árum síðan að við héldum því fram að þetta myndi enda með hreinu hruni ef haldið yrði áfram þeirri stefnu Steingríms Hermannssonar að flytja inn fleiri og fleiri skip sem veiða minni og minni fisk. Nú deila menn ekki um þetta lengur. Nú liggur það fyrir. Nú hefur reikningurinn verið sendur sjómannastéttinni og þjóðinni í heild svo deilan stendur ekki um að fiskistofnarnir, eins og ástatt er fyrir þeim nú, nægja ekki fyrir þann mikla fiskveiðiflota sem byggður hefur verið upp í landinu. Það breytir engu þar um hvort aflað er 220 þús. tonna af þorski eða 280–290 þús. tonna. Jafnvel þó farið væri upp undir 400 þús. tonna ársafla mundi flotinn samt sem áður vera of stór fyrir hagkvæmastan rekstur.

En það munar talsvert miklu í þjóðhagsdæminu hvort menn halda sig við þau 220 þús. tonn sem aflamarkið miðast við nú eða hvort menn fara upp í 260 eða jafnvel 280 þús. tonn þegar upp verður staðið. Mín skoðun er sú, að koma muni í ljós eftir kannske ekki allt of langan tíma, þegar frá öllum kjarasamningum hefur verið gengið sem byggjast á þjóðhagsáætlun sem miðar við 220 þús. tonna ársafla, þá verður þess sjálfsagt ekki langt að bíða að hæstv. ráðh. og ríkisstj. breyti þessum ákvörðunum til hækkunar. Það mun að sjálfsögðu létta nokkuð af sjómönnum þeim kjaraskelli sem þeir ella yrðu fyrir ef haldið yrði við þessar viðmiðanir.

En hvað skyldi gerast í landinu á öðrum sviðum þegar og ef slík ákvörðun verður tekin í kjölfar kjarasamninga? Þegar og ef sú ákvörðun verður tekin þegar allir eru búnir að skrifa undir lága kjarasamninga sem taka mið af þjóðhagsreikningum út frá því að aðeins 220 þús. tonn verði veidd af þorski í ár, hvað skyldi gerast í þjóðfélaginu í kjölfar slíkra kjarasamninga, verði síðan ákveðið að lyfta markinu um kannske 40–60 þús. tonn og skulum við þá líta framhjá hagsmunum sjómanna í því sambandi?

Það er ákaflega einfalt mál hvað þá skeður. Þá streyma talsvert meiri fjármunir inn í landið en við reiknum með núna. Og hvert fara þeir? Þeir fara í launaskrið svokallað. Þeir fara í launahækkanir framhjá kjarasamningum til aðila sem geta knúið fram hækkanir til sín fram hjá kjarasamningum eftir að frá kjarasamningum hefur verið gengið. Og hvaða aðilar eru þetta? Skyldi það vera lágtekjufólkið? Skyldi það vera fólkið í fiskvinnslunni t.d. sem nýtur launaskriðs af þessu tagi, sem getur sótt sér launahækkanir fram hjá kjarasamningum í formi ýmiss konar hækkaðra hlunnindagreiðslna, svo sem eins og greiðslna í bifreiðastyrki, fyrir óunna yfirvinnu o.s.frv.? Nei. Það verður ekki þetta fólk sem nýtur þess þegar hæstv. sjútvrh. — eins og ég er fullviss um — hækkar þetta mark eftir að lokið er öllum undirskriftum kjarasamninga milli aðila vinnumarkaðarins. Það verða þeir betur stæðu sem þá hrósa sigri. Það verða þeir betur stæðu sem þá fá að njóta þeirrar aflaaukningar í formi launaskriðs, í formi hækkaðra greiðslna fyrir óunna yfirvinnu, hækkaðs bifreiðastyrks o.s.frv.

Skyldi það ekki vera að hið eina sem tefur ákvörðun hæstv. ríkisstj. í þessu máli sé að enn hefur ekki verið frá öllum kjarasamningum gengið sem miðast við þjóðhagsspá þar sem aðeins er gengið út frá 220 þús. tonna ársafla? Eins og ég segi, menn skyldu gera sér grein fyrir því að það munar mikið um hver tíu þús. tonnin í því sambandi.

Annað vil ég einnig nefna í hálfgerðu framhjáhlaupi, hæstv. forseti, um þetta mál. Það er sú einfalda staðreynd að komið hefur fram talsverður meiningarmunur milli sérfræðinga um ástandið í hafinu. Ég tel ekki að sá meiningarmunur breyti neinu um þá meginstaðreynd að íslenski fiskiflotinn er allt of stór miðað við eðlilegan afrakstur af íslenskum fiskimiðum. En menn benda á mjög athyglisverðar staðreyndir í sambandi við ástandið í sjónum sem vissulega geta stutt að því að e.t.v. sé ekki ástæða til að miða við það lága aflamark sem þjóðhagsspáin gengur út frá. Það er rétt, menn þurfa ekki að hafa fyrir því orð fiskifræðinga, menn geta leitað álits sjómanna á því. Það er rétt að ástandið á fiskimiðunum hefur verið þannig undanfarin misseri alllengi — t.d. undan Vestfjörðum þar sem ég þekki talsvert til, að vísu ekki af eigin reynd heldur af afspurn — að þar hafa sjómenn orðið varir við talsvert mikinn fisk. Togaramenn hafa lóðað þar á mikinn fisk en oft ekki aflað mikils vegna þess að fiskurinn hefur ekkert staðið undir, hann hefur verið dreifður um allan sjó í leit að æti. Á þessum tíma hafa línubátar aflað ákaflega vel. M.ö.o. fiskurinn sem ekkert hefur við að vera, ekkert æti hefur á þessari fiskislóð, sækir í línuna. Um leið og æti kemur dregur úr línuaflanum en afli togaranna verður feikimikill.

