20.03.1984
Sameinað þing: 68. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3929 í B-deild Alþingistíðinda. (3363)

184. mál, friðarfræðsla

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Ég mæli hér fyrir till. til þál. um friðarfræðslu, sem er 184. mál í Sþ. á þskj. 328. Meðflm. mínir eru hv. þm. Eiður Guðnason, Guðmundur Bjarnason, Guðrún Helgadóttir, Gunnar G. Schram, Helgi Seljan, Jóhanna Sigurðardóttir, Kristín Halldórsdóttir, Kristín S. Kvaran, Páll Pétursson, Salome Þorkelsdóttir, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og Stefán Benediktsson.

Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntmrh. að hefja undirbúning að frekari fræðslu um friðarmál á dagvistunarstofnunum, í grunnskólum og framhaldsskólum landsins. Markmið fræðslunnar verði að glæða skilning á þýðingu og hlutverki friðar og rækta hæfileika til þess að leysa vandamál án ofbeldis og leita friðar í samskiptum einstaklinga, hópa og þjóða.“

Sameinuðu þjóðirnar voru settar á stofn árið 1945 eftir síðari heimsstyrjöldina og var meginmarkmið þeirra að varðveita frið og öryggi á alþjóðavettvangi. Í stofnskrá sinni einsettu þær sér enn fremur að stuðla að friðsamtegri sambúð milli þjóða á grundvelli jafnréttis og sjálfsákvörðunarréttar. Jafnframt að koma á fót alþjóðasamstarfi til að leysa vandamál af efnahagslegum, félagslegum, menningarlegum eða mannúðartoga spunnin og að gegna hlutverki miðstöðvar til að samræma aðgerðir þjóða til að ná þessum sameiginlegu markmiðum.

Ég tel víst að mönnum hafi þótt friðurinn langþráður en brothættur og vandmeðfarinn eftir sex ára mannskæða styrjöld, sem lauk með því að tveimur kjarnorkusprengingum var varpað á Japan. Eftir að þessum vopnum hafði verið beitt var eins og aldrei yrði aftur snúið til þess ástands sem ríkti áður en slík vopn höfðu verið notuð. Hryllingur og örvænting síuðust smám saman inn í hugskot æ fleiri kvenna og karla, líkt og síðbúin áhrif geislavirkni, eftir því sem vitneskja um tortímingargetu vopnanna varð meiri. Og fólk spurði sig hvort stjórnendur hefðu nú loks gengið of langt með því að styðja uppfinningu og beitingu vopna sem eðlis síns vegna mundu gera seinni heimsstyrjöldina að þeirri síðustu.

Árið 1945 virtist þetta mögulegt. En menn sinntu ekki aðvörunum eða voru of ómeðvitaðir um afleiðingarnar. Tækifærinu til að byggja heilvita heim á fyrstu árunum eftir lok heimsstyrjaldarinnar var glatað og hver þjóðin fylgdi á hæla annarrar niður hina hálu braut til glötunar. Hver á fætur annarri vígbjuggust þær á ný og þær sem gátu komið sér upp kjarnorkuvopnum í þeirri trú að það tryggði stöðu þeirra, án tillits til eðlis þessara vopna, og í krafti þeirra viðhorfa að beita megi sömu hernaðarlist um kjarnorkuvopn og hefðbundin vopn, hafa stjórnvöld síðan sankað að sér sívaxandi vopnabirgðum í þeirri von að fleiri vopn tryggðu meira öryggi. Þess vegna búum við nú á barmi hyldýpis og við okkur blasa meiri ógnir en mannkynið hefur nokkru sinni horfst í augu við. Veröld okkar má líkja við sjúkan mann og eitt af einkennum sjúkdóms okkar er hinn bráðsmitandi eiginleiki að eignast óvini og síðan að óttast hvað þeir óvinir geti gert okkur. Fyrrum óvinir verða bandamenn, gamlir bandamenn verða óvinir. Vopn eru notuð í æ ríkara mæti til að stjórna samskiptum milli ríkja og hafa verið notuð í hinum mörgu bardögum, stríðum og styrjöldum sem háð hafa verið síðan 1945.

