20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3892 í B-deild Alþingistíðinda. (3316)

224. mál, ráðstöfun gegnismunar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að fagna því að niðurstaða er fengin í því að til verði nefnd á vegum allra flokkanna um öryggismál sjómanna. Mér sýnist að hér hafi hugmyndin komist greiðlega á blað og henni verið hrint fljótt í framkvæmd. Ég hef fyrir mitt leyti ekkert við það að athuga að það verði ríkisstj. sem skipi nefndina að öðru leyti en því að ég teldi að til greina kæmi að það verði forsrn. sem hafi með þessa nefnd að gera vegna þess að öryggismál sjómanna snerta ekki bara eitt rn. heldur mörg. Ég vil beina því til hæstv. ríkisstj. að menn íhugi það alvarlega hvort mál af þessum toga á ekki heima undir forsrn.

Þá vil ég í sambandi við lífeyrismál sjómanna benda hv. 3. þm. Vestf. á að lesa þskj. 94, 87. mál. Það er till. til þál. um lífeyrismál sjómanna sem ég hef flutt ásamt sex öðrum þm. Alþb. þar sem saga þessara mála er rakin mjög samviskusamlega. Ég vænti þess að hann hafi að loknum lestri þeirrar grg. betri upplýsingar um málið en mér virtist hann hafa í ræðum sínum áðan.