07.03.1984
Efri deild: 58. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3448 í B-deild Alþingistíðinda. (2977)

222. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég kem nú hér upp aftur í þessa umr. fyrst og fremst vegna umr. um samráð við sjútvn. Ég tek undir það sem hv. 6. landsk. þm. sagði um þessi mál. Átt hafa sér stað ansi mikil mistök í sambandi við þann þátt sem ég vil einnig staðfesta að mér fannst að tækist nokkuð vel í sambandi við undirbúning umr. um kvótakerfið og jafnvel betur en ég bjóst við þegar hér var verið að ræða það mái. Ég fann nokkuð fyrir því að sú umr. var fyrst og fremst til þess að leysa málin sameiginlega og leita að göllum og reyna úr þeim að bæta og að mörgu leyti tókst það.

Þetta hefur því miður breyst núna á síðustu dögum. Svo virðist að eftir að rn. hafði kynnt okkur undirbúninginn að kvótagerðinni allvel og rækilega hafi ekki meira verið hugsað um samráð. Ég held að þetta hafi verið mjög af hinu verra. Þegar við í sjútvn. sáum að þannig skyldi unnið óskuðum við ákveðið eftir því að fá upplýsingar um áframhaldandi vinnu að kvótaundirbúningnum. Við báðum formann n. bæði um að fá lista þann sem hér hefur verið rætt um og einnig um að ráðh. eða menn úr rn. kæmu á fund til okkar þar sem þessi mál yrðu skýrð.

Við fengum síðan yfirlýsingar frá formanni n. um að vissir erfiðleikar væru í sambandi við að gera það á þeim tíma sem við vorum að fara fram á þetta þó að ég fallist ekki alveg fullkomlega á þá skoðun að nauðsynlegt hafi verið að halda einhverjum hlutum leyndum fyrir okkur í sjútvn. þó að kannske væri ekki talið eðlilegt að það færi út á meðal fjölmiðla. En við gerðum ekki neinn hávaða úr þessu og treystum okkar formanni til að ýta frekar á að þessir hlutir fengju þann gang sem við höfðum búist við og hafði verið í upphafi umr. um mátið.

En sú varð raunin á að við fengum aðalfréttirnar úr Morgunblaðinu og ekki hefur verið reynt að bæta neitt þar um eftir að þær fréttir komu. Við erum fyrst að heyra núna frá hæstv. ráðh. að þessi listi, sem Morgunblaðið birti, hafi verið að nokkru leyti rangur. Ýmsir hafa verið að spyrja mig um vissa þætti í þessum lista og ég hef vitaskuld sagt: Það sem birtist í Morgunblaðinu hlýtur að koma bara beint frá rn., hlýtur að vera rétt. Það hefur ekki komið nein yfirlýsing um að þarna væri um eitthvert bráðabirgðaplagg að ræða.

En það er svolítið fleira í sambandi við þetta sem ég sem sjávarútvegsnefndarmaður felli mig ekki alveg við. Það er að á meðan við nm. í sjútvn. vorum að biðja um þessi plögg voru þau í höndum annarra þm. hér á hv. Alþingi. Mér er fullkunnugt um að fleiri en einn þm. voru með þetta hér og voru jafnvel að láta í það skína að þeir hefðu ekki fengið þetta eftir neinum krókateiðum heldur beint úr höndum ráðh. sjálfs. Slík vinnubrögð eru ekki til þess að gera auðveldara að þau sjálfsögðu samráð, sem ákveðin voru með lögunum sem samþykkt voru hér fyrir jólin, verði áfram eins góð og þau voru í upphafi þegar samstarf hófst. Ég vænti þess að þau vinnubrögð, sem notuð hafa verið síðustu vikurnar í sambandi við þetta, verði aflögð og okkur sjútvn.-mönnum verði sýnt meira traust í sambandi við þetta mál en gert hefur verið á þessum tíma.

Fyrst ég er hér kominn upp vil ég enn svolítið ræða um það frv. sem hér er til umr. og þá fullyrðingu hæstv. ráðh. áðan að sú breyting á Aflatryggingasjóðslögunum virki ekki sem skerðing á hlut sjómanna. Þegar ég tala um hlut er ég að tala jafnt um hlut og kauptryggingu og tekjuöryggi. Ég held að því verði ekki á móti borið og það var og er grundvöllur Aflatryggingasjóðs að tryggja að sjómenn fái sitt kaup. Ég veit að í ótal mörgum tilfellum hafa útvegsmenn staðið þannig að þeir hafa ekki getað staðið í skilum við sjómenn fyrr en Aflatryggingasjóður hefur hlaupið undir bagga og komið með sinn hlut til þeirra aðgerða. Það er því alveg út í hött að halda því fram að með því að breyta hlutverki Aflatryggingasjóðs, svo sem þessi lög gera ráð fyrir, sé ekki um beina skerðingu á rétti, kaupi eða hlut sjómanns að ræða. Það er alveg eins hægt að segja að hinar breytilegustu tryggingar, sem settar eru til að tryggja mönnum lífsviðurværi, séu ekki beint kaup eða þess háttar. Þetta er bara einn af þeim þáttum sem við höfum komið upp í okkar þjóðfélagi og verkalýðshreyfingin samið raunverulega um. Þetta er enn eitt verk þessarar ríkisstj. í þá átt að skerða rétt verkalýðshreyfingarinnar og ganga yfir gerða samninga.