En kjarnorkuváin hefur vakið fólk til meðvitundar um það að leiðtogar þess, hvort sem þeir eru hernaðarsérfræðingar, ábyrgir stjórnmálamenn eða ráðamenn ríkjanna, hafa ekki lengur stjórn á þeim vopnabirgðum sem þeir hafa fjárfest í. Þeir eru læstir inni í vítahring vígbúnaðarkapphlaupsins og virðast ekki eygja leið til undankomu eða úrlausnar. Ef gáð er að yfirlýsingum þeim er leiðtogar stórveldanna hafa gefið s. l. 20 ár má finna margendurteknar og ítrekaðar athugasemdir um það hve hræðileg, hættuleg og ónothæf kjarnorkuvopn eru í raun og veru. Slíkum vopnum megi aldrei beita. Þetta hafa þeir haft á orði, bæði austan hafs og vestan mann fram af manni. Þetta er í orði, en hvað er á borði?

Þrátt fyrir allar þessar yfirlýsingar hafa þeir keppst við mann fram af manni að láta smíða æ hræðilegri, hættulegri, markvissari, kraftmeiri, dýrari og sífellt ónothæfari kjarnorkuvopn. Það er eins og mönnum sé ekki sjálfrátt. Eru þeir fangar martraðar eða getur það verið að það sé einhver ávinningur af því að halda hæfilegri úlfúð gangandi í trausti þess að hún verði hamin? Getur það verið að einhverjir, bæði austan hafs og vestan, hagnist á því að ala á ótta manna, virkja eðlislæga tortryggni og ótta sem býr í brjóstum mannanna og beina þeim að ákveðinni óvinaímynd, Bandaríkjagrýlunni fyrir austan og Rússagrýlunni fyrir vestan? Það væri þá ekki í fyrsta sinn sem grýla hefur verið notuð á mannanna börn til að hræða þau til hlýðni. Og grýturnar nærast á óttanum og óvinaímyndin er nauðsynleg til að réttlæta vígbúnaðarkapphlaupið.

Eisenhower Bandaríkjaforseti sagði fyrir rúmum 20 árum, með leyfi forseta:

„Við verðum að vera á varðbergi gegn því að hergagnaiðnaðurinn nái óréttlætanlegum áhrifum, hvort sem slíkt verður af ásetningi eða ekki. Möguleikinn á óheillavænlegri valdatilfærslu er og mun verða fyrir hendi. Við skulum ekki ganga að neinu sem vísu.“

Stórveldin tvö hafa bæði fallið í þá gildru sem blind tæknihyggja býr börnum sínum. Hvort um sig framleiðir vopn sem gera vopn hins aðilans úrelt. Í væntingu þessa reyna báðir að framleiða vopn sem tryggja þá gegn þessari fyrningu en gefa yfirburði. Þessum ferli tæknilegra landvinninga er síðan viðhaldið af hagsmunaaðilum á sviðum efnahags, skriffinnsku og hernaðar. Vígbúnaðarkapphlaupið skapar verkefni fyrir opinber og einkafyrirtæki og veldur skriffinnskuþenslu í hernaðarmálaráðuneytum og vopnasmiðjum.

