20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3912 í B-deild Alþingistíðinda. (3342)

433. mál, breytingar á byggingarreglugerð

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin. Það er ánægjuefni að hann hefur látið vinna hratt í þessu máli, því að eins og hv. alþm. heyrðu er ekki hér um neitt smámál á ferðinni. Það hefur mikla þjóðhagslega þýðingu.

Það er aðeins eitt atriði. Hæstv. ráðh. gat þess, ef ég tók rétt eftir, að reglugerðin ætti að taka gildi 1. júní 1984, á þessu ári. Það er spurning hvort þá er nægur aðlögunartími fyrir þá sem eiga að lúta þessari reglugerð. En það er þó minna atriði hjá hinum, að hér hefur verið tekið til hendinni á þessu sviði. Kannske væri þó ástæða til að benda hæstv. ráðh. á að láta rn. sitt kynna þessa reglugerð vandlega fyrir þeim sem eiga að lúta ákvæðum hennar.