31.10.1983
Neðri deild: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

Umræður utan dagskrár

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það er orðið mikið álitamál hér á hv. Alþingi hver er orðinn bær til þess að kenna hverjum. Hv. formaður þingflokks Bandalags jafnaðarmanna kveður sér hljóðs utan dagskrár og vekur athygli á að veðdeild Búnaðarbanka Íslands auglýsir í útvarpi um áform ríkisstj. um frv.flutning og óskar eftir því að umsækjendur um ákveðna fjárhagslega fyrirgreiðslu fari nú að láta til sín heyra. Hæstv. landbrh. svarar því til að hann sjái ekkert athugavert við þessa auglýsingu, með nokkrum fyrirvara þó. Hv. þm. Halldór Blöndal kveður fastar að orði og telur þetta á allan máta eðlilegt og notar tækifærið til að lýsa því yfir að aðrir hafi misskilið hlutverk Alþingis. Spurning er: Síðan hvenær hefur Alþingi Íslendinga framselt veðdeild Búnaðarbankans eða öðrum stofnunum úr því kerfi, hvaða lánasjóði sem manni þóknaðist nú að nefna, stéttarsambandi bænda, Framleiðsluráði landbúnaðarins, Sexmannanefnd, sem einhver hefur sagt að væri ellefti ráðherrann í hæstv. ríkisstj., sjálfvirkt umboð til að auglýsa í útvarpi eftir umsóknum samkv. áformum ríkisstj. um að setja lög á Alþingi Íslendinga, sem ekki eru fram komin? Svörin eru algjörlega út í hött. Eitt er að afla upplýsinga, sem þörf er á til að semja löggjöf, en að framselja þessum aðila fjárveitingavald og að þessi aðill skuli taka sér vald til að auglýsa frammi fyrir alþjóð með þessum hætti er auðvitað fyrir neðan allar hellur.

Ég verð að segja fyrir mína parta að mér þykir meira en nóg komið, rifjandi upp nýliðna umr. um samskipti framkvæmdavalds og löggjafarvalds, að hæstv. landbrh. sér ekkert athugavert við það þótt hann hafi í allt s.l. sumar tekið sér vald sem forseti löggjafarvaldsins, sem hann hafði ekkert umboð til, notað það vald sem enginn hafði fengið honum til að eiga hlut að því að koma í veg fyrir að löggjafarvaldið fái að koma saman og starfa, tekið sér það vald að gegna starfi forseta og þar af leiðandi sem handhafi forsetavalds sem enginn hafði fatið honum og hann hafði ekkert umboð til frekar en einhver maður hér utan dyra. Þegar umr. um þetta fer fram er því svo að vísu svarað með þögninni, en væntanlega er hugarfarið hið sama og svörin eru í þessu tilfelli: Það er ekkert athugavert við þetta, með vissum ákveðnum fyrirvörum þó.

Herra forseti. Mér þykir þetta meira en lítið athugavert. Það er mikill misskilningur að þarna sé bara um formsatriði að ræða. Það er mikill misskilningur. Þó að það sé að vísu rétt að Framsfl., sem raunverulega er handhafi þessa kerfis atts saman og þ. á m. veðdeildar Búnaðarbankans, hafi valdið óbætanlegu tjóni á lífskjörum fólks í þessu landi með þrálátri stjórnarsetu sinni í tólf, þrettán ár, þá er eiginlega meir en nóg komið ef það á að vera föst regla að aldrei skuli svo framsóknarmaður koma fæti milli stafs og hurðar í fyrirgreiðslukerfi þjóðarinnar að það skuli ekki mega opna þar upp á gátt og þar blasi við valdníðsla, pólitísk spilling og óþotandi ólýðræðisleg og gerræðisleg vinnubrögð.