Það er viss tregða í kurteislegum og varfærnum samræðum fólks að ræða um fjárhagslegan ávinning vígbúnaðarkapphlaupsins. Getur það verið að eitthvað sem er svona fjandsamlegt lífi, eitthvað sem ber í sér sæði hörmungarinnar, útrýmingarinnar, stjórnist af gróðasjónarmiðum einstaklinga, fyrirtækjasamsteypa eða stjórnaraðila ríkja? En fjármagnsspámenn og aðrir slíkir fræðingar eru ekki svona bældir og feimnir. Þeir segja viðskiptavinum sínum óspart og ótvírætt frá vænlegum fjárfestingarhorfum fyrirtækja vegna vaxandi skerfs á fjárlögum til hergagnaiðnaðar og ráðleggja samkvæmt því. Það er mælikvarði á það vægi sem hagsmunir fjármuna og skriffinnsku geta haft í þessum efnum að þeir geta fangað svo hugi þeirra manna sem þessir hagsmunir höfða til að þeir hugsa ekki um endanlegar afleiðingar, hugsa ekki dæmið til enda. Það er líkt og raunveruleikamat þeirra sé skert, eins og tjald sé dregið fyrir framtíðina, og þeir láta sér nægja ágóða dagsins í dag, en leiða ekki hugann að því að brauðið í dag er dauði þeirra og barna þeirra á morgun. Það er líkt og tengslin hafi rofnað milli huga og hjarta, sami skortur, sama brenglun og hjá vísindamanninum sem fer í vinnuna sína á morgnana og uppgötvar hvernig má koma 10 kjarnaoddum fyrir á einni sprengju í stað sex, fer síðan heim, minnir börnin sín á að bursta tennurnar, býður þeim góða nótt með kossi, elskar konuna sína og sofnar ánægður með afrek dagsins, án nokkurrar hugsunar sem setur framtíðaröryggi fjölskyldu hans í samhengi við eigið dagsverk.

En stórveldin eru tvö og bæði eiga þau hlut að máli. Við tilheyrum vestari heildinni, þar sem umræða er opnari og upplýsingar auðfengnari. Þess vegna er okkur eðlilegra að vísa til þeirra, draga ályktanir af þeim og reyna að hafa áhrif á gang mála þar. Við vitum minna um þau öfl sem ráða vopnaiðnaði í Sovétríkjunum en þótt þar ráði aðrar ytri aðstæður eru ástæðurnar samsvarandi. Við vitum að þar er notuð grýla sem nærist á ótta og miðar að því að treysta valdakerfi. Bæði stórveldin hafa svo endanlega almenna en samt áhrifamikla ástæðu til að viðhalda vígbúnaðarkapphlaupinu, en það er trúin á það að verið sé að varðveita efnahagslegt, pólitískt og félagslegt kerfi. Og þau skulu vernduð, að því er virðist, hvað sem það kostar.

Með því að safna vopnum og beita sífellt flóknari og hættulegri hernaðartækni reyna menn að verja lífshætti og hagkerfi, en í stað þess að varðveita þau dregur vígbúnaðarkapphlaupið úr styrk þeirra og veikir þau, veikir þau með því að rýja þau fjármagni og draga þannig úr umsvifum þeirra og síðan með því að ógna tilvist þeirra.

Ef til kjarnorkuátaka kemur, hvort heldur það verður vegna tæknimistaka, slysni, reiði, stundarótta eða af ásettu ráði, þá verður ekki um neitt hagkerfi að binda. Óbeisluð kjarnorkustyrjöld mundi deyða hundruð milljóna manna á augabragði. Siðmenningin og hagkerfin yrðu lögð í rúst og framtíð þeirra sem kynnu að lifa af fyrstu hryðjuna væri ótrygg ef nokkur. Heilbrigðisstéttirnar eða það sem eftir væri af þeim yrðu hjálparvana og gætu á engan hátt veitt nauðsynlega aðstoð. Slík óbeisluð kjarnorkuátök yrðu ekki sambærileg við nein vistfræðileg áföll skráðrar sögu okkar og mundu skilja eftir valdbeittan lífheim, jörð eitraða af geislavirkni. Ef það yrðu einhver börn til að erfa þessa jörð þá væru þau ekki öfundsverð af því að langtíma áhrif kjarnorkusprenginganna mundu sjá til þess að menga þau með geislavirkni. Í sannleika sagt, ef við lítum á allt það sem við vitum og miklu fremur á allt það sem við vitum ekki um áhrif margfaldra kjarnorkusprenginga, þá er rík ástæða til að óttast um framtíð mannlífs á þessari jörð.

