20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3913 í B-deild Alþingistíðinda. (3344)

436. mál, snjóflóðavarnir

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Sem svar við fsp. á þskj. 405 vil ég gefa eftirfarandi svar: Þann 3. maí 1983, réttum tveimur árum eftir samþykkt þáltill. sem hv. þm. vísaði til, skipaði fyrrv. félmrh. Svavar Gestsson 9 manna nefnd sem hafa skyldi forustu um að efla varnir gegn snjóflóðum í landinu. Starfsmaður hennar hafði gert kostnaðaráætlun yfir störf þeirrar nefndar fyrir tímabilið júní-sept. 1983, sem var aðeins fyrsti undirbúningur að starfi nefndarinnar. Hljóðaði sú kostnaðaráætlun upp á 465 þús. kr. Að auki var svo kostnaður yfir önnur störf fyrir nefndina. Hér var um talsvert stóra upphæð að ræða og fé ekki fyrir hendi. Svo og var umgjörðin um starfið svo mikil að ekki þótti tryggt að það skilaði nægjanlegum árangri það fljótt miðað við tilkostnað. Þá þótti um of treyst á sérfræðiþjónustu erlendis frá, en nauðsynlegt er að auka þekkingu heimamanna á þessum málum svo að staðarþekking geti komið að sem mestum notum. Því var það að í samráði við sérfróða menn á þessu sviði ákvað ég sem félmrh. áð leysa nefnd þessa frá störfum enda hafði hún ekki hafið störf. Var það gert með bréfi 4. júlí 1983.

Með bréfi dags. 21. júlí 1983 skipaði ég svo nefnd til þess að samræma störf opinberra aðila í þeim tilgangi að koma svo sem unnt er í veg fyrir tjón og slys af völdum snjóflóða og skriðufalla. Í nefndina voru skipaðir Jóhann Einvarðsson, sem er formaður nefndarinnar, Hafliði Helgi Jónsson veðurfræðingur frá Veðurstofu Íslands, Helgi Björnsson jöklafræðingur frá Rannsóknastofnun Háskóla Íslands, Helgi Hallgrímsson yfirverkfræðingur Vegagerðar ríkisins og Magnús E. Guðjónsson framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga. Í skipunarbréfi nefndarinnar var gert ráð fyrir því að hún skilaði áfangaskýrslu fyrir 10. okt. 1983. Þessi áfangaskýrsla barst frá nefndinni til ráðh. dags. 1. nóv. og þykir mér rétt að lesa úr þessari áfangaskýrslu sem skýrir nokkuð málið og hvað verið er að gera í þessum málum:

„Í skipunarbréfi ráðh. er nefndinni ætlað að gera heildaráætlun um aðgerðir, tímamörk til framkvæmda og fjármögnun og skila tillögum sínum fyrir 10. okt. 1983. Nefndinni reyndist ekki unnt að afgreiða alla þætti þessa máls fyrir þann tíma en hefur ákveðið að skila eftirgreindu áliti og tillögum sem áfanga í starfi sínu. Er þar miðað að því að efla þá starfsemi sem fyrir er á Veðurstofu Íslands og Almannavörnum ríkisins og auka hlutdeild sveitarfélaga í því starfi. Auk þess að leggja grundvöll að öðrum þáttum snjóflóða- og skriðuvarna sem hingað til hefur lítið eða ekkert verið sinnt. Í fyrsta lagi mælir nefndin með eftirfarandi skipulagi svonefndra skammtímavarna:

1. Á Veðurstofu Íslands fari fram eftirlit með snjósöfnun á landinu öllu, mat á svæðisbundinni snjóflóðahættu og aðvaranir þar að lútandi gefnar út.

2. Í 5 kaupstöðum, Patreksfirði, Ísafirði, Siglufirði, Seyðisfirði og Neskaupstað, séu eftirlitsmenn sem í samræmi við tilmæli og leiðbeiningar Veðurstofu Íslands geri athuganir á veðri, snjóalögum og snjóflóðum og meti snjóflóðahættu í byggðarlaginu.

3. Á öllum öðrum þéttbýlisstöðum þar sem snjóflóð geta ógnað byggð séu menn með þekkingu til þess að meta staðbundna snjóflóðahættu og geti því verið almannavarnanefndum staðanna til ráðgjafar, a. m. k. þegar svæðisbundnar aðvaranir berast þeim. Í þessu sambandi leggur nefndin til að þeir ofangreindu kaupstaðir sem ekki hafa eftirlitsmann nú þegar ráði slíkan mann strax eða feli starfsmanni á sínum vegum þetta eftirlit. Hér gæti verið um 1/3 eða 1/2 starf að ræða u. þ. b. hálft árið, breytilegt milli staða og ára en í öllum tilfellum hlutastarf. Að ríkissjóður beri að hluta kostnað af starfi þessara eftirlitsmanna. Að haldið verði á vegum Almannavarna ríkisins og Veðurstofu Íslands námskeið í snjóflóðafræðum fyrir þessa eftirlitsmenn og þá menn sem aðrar sveitarstjórnir eða almannavarnir vel] a til að afla sér slíkrar þekkingar.

