20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3897 í B-deild Alþingistíðinda. (3323)

237. mál, sullaveiki

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Svar við fyrri spurningunni:

Þeir sem hafa kynnt sér sögu heilbrigðismála hér á landi vita að einhver alvarlegasta og langvinnasta plágan sem gengið hefur yfir landið var sullaveikisplágan. Um tíma var því haldið fram að allt að fjórðungur Íslendinga væri haldinn þessari veiki.

Ekki gekk þrautalaust að sannfæra landsmenn um að sullaveiki í mönnum mætti rekja til hunda. Að fáu var gert meira gys um miðja síðustu öld en þeirri skoðun Jóns Hjaltalíns landlæknis að sullur í mönnum væri úr hundum kominn. Áttu þar jafnt hlut að máli embættisbræður hans.

Nú er öldin önnur. Í ár eru 115 ár liðin frá því að fyrstu lög voru sett hér á landi til að stemma stigu við þessum ófögnuði. Í fyrstu þokaði hægt, enda skorti þá enn mikið á skilning landsmanna. Eftir aldamótin fór árangur að koma verulega í ljós og árið 1924, þegar lög voru sett er heimiluðu bæjarstjórnum og hreppsnefndum að takmarka eða banna hundahald í kaupstöðum og kauptúnum, voru sullaveikitilfelli fá og þegar lögin voru endurskoðuð 1953 svo til engin. Er því óhætt að fullyrða að tekist hafi á þessum tíma að komast fyrir þennan ófögnuð.

Fyrir skömmu greindist sullaveiki í manni á Akureyri og er það fyrsta skráða tilfellið í rúm 20 ár. Nú nýverið hefur komið upp annað tilfelli í sama kaupstað. Ég geri fastlega ráð fyrir að þetta tilfelli sé ástæðan fyrir fsp. sem hér er lögð fram.

Þótt tvö tilfelli hafi komið upp er ekki ástæða til þess að óttast útbreiðslu veikinnar. Ekki liggur t. d. fyrir hversu lengi sullurinn hafði grafið um sig. Sá tími gæti jafnvel skipt árum eða tugum ára. Ekki liggur heldur fyrir hvar sullurinn barst í manninn. Það gætu sjálfsagt margir staðir komið til greina. Eins ber að líta á að sull er víðar að finna en hér á landi. Nágrannaþjóðir, sem búa við lengri baráttusögu gegn þessum vágesti en við, telja sig þurfa að halda vöku sinni.

Ég tel ekki ástæðu til sérstakra aðgerða í þessu máli umfram þær sem gildandi lög og reglur bjóða. Síst skal ég þó gera lítið úr hættunni. Hún er vissulega fyrir hendi og nauðsynlegt að vera vel á verði. Hins vegar tel ég að nútímaheilbrigðisþjónusta og heilbrigðiseftirlit sé það öflugt fyrirbæri að lítil hætta sé á útbreiðslu sullaveikinnar.

Síðari spurning: Gildandi lög um sullaveikivarnir eru lög nr. 7 frá 1953, en í 6. gr. þeirra segir að heilbrmrn. setji, í samráði við landtækni og yfirdýralækni, reglugerð um hreinsun hunda vegna bandorma, meðferð sulla úr sláturfé svo og annað, er þurfa þykir til útrýmingar sullaveiki. Þessi reglugerð var gefin út 31. desember 1957. Um þessa þætti höfðu áður gilt reglugerðir fyrir einstakar sýslur og kaupstaði.

Því hefur verið haldið fram að reglugerð þessari sé slælega fylgt eftir, sérstaklega ákvæðum er skylda hundaeigendur til að láta hreinsa hunda af bandormum einu sinni á ári. Víst er að víða er pottur brotinn í þessum málum. Hins vegar tel ég að reglugerðinni sé í megindráttum fylgt þar sem hundahaldsmál eru tekin föstum tökum, en svo er á velflestum stöðum á landinu. Því miður á þetta ekki við um langfjölmennasta byggðarlag landsins, Reykjavík, en þar er hundahald bannað og ætti því ekki að vera þörf fyrir hundahreinsun. Annað væri tvískinnungur. Staðreyndirnar tala hins vegar öðru máli og er brýn þörf fyrir hundahreinsun þar.

Hundahaldsmál eru sveitarstjórnarmál og ákvörðun um bann og takmörkun hundahalds á þeirra færi en ekki ráðh. eða rn. Mér er því mjög óljúft að skipta mér af þessu máli í Reykjavík eða annars staðar. Hins vegar verður ekki til lengdar búið við ófremdarástand er ríkir í þessum málum í Reykjavík. Ég verð að treysta borgaryfirvöldum fyllilega til að leysa þessi mál og vænti þess að svo verði gert bráðlega.

Ég tel ástæðulaust að láta fara fram úttekt á framkvæmd þeirra reglna er gilda um hundahreinsun því eins og áður segir tel ég okkur vita þetta í stórum dráttum. Hins vegar mun ég beita mér fyrir því í rn. að reglugerðin frá 1957 um sullaveikivarnir verði endurskoðuð, ekki síst með hliðsjón af þeim breytingum sem átt hafa sér stað á löggjöf um heilbrigðiseftirlit, nú síðast með lögum nr. 50/1981 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Samkvæmt því kerfi sem komið er á fót með þeim lögum, þ. e. stóraukið heilbrigðiseftirlit sérstaklega í strjálbýlinu, ættu að vera miklu betri möguleikar á því að framfylgja eftirliti með hundahreinsun. Þessi endurskoðun gæti t. d. leitt í ljós misbresti á framkvæmdinni, sem mér eru ekki kunnir, og mun ég þá vitanlega taka á þeim.