20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3909 í B-deild Alþingistíðinda. (3338)

215. mál, kafarar Landhelgisgæslunnar

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Hv. 12. þm. Reykv. hefur gert grein fyrir fsp. sem hann ber fram til mín um kafara á skipum Landhelgisgæslunnar.

„1. Hafa kafarar starfað á skipum Landhelgisgæslunnar á liðnum árum:

a) ráðnir sem kafarar?

b) ráðnir til annarra starfa samhliða?“

Fljótlega eftir að Landhelgisgæslan tók til starfa 1926 var ráðinn kafari til hennar. Jafnframt kafarastörfum vann kafarinn ýmsa vinnu á þilfari og var málum svo háttað fram á sjötta áratuginn. Þá ruddi sér til rúms svonefnd froskköfun. Þótti eðlilegt að nýta þá köfunartækni um borð í varðskipunum og var köfurum fjölgað um leið. Varðskipsmönnum sem þess óskuðu var gefinn kostur á að læra froskköfun gegn því að vinna við köfunarstörf þegar á þyrfti að halda. Engin kvöð eða skylda fylgdi þessu aukastarfi og gátu menn hætt því þegar þeim þóknaðist. Þetta fyrirkomulag hefur haldist síðan og öðru hverju hefur einstaka starfsmönnum Landhelgisgæslunnar verið gefinn kostur á að sækja kafaraskóla erlendis. Er einn kafari nú nýkominn frá námi.

Í öðru og þriðja lagi er spurt: Eru kafarar nú að störfum á skipum Landhelgisgæslunnar og ef svo er ekki, af hverju?

Eins og er starfa kafarar ekki á varðskipum ríkisins þar eð ekki hefur náðst samkomulag um kaup þeirra og kjör. Síðast á árinu 1982 sögðu kafarar upp því samkomulagi sem gert hafði verið við fjármálastjóra skiparekstrar ríkisins. Eftir nokkrar samningaviðræður, er vinnunefnd ríkisins taldi sig hafa boðið alla þá hækkun þóknunar sem fært þótti, var köfurum boðið að láta gerðardóm fjalla um laun þeirra og kjör. Því tilboði höfnuðu kafarar og skiluðu tækjabúnaði sínum og tóku því ekki lengur að sér köfun sem aukastarf. Reynt var þá að ná bráðabirgðasamkomulagi meðan hlutlausir aðilar fjölluðu um málið, en það tókst því miður ekki.

Ég hef átt viðræður um þetta mál við Landhelgisgæsluna og einnig við fulltrúa kafara og er óhætt að fullyrða að fullur vilji er hjá báðum aðilum um að ná samkomulagi í þessari deilu. Að því hefur verið unnið að undanförnu og nú er verið að leggja síðustu hönd á gerð starfs- og öryggisreglna, sem ekki voru til áður og blönduðust því inn í samningagerðina. Þar kemur einmitt við sögu það atriði, sem hv. fyrirspyrjandi gat um, áð það væru tveir kafarar á skipi, þar sem köfun færi fram, til þess að ekki væri lagt í of mikla hættu fyrir einn mann.

Jafnframt því að verið er að ljúka við frágang á þessum reglum er unnið að hinni hlið málsins, þ. e. um kjörin að öðru leyti. Vonast ég fastlega til þess að samningar takist alveg á næstunni, þannig að deila þessi verði þá úr sögunni.

Stjórn Landhelgisgæslunnar er ljóst hversu mikilvægt er að á skipum Landhelgisgæslunnar séu ætíð til reiðu vel þjálfaðir kafarar og mun hún því leggja sig fram um að þetta samkomulag takist.