Ég minntist áðan á þá viðleitni stórveldanna að reyna að ná yfirburðum á sviði kjarnorkuvopna. Slíkt er tóm blekking. Svonefnda yfirburði hvað varðar tölu eða gerð vopna er ekki hægt að nýta til hernaðarsigurs. Óvinur sem væri minnimáttarkjarnorkuveldi gæti samt gjöreyðilagt andstæðing sinn, þann sem hefði yfirburðina. Sú staðhæfing að annar hvor aðilinn geti verið undir eða ofan á, sé kominn fram úr eða hafi dregist aftur úr í kapphlaupinu um kjarnorkuvopnin hefur ekkert gildi lengur, enga skynsemi eða glóru. Kjarnorkuvopn eru ekki lengur nothæf sem tæki til að ná skynsamlegum pólitískum markmiðum. Eyðileggingarmáttur þeirra vopnabirgða sem Bandaríkin og sovétríkin eiga nú er langtum meiri en mögulegur fjöldi skotmarka beggja aðila. Því er það blekking að fleiri kjarnorkuvopn af hvaða tagi sem er gefi nokkra hernaðarlega eða pólitíska yfirburði. Við getum ekki dáið nema einu sinni.

Ég hef minnst á það mannvit sem helgað er hergagnahönnun og það fjármagnsstreymi sem rennur til vígbúnaðar. Það hlýtur að vera svipað hjá báðum stórveldunum en við höfum miklu minni upplýsingar um Sovétríkin en Bandaríkin. Því vitna ég til þeirra síðarnefndu í trausti þess að svipað gildi um báða aðila.

Á s. l. áratug eyddu Bandaríkin hundrað milljörðum Bandaríkjadollara í varnarmál á hverju ári, þ. e. um 1000 milljörðum á gengi dollarsins eins og það var skráð 1976. Það er erfitt að gera sér raunhæfar hugmyndir um slíkar risaupphæðir, en þær má annaðhvort nota til vopnakaupa eða einhvers annars, eins og að styrkja atvinnuvegi landsins, t. d. iðnað. Það er ekkert launungarmál en mikið áhyggjuefni í Bandaríkjunum að samkeppnisaðstaða þeirra í iðnaði á heimsmarkaðnum hefur orðið mun lakari á s. l. árum en t. d. Vestur-Þjóðverja og Japana. Þó eru hráefni og orkulindir Bandaríkjanna ríkulegri en beggja þessara landa. Meginmunurinn er sá að Japan og Vestur-Þýskaland hafa notað fjármagn sitt til að byggja upp atvinnuvegi eins og iðnað en Bandaríkin hafa notað mikinn hluta síns fjármagns í hernaðaruppbyggingu. Á s. l. áratug notuðu Bandaríkin 5–8% af vergri þjóðarframleiðslu til hernaðar á hverju ári, en Þjóðverjar 3–4% og Japanir minna en 1%. Er þess skemmst að minnast að Íslendingar hafa nýlega sent nefnd manna til að kynna sér iðnaðaruppbyggingu í Japan.

Í þessu sambandi langar mig til að vitna í orð bandaríska hagfræðingsins John Kenneth Galbraith sem segir, með leyfi forseta:

„Eigum við ekki að spyrja okkur enn einu sinni: Höfum við Bandaríkjamenn styrkt stöðu okkar í heiminum með því að samþykkja hnignun iðnaðar okkar? Þegar umframgeta vopna til eyðingar er jafnmikil og nú, getum við þá byggt upp styrka stöðu iðnaðar með því að fjárfesta í enn meiri umframgetu? Myndum við ekki sýna skynsemi ef við a. m. k. og í hinum íhaldssamasta skilningi hvettum til vopnatakmarkana sem myndu leyfa okkur að nota meira af fjármagni okkar til að bæta færni og hæfni á sviði iðnaðar? Ég höfða ekki til friðarsinnaðra hugsjóna heldur til hagsýnnar sjálfshyggju. Ég get ekki ímyndað mér að svarið geti vafist fyrir neinum.“