Þessir sömu menn benda einnig á þá athyglisverðu staðreynd að nú á undanförnum árum hefur þyngd allra árganga af þorski farið lækkandi. Dregið hefur úr þyngd allra árganga af þorski. Þetta bendir til þess að annaðhvort séu miðin ofsetin af smáfiski ellegar hitt að of lítið æti sé í sjónum fyrir þann fisk sem í ætið sækir. Það er alveg sama hvor ástæðan er rétt, niðurstaðan hlýtur í öllum tilvikum að vera sú sama: Miðin eru ofsetin af smáum fiski. Úrræðið til að greiða úr þeim vanda til þess að gamli fiskurinn fari aftur stækkandi er sú að fækka smáfiskinum sem sækir í ætið.

Ég veit ósköp vel að ekki er auðhlaupið að því fyrir menn sem ekki búa yfir sérfræðiþekkingu, eins og er nú um flesta okkar stjórnmálamenn, að fella dóm í slíkri deilu. Ég treysti mér ekki til þess, hæstv. sjútvrh. treystir sér sjálfsagt ekki til þess heldur og ég efast um að nokkur hér inni myndi treysta sér til slíkra hluta. En spurningin er m.a. sú: Er e.t.v. hægt að gera eitthvað til að ganga úr skugga um hvort verið getur að þessir ungu fiski- og líffræðingar hafi eftir allt saman rétt fyrir sér? Því að ef þeir hafa rétt fyrir sér, virðulegur forseti, þýðir það að allir þeir efnahagserfiðleikar sem við erum að tala um núna eru blekking. Ef það er satt sem þessir ungu líffræðingar og fiskifræðingar eru að segja eru allir efnahagserfiðleikar á Íslandi, sem byggjast á því að fiskurinn í sjónum sé að ganga til þurrðar, blekking.

Er hægt með einhverju móti að athuga hvort mögulegt sé að sjónarmið þessara manna séu e.t.v. rétt? Já, það er hægt. Með hvaða hætti? T.d. með því að láta kanna lengra aftur í tímann hvers konar fiskur það var, sem kom af Íslandsmiðum á árunum hér áður þegar fiskurinn af öllum árgöngum var talsvert þyngri en hann er í dag. Hvað voru t.d. bresku togararnir að veiða, sem lágu hér upp að og innan við fjórar mílur á árunum áður, tugum og hundruðum saman? Öll þessi skip lágu í smáfiski. Hvað voru verksmiðjutogararnir að veiða áður en til 50 og 200 mílna útfærslunnar var gengið? Þeir voru að fiska smáfisk. Hvaða fiskur var það sem fyrst og fremst kom á land mjög víða á Íslandi þaðan sem þorskveiði var hvað mest stunduð?

Við skulum átta okkur á því að þegar við erum að tala um smáfisk í þessu sambandi erum við ekki að tala um nein kóð heldur fisk undir 47 cm á stærð. Það er líka til önnur aðferð til að ganga úr skugga um hvort verið geti að þessar ábendingar hinna ungu líffræðinga og fiskifræðinga séu réttar, t.d. sú aðferð, ef Alþingi vildi fallast á að gera þær breytingar á lögum, að hæstv. sjútvrh. væri heimilað að leyfa nokkrum togurum, fjórum, fimm, sex togurum, að stunda tímabundið tilraunaveiðar með veiðarfærabúnaði eins og notaður var fyrir árið 1975, þ.e. með sömu möskvastærð og þá var notuð, sama hlerabúnaði og sama veiðibúnaði og sjá hvaða fiskur kæmi út úr slíkum veiðum, hversu mikill og hvers konar fiskur það væri.

Virðulegi forseti. Þó svo að vísindamenn deili mjög hart um þessi mál núna og séu hvergi nærri sammála og þó svo að hvorki ég né nokkur annar stjórnmálamaður þori að fella þann dóm um þau deilumál að á það sé hættandi að taka mark á þeim sem gagnrýna kenningar Hafrannsóknastofnunar um ástandið á miðunum af þeirri einföldu ástæðu að taki menn þá áhættu að líta fram hjá viðvörunum Hafrannsóknastofnunarmanna eru menn að taka áhættu um framtíðarundirstöðu grundvallaratvinnuvegs íslensku þjóðarinnar, held ég engu að síður að menn eigi að leita leiða — ef slíkar leiðir eru til sem ég held að séu — til að kanna og athuga hvort verið getur að sjónarmið þessara yngri manna eigi rétt á sér. Það er hægt, eins og ég segi, að gera með því að kanna aflaskýrslur nokkuð aftur í tímann, kanna hvers konar fiskur það var sem kom á land af Íslandsmiðum áður en þessir svokölluðu erfiðleikar, sérstaklega í þorskstofninum, komu upp.

Aðra aðferð mætti reyna ef Alþingi féllist á að gera þær breytingar að heimila hæstv. sjútvrh. að láta stunda tilraunaveiðar með sams konar veiðibúnaði eins og notaður var fyrir árið 1975 áður en menn tóku upp þá stefnu um veiðarnar sem þessir yngri fiskifræðingar segja að sé ástæðan fyrir því að ástandið á þorskstofninum sé eins og það er nú. Þetta er í fyrsta lagi spurning um vilja löggjafans og í öðru lagi um vilja sjútvrh., en ég held að svo mikið sé í húfi að menn eigi að reyna að ganga úr skugga um það hvort þessi nýju viðhorf fiskifræðinga og líffræðinga séu rétt, að menn eigi að leita leiða til þess að kanna hvort svo sé án þess að tekin sé áhætta um veiðar sem e.t.v. gæti gert vont ástand verra.