En hæstv. ráðh. hafði orð um að höfð væru stór orð á þann máta að verið væri að fara illa með sjómenn og gengið væri á hlut þeirra og lítið væri talað um það hvað annað ætti að gera. Ég er nokkurn veginn viss um að við viljum ekki leysa vandamál þjóðfélagsins með því að ganga á rétt launþega eða sjómanna. En ef við göngum út frá því — og það er mín skoðun að svo sé verið að gera hér gagnvart sjómönnum — þá langar mig aðeins til að benda á það sem ég nefndi í fyrri ræðu minni að það er ekki hlutur sjómanna og ekki hluturinn sem hefur farið í Aflatryggingasjóð sem hefur skert stöðu útgerðar hér á undanförnum árum. Það er af og frá. Það eru allt aðrir þættir, kannske fyrst og fremst sá þátturinn sem væri hægt að sækja í einhvern pening núna, þ. e. sú fjármálastefna sem rekin hefur verið af íslenskum bönkum og að sumu leyti af ríkisstjórnum, jafnt af þeirri ríkisstj., sem ég studdi hér fyrir ári síðan, og þeirri ríkisstj. sem situr nú, sú fjármálapólitík sem rekin var á verðtryggingarárunum þegar verðtryggingin var rekin þannig að hlutur útgerðar og hlutur sjómanns hækkaði ekki f neinu hlutfalli við aðra verðtryggingu sem var í landinu.

Stefnt var beint að því að minnka bæði hlut sjómanna og útvegs með því að haga þeirri verðtryggingu, sem um var talað að skyldi vera jöfn á alla vegu, á þann veg að verðtrygging fisks og afurða útgerðarinnar var ekki í neinni líkingu við það sem verðtryggingin var á gjaldeyrinum, fjármagninu, sem þurfti til að reka útgerð á Íslandi. Hefði verið gripið í taumana þar og þau mál jöfnuð væri ástandið allt öðruvísi á Íslandi í dag og íslensk útgerð allt öðru vísi.

Grundvöllur þessarar skekkju var fyrst og fremst sá — jafnt hjá þeirri ríkisstj. sem var hér við völd fyrir ári síðan og þeirri ríkisstj. sem nú situr — að halda niðri kaupgjaldi í landinu. Ef fiskverð í landinu hefði hækkað í einhverju svipuðu hlutfalli og verðtryggingin, vextirnir og gengið hefði fiskverð orðið að hækka ansi mikið. Þá hefðu aðrar atvinnustéttir í landinu náttúrlega óskað eftir því að kaup hækkaði í sama hlutfalli og hlutur sjómanna.

Alltaf er verið að leita að einhverjum leiðum til að smeygja sér fram hjá því að hinn vinnandi maður fái þann rétt sem hann á. Með þessu frv. er einmitt verið að bæta einni leiðinni við.

Hv. 3. þm. Vesturl. vildi ekki taka undir þau orð mín áðan að ég taldi rétt að fresta þessu frv. enda mun hann sjálfsagt vera á sömu skoðun og hæstv. ríkisstj. um að svona leiðir séu æskilegar. En mín tillaga um að fresta þessu frv. byggðist fyrst og fremst á grg. frv. þó að ég sé þess að fullu samþykkur að þessu frv. verði frestað. Í grg. frv. sjálfs er sagt að þegar sé aflabrestur á Íslandsmiðum. Ég held að það sé bara allt önnur saga. Það er sama hvaðan við heyrum fréttir, hvort það er frá Vestmannaeyjum, Suðurlandinu, Vesturlandinu eða Vestfjörðum. Hver fréttin á fætur annarri er um meiri afla. Hún er kannske ekki miðuð við þau ósköp sem við fiskuðum 1981 heldur miklu meiri afla en 1983 og 1982 — eða a. m. k. 1983.

Ég talaði við einn útvegsmann og fyrrv. skipstjóra vestur í Rifi í gær. Hann sagði mér að allar götur síðan 1970 hefði sinn bátur ekki fiskað annað eins og hann hefði fiskað í febrúar í ár. Sem betur fer er þessi staðreynd víðar. Ég vænti þess að til þeirrar staðreyndar verði tekið tillit, tekið verði tillit til þess — og það í tíma eins og reyndar hæstv. ráðh. nefndi hér áðan — að þau lög og þær reglur, sem nú er verið að setja út frá því að það verði aflabrestur á Íslandi á árinu 1984 — verði ekki látin vera of lengi í gildi. Æskilegast væri að við færum ekki að samþykkja lög sem væru óþörf ef hlutirnir snérust á þann veg sem við vonum vitaskuld öll og við fiskuðum sæmilega á árinu 1984 sem mér sýnist að allt stefni að.