Svo mæltist þessum bandaríska hagfræðingi. En Bandaríkjamenn eru ekki einir um eyðsluna. Þar koma Sovétríkin líka til og enn önnur þjóðríki leggja lóð sín á vogarskálarnar til að koma eyðslu heimsins til hernaðar upp í a. m. k. 1 millj. dollara á mínútu. Hugsið ykkur hvað mætti gera fyrir þennan blessaða heim okkar fyrir eina milljón dollara á mínútu. Má ég nefna nokkur dæmi.

80% af öllum sjúkdómum jarðarbúa eru taldir eiga rót sína að rekja til skorts á hreinu drykkjarvatni. Þriggja vikna hernaðarútgjöld gætu útvegað heilnæmt drykkjarvatn handa öllum jarðarbúum. Fyrir áratug dóu 2 millj. manna árlega úr bólusótt. Með því að verja 300 millj. dollara til bólusetninga tókst að útrýma þessum erkióvini mannsins á nokkrum árum. Þessar 300 millj. mundu samsvara 5 klukkustunda hernaðarútgjöldum heimsins. Hernaðarútgjöld í hálfan dag mundu nægja til að útrýma malaríu. Hugsið ykkur alla sjúkdómana sem við kunnum læknisráð við í dag og gætum losað okkur við. Og hvað með mannvitið og fjármagnið sem flytja mætti frá hernaði yfir í rannsóknir á sjúkdómum eins og krabbameini? Hver mundi ekki vilja losna við það? Og hvað með hungrið, atvinnuleysið og ólæsið? Um 900 millj. manna eru ólæsar, um 600 millj. atvinnulausar og um 600 millj. manna eru vannærðar eða líða hungur og tugir millj. barna deyja úr hungri á ári hverju. Þannig er það bæði togstreitan á milli austurs og vesturs og líka misréttið, sem ríkir á milli norðurs og suðurs á jörð okkar, sem ógnar framtíð mannanna. Og hvað með jörðina okkar, heimilið okkar allra, sem þjáist af þurrkum, uppblæstri jarðvegs, gróðureyðingu og uppskerubresti? Hvað með auðlindaþurrðina og mengunina sem fer sívaxandi í lofti, láði og legi vegna rányrkju okkar sem stjórnast af skammsýni? Ég vil í þessu sambandi nefna skýrslu sem gerð var af bandarískum vísindamönnum að beiðni Carters Bandaríkjaforseta og heitir „The Global 2000 Report to the President“. Þessi skýrsla greinir frá því ástandi sem búast má við í heiminum árið 2000 ef engin stefnubreyting verður meðal þjóða. Er þar einkum hugað að fólksfjölgun, auðlindum og umhverfisvernd. Þessar niðurstöður eru vægast sagt ógnvænlegar og gefa til kynna möguleika á veraldarvandamálum af gífurlegri stærðargráðu ef ekkert verður að gert.

Tilhneiging þessarar þróunar bendir eindregið til vaxandi álags á öll lífkerfi jarðarinnar þannig að grundvallarþörfum æ fleiri einstaklinga verði ekki sinnt og lífkerfi jarðarinnar sjálf eru í hættu vegna þess hve lífsskilyrði þeirra verða stöðugt lélegri. Umhverfisvandamál, sem varða andrúmsloft, drykkjarvatn, ástand sjávar og gróðurs, nema ekki staðar við landamæri ríkja. Núverandi aðgerðir til að sporna gegn þessari þróun eru allsendis ófullnægjandi miðað við það hve brýn, víðtæk og flókin þessi vandamál eru.

