31.10.1983
Efri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

12. mál, tollskrá

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég fagna þeim upplýsingum hæstv. forsrh. að nefnd skuli hafa verið sett til að endurskoða bifreiðarekstur ríkisins. Ég held að það sé sannarlega ekki vanþörf á því. Ég fagna því, mér finnst það gott frumkvæði og ég vona að það leiði til einhverra betrumbóta í þessu efni. Ég hef satt að segja aldrei skilið hvers vegna fylgt er þeim reglum sem fylgt er í sambandi við bifreiðakaup ráðh. Af hverju er ekki einfaldlega efnt til útboðs þegar þarf að endurnýja ráðherrabílana? Eins og ég sagði áðan finnst mér það sjálfsagt og ekki til umræðu annað en að ráðherrum sé séð fyrir bílum og bílstjóra. Af hverju er þetta bara ekki gert með útboði? Ég er alveg viss um að það væri hægt að gera þetta langtum hagkvæmar en gert hefur verið, vegna þess að eins og nú er gert þá sýnist mér menn ekkert sjást fyrir í kostnaði þegar keyptir eru dýrustu bílar sem völ er á hér á markaðinum, að því er manni sýnist.

Satt best að segja hélt ég að það væri í rauninni verið að gera hæstv. ráðh. greiða með því að flytja svona frv. Með því að samþykkja þær reglur sem þetta frv. gerir ráð fyrir er bara verið að firra menn vandræðum og leiðindum. Ef ráðh. vilja eiga sinn einkabíl eins og aðrir þá eiga þeir að eiga hann með sömu kjörum og aðrir. Síðan á ríkið að sjá þeim fyrir farartæki til embættiserinda. Slíkt er auðvitað langhreinlegast og langeðlilegast.

Ég er t.d. ekki frá því að það kæmi ýmislegt í ljós ef athugaðir eru, við skutum bara segja síðustu árin, bílaleigureikningar vegna ráðh., sem líka hafa haft ráðherrabíla. Ég hugsa að þetta sé meðal þess sem hljóti að koma í ljós þegar þessi mál verða könnuð nánar í nefnd. Ég tek það fram að ég er ekki að tala til þeirra ráðh. sem hér sitja um þetta. En ég þykist vita að það muni ýmislegt koma í ljós ef þetta er athugað.

Ræða sú sem hæstv. fjmrh. flutti hér áðan var býsna sérstök, að ekki sé meira sagt. Hann vill láta endurskoða öll fríðindi í kjarasamningum. Það getur vel verið að það eigi að endurskoða ýmis fríðindi í kjarasamningum. En það er ekki nema að takmörkuðu leyti mál hæstv. fjmrh. Hann hefur að vísu yfir vissum hluta kjarasamninga að segja, þar sem eru opinberir starfsmenn, en hann hefur ekki yfir öðrum kjarasamningum að segja, nema að því leyti sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur svipt menn samningsrétti. Og ég verð nú að segja það að ég hygg að fleiri þm. en mér hafi ofboðið að heyra hæstv. fjmrh. í ríkisstjórn Íslands tala um þetta sem einhvers konar félagsmálapakka til hæstv. ráðh. Ég er alveg dolfallinn yfir slíkum málflutningi. Þetta orð hefur þá svei mér öðlast nýja merkingu. Og að koma hér og segja hv. þm. að ráðherralaunin séu lægri en þingfararkaupið. Það er sjálfsagt rétt. En ráðherrar hafa bara þingfararkaup ofan á ráðherralaunin. (AG: Tvöfalt starf.)“ Tvöfalt starf já, og tvöfalt kaup. Við skulum reyna að halda okkur við staðreyndirnar.

Ég held að þessar umr. séu alls ekkert óeðlilegar. Það fóru fram umr. um þetta í þinginu 1979 og það var verið að taka þær upp hér aftur. Ég held að þetta sé mál sem er nauðsynlegt að ræða. Það er ekki verið að gera eitt eða neitt tortryggilegt hér, eins og hæstv. ráðh. sagði. Það hefur aðeins verið á það bent að hér sé farið að lögum og reglum. Það hefur enginn maður dregið það í efa. Hins vegar hefur siðferðilega hliðin á málinu verið lítið rædd og þar sýnist mönnum auðvitað sitt hverjum. Mér sýnist það óeðlilegt að ráðh. geri slíkar ráðstafanir þegar þjóðin er beðin um að taka nú á honum stóra sínum og spara og draga saman á öllum sviðum. Mér sýnist það óeðlilegt, en um það eru auðvitað skiptar skoðanir. Öðrum finnst þetta allt í lagi. Þeir verða auðvitað að fá að hafa sína skoðun. En ég mótmæli því, hæstv. fjmrh., að þessar umr. séu óeðlilegar. Og ég verð líka að segja það að þegar hæstv. ráðh. segir: Ég styð ekki þetta mál vegna þess hvernig það er til komið — finnst mér það alveg furðuleg yfirlýsing hjá hæstv. fjmrh.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa þessi orð fleiri að sinni. Það gefst væntanlega tími til að ræða og fjalla ítarlegar um þetta mál í þeirri n. sem málið fær til umfjöllunar og mér finnst eðlilegast að þar eigi umr. sér að mestu leyti stað, vegna þess að það þarf að afla ýmissa gagna og upplýsinga, eins og hæstv. forsrh. minntist hér á. Nefndin hlýtur auðvitað að taka tillit til þess við skoðun sína á málinu og mótun afstöðu.