06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3378 í B-deild Alþingistíðinda. (2896)

174. mál, lífefnaiðnaður

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau orð sem komu fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að það sé ánægjulegt að komin er hreyfing á þetta mái. Hins vegar vekur nokkra athygli og væri fróðlegt að fá nánari skýringu á því hvernig mál geta mislagst, eins og hæstv. iðnrh. sagði í ræðu sinni áðan ef ég tók rétt eftir, ellegar þá að málin komast e. t. v. ekki í póstinum frá Alþingi til rn. Það væri fróðlegt að fá að vita hvað hér hefur gerst. Það eru líklega um tvö ár síðan þessi þáltill. var hér til meðferðar og síðan samþykkt á Alþingi, þannig að allnokkur tími er liðinn frá því að hún var til meðferðar og samþykkt á þinginu. Þetta er með merkari till. og hugmyndum um atvinnumál sem fram hafa komið á hv. Alþingi. Ég held að full þörf væri á því að tekið væri rækilega til hendinni í þessu máli og kannað hvort einmitt lífefnaiðnaðurinn er ekki einn sá möguleiki í atvinnumálum sem Íslendingar ættu að beita sér að fremur en margt annað sem ýmsir áhugamenn um atvinnumál láta sér detta í hug að geti orðið til lífsbjargar Íslendingum.