Þær aðgerðir sem beita þarf eru ekki á valdi neinnar einnar þjóðar heldur verða allar þjóðir heims að taka saman höndum til að forðast glötun. Verkefni okkar eru óteljandi og þola enga bið. Þrátt fyrir stærð og fjarlægð þessara ógnarvandamála megum við ekki láta slíkt lama okkur til aðgerðarleysis. Hvert og eitt okkar skiptir máli til að mynda það almenningsálit sem leyfir ekki stjórnmálaleiðtogum og öðrum valdhöfum að grípa til hernaðarlausna eða halda áfram uppteknum hætti í umgengni við þessa jörð. Getum við sætt okkur við að horfa á þá læsta í vítahring skammsýni, vígbúnaðarkapphlaups, dansandi til dauða í glóandi eldskóm eins og nornin í ævintýrinu forðum, bundna álögum og geta ekki hætt? Trúandi á ógnarjafnvægi hafa þeir í meira en áratug sagst vera að semja um afvopnun og frið. Hvað eigum við að gera þegar við horfum á þessa strönduðu menn á flæðiskeri sínu úrræðalausa? Gætum við látið þá áfram eina um að leysa þessi úrslitamál mannkynsins? Er lausnanna einungis að vænta frá þeim? Eru þetta ekki mál sem varða okkur öll, öll sem viljum ekki vera meðsek og horfa á mannlífið og jörðina farast? Þess vegna verðum við að standa upp, hvert og eitt okkar, og beita því eina vopni sem okkur er leyfilegt, röddinni Og með henni segjum við: Nei, hingað og ekki lengra. Við verðum að leita nýrra lausna.

Það eru meira en tveir áratugir síðan Albert Einstein sagði með leyfi forseta: „Við þörfnumst verulegrar hugarfarsbreytingar ef mannkynið á að lifa af.“ Við verðum að byrja að hugsa á nýjan hátt, án þeirrar blekkingar að hægt sé að komast hjá kjarnorkustríði endalaust með því að beita stefnu ógnarjafnvægis, án þeirrar blekkingar að við getum lifað í öryggi að eilífu í skugga kjarnorkuvopna, án þeirrar blekkingar að hægt sé að takmarka eða lifa af kjarnorkustríð. Jörðin okkar er a. m. k. 41/2 milljarða ára gömul. Menn hafa byggt jörðina í líklega eina milljón ára, en siðmenning okkar svokölluð er ekki nema 4–5 þúsund ára gömul. Kjarnorkuvopn hafa verið til í um það bil 40 ár. Engin deila austurs og vesturs er jafnmikilvæg og gagnkvæm nauðsyn okkar til að forðast kjarnorkustyrjöld. Skyldur okkar við þá sem á eftir koma krefjast þess ekki bara að við skilum lífinu og jörðinni heilum og óskemmdum til framtíðarinnar, heldur betri en þau voru þegar við tókum við þeim. Aðeins með samvinnu en ekki deilum getum við lært að lifa saman, ef við viljum lifa, og ég trúi því að þrá okkar til að lifa sé miklu sterkari en ótti okkar hvers við annað. Hví skyldum við skara eld að köku haukanna? Höfum við Vesturlandabúar efni á því að næra bandarísku grýluna í Sovétríkjunum og ganga þannig erinda rússneskra hauka? Hafa Sovétmenn efni á því að næra Rússagrýluna í Bandaríkjunum og ganga þannig erinda bandarískra hauka? Getur framtíðarvon mannkynsins leyft haukunum að ráða öllu lengur? Þurfum við ekki hvert og eitt að hemja haukeðlið en leyfa hinum sáttfúsari, skilningsríkari og umburðarlyndari eigindum okkar að ráða? Verðum við ekki að leita friðsamlegri úrræða í samskiptum, byggja brýr milli manna og þjóða, eyða óvinaímyndunum?

