19.03.1984
Efri deild: 66. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3876 í B-deild Alþingistíðinda. (3296)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Nú má ég, sagði strákurinn, greip í færið og hrökk útbyrðis. Það er mjög lærdómsríkt að taka þátt í störfum þessa þings fyrir aðila sem alltaf hefur horft á þessa atburði utan frá og kannske lærdómsríkara en ella þegar maður fylgist með þeim töfrabrögðum sem hér eiga sér stað.

Það er auðvitað alls ekki hægt að tala um lánsfjárlög öðruvísi en í samhengi við fjárlög því að hér er náttúrlega um eitt og sama málið að ræða. Það er upplýst að fjárlögin eru götótt, það stendur upp úr þessum lögum að þau eru götótt. Þessi götóttu fjárlög og þessi götóttu lánsfjárlög eru vitnisburðurinn um þá styrku og raunhæfu fjármálastjórn sem landsmönnum var lofað strax í kosningabaráttunni í fyrravor og enn frekar eftir að þessi styrka stjórn tók við. Ég get varla varist því að spyrja hvort framkoma af þessu tagi sé í raun og veru samboðin þingi, því að hér eru margir hlutir óljósir. Sú hugmynd skaut upp kollinum í dag að fresta afgreiðslu annarra þátta þessara lánsfjárlaga en þeirra sem beinlínis tengjast því láni sem knýr svo mjög á um afgreiðslu málsins. Það tilboð að fresta annarri afgreiðslu og freista þess að endurskoða frv. og færa það í átt til raunhæfari stöðu tel ég vera mjög sanngjarnt og drengilegt.

Það sem má segja að sé upphafið eða inngangurinn að þessu máli er sú undarlega yfirlýsing sem fram kom fyrir stuttu um stöðu fjárlaganna raunhæfu frá því fyrir jól, að gleymst hafi einhvers staðar í handraðanum hundruð jafnvel þúsundir milljóna og þeim skýtur allt í einu upp á yfirborðið rétt eins og korktappar eftir jól. Þar er um að ræða jafnaugljósa hluti og almannatryggingar, kostnað við sýslumenn og bæjarfógeta, grunnskóla og þess háttar. Það er risalán, sem allir menn vissu um, upp á 300 millj. vegna loðnudeildar Verðjöfnunarsjóðs og þar fram eftir götunum. Enn fremur útgjöld sem búið var í raun og veru að lýsa yfir að ekki ættu að verða til, vegna sparnaðar og samdráttar í rekstri, alls um 600 millj. kr. Og svo að lokum talsvert dvínandi bjartsýni um öflun lánsfjár á innlendum markaði sem ráð var gert fyrir í upphaflegum fjárlögum.

Í minnihlutaáliti fjh.- og viðskn. við fyrri umr. þessa máls í þessari hv. deild var minnt á önnur óleyst dæmi. Þar er um að ræða skuldir sjávarútvegsins upp á 1000–1500 millj. sem spurning er hvernig eigi að leysa og ólíklegt að verði leystar örðuvísi en með erlendum lánum. Það eru skuldir í landbúnaði upp á 150–200 millj. og það er búið að upplýsa að þeim skuldum verður bjargað með erlendu lánsfé. Alls eru þetta um 1150–1700 millj. Eitthvað af því eru erlend lán og hverjar 600 millj., sem við tökum að láni til viðbótar erlendis, færa okkur nær hinu fræga 60% marki sem allir vita hvað þýðir.

Í fljótheitum yfirfarið er alveg greinilegt að áætlanir ríkisstj. annars vegar og áætlanir Byggingarsjóðs ríkisins hins vegar um tekjuöflun og úthlutun fjár úr Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna fara alls ekki saman. Mjög líklegt er að þar vanti, þegar upp er staðið, nokkur hundruð millj. kr. og því alls ekki svarað hvernig ætlast er til að endar nái saman. Á meðan að svona stórir þættir eru jafnóljósir og raun ber vitni er náttúrlega ekki von að menn treysti sér í raun og veru til að taka afstöðu til þessara laga, hvorki með né á móti, og skiljanlegt að stjórnarandstaðan kjósi einna helst í því tilviki einfaldlega að sitja hjá.

Við erum líklega heppin að þessi lög fara ekki oftar á milli deilda því að litlir póstar sem voru upphaflega með 2.6 millj. eins og Kristnisjóður eru komnir upp í 3.6 með því að sigla hér á milli deilda og svo er þessi furðulega heimild um niðurfellingu lendingargjalda Flugleiða sem er eins óskynsamleg og hugsast getur.

Ekki þarf nokkur maður annað að gera en að taka upp símann og hringja í Flugleiðir til að komast á snoðir um að fyrirtækið gerir ráð fyrir hagnaði á þessu ári. Jafnvel þótt lendingargjöld séu reiknuð inn í rekstraráætlun fyrirtækisins og þó að einhver halli sé á einhverjum hluta rekstrarins, þ. e. Norður-Atlantshafsfluginu, getur það alls ekki leitt til þess að ríkisstj. fari að hlaupa undir bagga með fyrirtækinu og styrkja það. Það verkar ekki öðruvísi en letjandi á fyrirtækið í sambandi við að halda sig við gerðar rekstraráætlanir og hjálpar því við að sofna á verðinum.

Mjög áberandi þáttur í öllum hugmyndum ríkisstj. um áframhald þessara mála er að ákveðin bjartsýni sem ríkti í upphafi um öflun lánsfjár á innanlandsmarkaði er þrotin. Svo virðist sem þessi bjartsýni fari dvínandi af eðlilegum orsökum vegna þess að menn horfa fram á það að í rauninni er afskaplega lítið fé að fá á innlendum lánsfjármarkaði, því er öllu meira og minna eytt og stýrt í gegnum ríkisafskipti. Því er það hverju barni augljóst að vandi ríkissjóðs verður ekki leystur nema annaðhvort með erlendu lánsfé, seðlaprentun eða skattlagningu. Eitthvað af þessu er á leið inn í kassann með skattlagningunni en reyndar kannske á leið út úr honum aftur með svona styrkjum eins og til Flugleiða. Þannig að búast má við því að það sem við erum að horfa upp á hér sé aðeins fyrsti stóri ósigurinn af mörgum. Það næsta sem við eigum von á eru auknar erlendar lántökur og seðlaprentun.

Í mínum augum sem nýliða á þingi hefur annað verið mjög áberandi að mínu mati. Við erum að tala um rekstur fyrirtækis sem er ekki ýkja stórt, ríkissjóður er líklega ekki miklu meira en 20 sinnum stærra fyrirtæki en Flugleiðir. Að jafnmargir og jafnstórir þættir skuli geta verið svona óljósir eins og fram kom við meðhöndlun þessara mála í n., að málefni upp á tugi og jafnvel hundruð milljóna séu að skjóta óvænt upp kollinum eða mönnum einfaldlega falli þau úr minni á milli daga, stappar nærri furðu fyrir hvern mann sem heldur að þessir hlutir gangi eftir mjög skipulögðum og fastmótuðum leiðum.

Ég tek þá áhættu að hæstv. fjmrh. segi að ég sé alltaf að segja það sama og vil minna enn einu sinni á að það hlýtur að vera eðlileg hugsun miðað við þessa reynslu að hér sé virkileg nauðsyn ákveðinna kerfisbreytinga sem leiði til annarra vinnubragða og dragi einfaldlega úr verkefnum bæði á tekju- og framkvæmdasviði ríkissjóðs og dreifi því verkefni á fleiri herðar en gert er í dag.