06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3383 í B-deild Alþingistíðinda. (2906)

179. mál, eftirlitsnefnd með framkvæmd fjárlaga

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég harma að hv. þm. Lárus Jónsson skyldi ekki svara þeirri spurningu sem ég bar fram til hans. (LJ: Ég var búinn með ræðutímann. Ég skal gera það á eftir.) Já, það væri mjög nauðsynlegt að hv. þm. gerði það vegna þess að nú er upplýst hér um stórt gat, allavega stærsta gat sem menn vita um hér, svo stórt að sérstakan neyðarfund þurfti að halda í ráðherrabústaðnum í gær til að fjalla um það. Það er óhjákvæmilegt að hv. þm. Lárus Jónsson svari því hér, hvort þessari sérstöku rannsóknarnefnd, sem fjmrh, hefur skipað og er hér til umr., var kunnugt um þetta gat og hvenær henni var kunnugt um það og ef henni hefur verið kunnugt um það í nokkurn tíma hvers vegna formaður og varaformaður fjvn. hafi ekki skýrt fjvn, frá þessu gati fyrr en í morgun.

Það er rangt til orða tekið hjá hv. þm. Lárusi Jónssyni að það hafi eingöngu verið skipaðir í þessa rannsóknarnefnd fjmrh. tveir alþm. Hæstv. ráðh. hefur greint hér frá því og það hefur verið greint frá því í blöðum að það eru formaður og varaformaður fjvn, þessir tveir trúnaðarmenn og embættismenn þingsins, sem kjörnir eru í nefndina sem slíkir af ráðh. Þess vegna er rangt, sem hv. þm. Lárus Jónsson segir, að þeir starfi þar eingöngu á ábyrgð ráðh. Þeir eru settir í nefndina í krafti embætta sem formaður og varaformaður fjvn. og það áréttaði hæstv. fjmrh. áðan. Eins og ég sagði hér hefði ekkert verið við það að athuga ef tilteknir tveir einstaklingar hefðu verið settir í þetta sem slíkir, en það er ekki um slíkt að ræða í þessu tilviki. Þess vegna er það rangt hjá hv. þm. Lárusi Jónssyni að hann starfi í þessari nefnd á ábyrgð fjmrh. Hann starfar í þessari nefnd vegna þess, eins og ráðh. var að enda við að skýra þingheimi frá hér í dag, að hann er formaður fjvn., og varaformaður sömu nefndar situr einnig í þessari nefnd í krafti embættisins varaformanns.

Hv. þm. Lárus Jónsson gerði síðan að umtalsefni aukafjárveitingar á árinu 1983. Ljóst er að stór hluti af þeim er tilkominn í tíð núv. ríkisstj., sams konar aukafjárveitingar og hæstv. fjmrh. telur núna mjög af hinu illa, en þó er vitað að á móti þeim komu allmiklar tekjur. Sá halli sem varð á fjárlögum í heild á árinu 1983 er því mun minni en það stóra gat sem hv. þm. Þorsteinn pálsson, formaður Sjálfstfl., lýsti yfir í blaðaviðtölum í morgun að hefði komið honum mjög á óvart og hann hefði ekki haft hugmynd um fyrr en hann las um það í blöðunum um helgina.