Slík úrræði má finna í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna og á vegum þeirra og undirstofnana þeirra hafa menn verið óþreytandi við að halda samskiptum þjóða opnum og virkum. Þegar á árinu 1947, í lok síðari heimsstyrjaldarinnar, hafði UNESCO frumkvæði að ráðstefnu á alþjóðavettvangi til að leggja grundvöll að uppeldi til að auka skilning á milli þjóða. Ráðstefnan var grundvölluð á hugsjónum Þjóðabandatagsins og viðfangsefni hennar voru tillögur að atþjóðasamvinnu, gerðar af Albert Einstein, Thomas Mann, Marie Curie og fleirum. Einn árangur þessarar ráðstefnu var hönnun námsefnis fyrir skóla. Árið 1974 hélt UNESCO aftur enn stærri ráðstefnu sem lauk með svohljóðandi ályktun með leyfi forseta:

„Stríð og valdbeiting eru útilokuð á okkar tímum. Sérhver einstaklingur verður að læra að taka persónulega ábyrgð til að tryggja frið.“

Samkeppni og valdbeiting til að tryggja eigin afkomu hefur einkennt hegðun mannanna frá alda öðli. Við skiptumst í þjóðir, stéttir, kynþætti og kyn. Við höfum lært að einstaklingurinn verður að berjast fyrir sjálfan sig, að það er nauðsynlegt að vera persónulega metnaðargjarn og að árásargirni á eigin vegum eða hópsins er nauðsyn til að lifa af. En í lok 20. aldar eru þessar aldagömlu lífsaðferðir orðnar stærsta ógn okkar. Skilgreining á einstaklingshyggju er m. a. þróun á persónulegum réttindum og frelsi. Slíkt eru auðvitað afar mikilvæg markmið fyrir þroska hverrar manneskju. En ef uppeldið leggur of einhliða áherslu á einstaklingshyggju er ólíklegt að deilur milli mannanna minnki og ólíklegt að hæfileikar til samstarfs aukist. Það er nauðsynlegt að viðurkenna réttindi og frelsi einstaklingsins í samhengi við samsvarandi skyldur hans. Sérhver einstaklingur, sem hefur réttindi og frelsi, hefur á sama hátt skyldur til að nota frelsi sitt til að vinna fyrir aðra menn og réttindi þeirra á eins víðtækan hátt og frelsi hans leyfir.

Réttlátur friður handa frjálsu fólki gerir kröfur um agað framferði. Skyldur hljóta að ráða miklu um það, hvernig maður getur neytt réttar síns. Okkur er nauðsyn að efla skilning og virðingu fyrir framandi þjóðum og menningu þeirra í stað þess að ala á fordómum og þröngsýni og taka að arfi gamlar venjur og viðhorf mótuð af löngu liðnum stríðum eða deilum. Þó að eðlilegt sé að glæða með börnum ást og virðingu fyrir átthögum sínum og ættjörð, þá ber að forðast að efla þrönga einangrunarsinnaða þjóðerniskennd eða þjóðarrembu. Okkur er lífsnauðsyn að víkka út og stækka hugtakið við. Heimili okkar er jörðin og sú staðreynd verður æ raunverulegri með auknum ferðalögum og samskiptum. Við verðum því að vera samábyrg fyrir henni sem einingu. Hún er far okkar á siglingu okkar um tímann og við erum öll í sama báti. Hollusta okkar verður því að beinast að mannkyninu sem heild jafnframt því sem hún eðlilega beinist að þeirri lífheild þar sem við eigum rætur. Við verðum því að meta samhjálp ofar samkeppni, frið ofar ofbeldi. Við verðum að læra að gefa fremur en að taka og við verðum að stunda mannrækt fremur en manndráp.