Í öðru lagi er ljóst að víða þarf að koma upp varanlegum vörnum, mannvirkjum, sem miða annaðhvort að því að koma í veg fyrir að snjóflóð verði eða gera þau skaðlaus. Áður en af framkvæmdum í þá veru getur orðið er mikið verk óunnið og á þessu stigi ekki unnt að leggja fram ákveðnar tillögur um það. Hins vegar er ljóst hvaða gögn þurfi að leggja til grundvallar þessari vinnu og söfnun þeirra gagna gæti hafist strax. Nefndin leggur því til að kort í hæfilegum mælikvarða verði gerð af öllum þéttbýlisstöðum sem snjóflóð og skriðuföll ógna, séu þau ekki þegar fyrir hendi. Kort þessi nái til upptakasvæða snjóflóða og skriðufalla og inn á þau séu færð öll þekkt snjóflóð og skriðuföll. Að loftmyndir séu teknar af þessum þéttbýlisstöðum og fjöllunum í kringum þar sem þær eru ekki þegar til. Að Veðurstofu Íslands verði falið að afla þessara gagna. Að Viðlagatrygging beri kostnað af þessari gagnasöfnun þar sem þarna er um fyrirbyggjandi aðgerðir að ræða.

Í þriðja lagi þykir rétt að ríkissjóður gefi eftir aðflutningsgjöld og sölugjöld af efni og tækjum sem flutt eru til landsins til snjóflóða- og skriðuvarna.

Í fjórða lagi leggur nefndin til að komið verði í veg fyrir undanþágur frá skipulagslögum um byggingar mannvirkja í þekktum farvegum snjóflóða og jafnframt að lagt verði að sveitarstjórnum að heimila ekki framkvæmdir í næsta nágrenni slíkra farvega þegar fyrir liggur sérfræðileg skilgreining á hættusvæðum þeirra. Nákvæmari tillagna eða skilgreiningu hættusvæða og hugsanlegrar lagabreytingar er að vænta síðar.

Í framhaldi af þessari áfangaskýrslu mun nefndin leggja megináherslu á að kanna þörf á lagabreytingum og vinna að tillögum um frekari samræmingu á störfum opinberra aðila að snjóflóða- og skriðuvörnum, þ. e. hvernig standa skuli að skiptingu lands í hættusvæði, byggingu varnarvirkja og fjármögnun þess.

Reykjavík, 1. nóv. 1983.

Undirskrift nefndarmanna.“

Síðan þessi skýrsla var samin hefur verið ákveðið að bæta Ólafsvík við þá staði þar sem nauðsynlegt er talið að hafa fastráðna eftirlitsmenn jafnframt því sem kannað verður hvort kort staðarins nái til upptakasvæða snjóflóða, sem talið er nauðsynlegt, annars bætt úr því. Þá hefur rn. í samræmi við till. nefndarinnar beitt sér fyrir ráðningu sérstakra eftirlitsmanna á Patreksfirði og Ísafirði og unnið að því í Ólafsvík og starfa þessir menn í samráði við atmannavarnanefndir staðanna svo og Veðurstofu Íslands. Fyrir voru í starfi eftirlitsmenn á Siglufirði, Seyðisfirði og Neskaupstað. Rn. hefur falið skipulagsstjóra að taka saman kort og loftmyndir af snjóflóðasvæðum þar sem það er ekki fyrir hendi.

Þá var undirbúið á vegum nefndarinnar í samráði við Almannavarnir ríkisins námskeið fyrir eftirlitsmenn og aðra, t. d. almannavarnanefndarmenn og björgunarsveitarmenn og fleiri. Var 27 aðilum gefinn kostur á að senda fulltrúa á námskeiðið og þetta námskeið var haldið hér í Reykjavík dagana 16. og 17. mars s. l. Það var von rn. að sem flestir þessara staða sendu fulltrúa á námskeiðið og það varð að veruleika því að þetta námskeið var vel sótt og vel heppnað að öllu leyti. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég er að ljúka máli mínu. Skv. ósk rn. var samþykkt við afgreiðslu fjárlaga að ríkissjóður felli niður eða endurgreiði aðflutningsgjöld og söluskatt af efni og tækjum sem flutt eru til landsins til snjóflóða- og skriðuvarna en með því getur verið um mikilsverðan stuðning að ræða ef hagkvæmt er að byggja og/eða reisa mannvirki. Síðan nefndin skilaði áfangaskýrslu sinni 1. nóv. s. l. hefur hún starfað áfram að verkefni sínu eins og fram hefur komið og einbeitir sér nú fyrst og fremst að því að kanna þörf á lagabreytingum og tillögugerð um frekari samræmingu á störfum opinberra aðila að snjóflóða- og skriðuvörnum og hvernig standa skuli að skiptingu landsins í hættusvæði, byggingu mannvirkja og fjármögnun þess. Mjög hæfir menn skipa þessa nefnd og er þess að vænta að frá henni komi raunhæfar tillögur sem verði til að skila jákvæðum árangri til varnaraðgerða gegn snjóflóðum. Alþingi verður að sjálfsögðu gerð grein fyrir þessum tillögum.