15.03.1984
Sameinað þing: 66. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3792 í B-deild Alþingistíðinda. (3217)

Um þingsköp

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég harma að þetta mál skuli hafa verið tekið af dagskrá, þó að ég viðurkenni það sjónarmið forseta að ekki hefði verið hægt að ljúka umr. á þessum fundi. En það hefur komið fram tilboð frá iðnrh., sem mér virðist að auðveldi mjög að komast klakklaust frá þessu máli, og vil ég lýsa því yfir að mér er ljúft að verða við þeim tilmælum að kalla allshn. saman og leggja þar til að ríkissjóður greiði kostnað við framkvæmd till. og tryggja þar með að ekki komi til illinda milli hæstv. iðnrh. og fjmrh. út af till. sem hugsanlega hefði orðið ef hún hefði verið samþykkt án þess að slíkt ákvæði væri inni.

En það stendur þannig af sér að ég á það e. t. v. undir forseta hvort hann væri reiðubúinn að bera það atriði upp það tímanlega að ekki komi til að iðnrh. verði á undan með sína till. Ef hún kæmi til atkvæða á undan gæti hann ekki staðið við það tilboð sem hann lagði fram um að draga till. sína til baka. En e. t. v. má gera ráð fyrir því, þegar friður er nú að færast yfir, að hæstv. iðnrh. sé reiðubúinn að draga sína till. til baka, ef fram kemur till. frá allshn. um að kostnaðurinn verði greiddur úr ríkissjóði, og væri þá vel.