Þó að oft hafi verið þörf er nú meiri nauðsyn en nokkru sinni fyrr að efla frið milli manna og þjóða. Ein vænlegasta leið til friðar er að tryggja honum sess í hugum og atferli þeirra sem erfa löndin og efla hæfileika þeirra til að leysa deilur sínar á friðsamlegan hátt.

Í stofnskrá UNESCO stendur, með leyfi forseta:

„Þar sem stríð eiga upptök sín í hugum mannanna, þá er það í mannshuganum sem við þurfum að treysta varnir friðarins.“

Minnugur máltækisins „hvað ungur nemur, gamall temur“ og með skilningi á því að sá friður sem getur og þarf að ríkja milli manna og þjóða á sér rætur í einstaklingnum sjálfum hafa æ fleiri þjóðir tekið upp friðarfræðslu í skólum sínum í anda þeirrar samþykktar UNESCO sem þær eiga aðild að. Þessi samþykkt var gerð 1974 og eiga Íslendingar aðild að henni eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar. Samþykkt þessi mælir með því að aðildarlöndin beiti sér fyrir fræðslu til eflingar skilnings þjóða á milli, samvinnu og friðar, svo og fræðslu um grundvallarmannréttindi. Þessi fræðsla skal ná til allra stiga og gerða uppeldis- og fræðslustofnana. En eins og ævinlega þegar eitthvað nýtt er til umfjöllunar, veldur það óvissu, jafnvel tortryggni. Hvað er friðarfræðsla og hvernig á að framkvæma hana? Þessar spurningar vakna í hugum margra.

Það má segja að enn sé ekki til nein alþjóðlega viðurkennd skilgreining á hugtakinu friðarfræðsla. Anatole Pikas, dósent í uppeldisfræði við Uppsalaháskóla, sem hefur stjórnað kennslu í friðaruppeldi við þá stofnun, gefur þessa skilgreiningu, með leyfi forseta:

„Friðaruppeldi er að móta gerðir og viðhorf manna í þá .veru, að þau minnki hættu á stríði. Þessi áhrif mega ekki skerða þjóðernislega eða pólitíska vitund manna eða mannréttindi þeirra. Markmiðum friðaruppeldis er unnt að ná með auknum skilningi milli þjóða sem vígbúast af ótta hver við aðra. Mikilvægasta tæki friðaruppeldis er aukning á þekkingu og hæfni til að leysa deilur með viðræðum deiluaðila á jöfnum grundvelli.“ Pikas skýrir skilgreiningu sína nánar: „Viðleitni til aukinna gagnkvæmra friðarviðræðna milli ríkja og þjóða má ekki stefna pólitískri og þjóðernislegri vitund manna í hættu. Þetta þýðir að friðaruppeldi í einu landi má ekki hafa það að markmiði að breyta þjóðfélagsskipun annars lands.“

Það má samt segja að rætur friðarfræðslu nái dýpra en svo að þær ætli sér eingöngu að sporna gegn kjarnorkuvopnum og hernaðarlausnum á deilum. Þær leitast ekki síður við að breyta umgengni okkar við jörðina og hvers við annað og breyta þeim hugsunarhætti sem hefur ráðið henni. Friðarfræðsla leitast við að dýpka vitund, vitneskju og skilning á deilum milli einstaklinga innan þjóðfélags og milli þjóða. Hún rannsakar orsakir deilna og átaka, sem má finna samofnar skynjunum, verðmætamati og viðhorfum einstaklinga. Enn fremur má finna orsakir þeirra í félagslegri, stjórnmálalegri og efnahagslegri gerð þjóðfélagsins. Friðarfræðsla hvetur til þess að leita annarra leiða, sem fela í sér lausnir á deilum án ofbeldis, og hvetur jafnframt til þróunar þeirra hæfileika sem nauðsynlegir eru til að beita slíkum lausnum.

Markmið friðarfræðslu eru að skilja þýðingu og hlutverk friðar og rækta hæfileika til að leita friðar í samskiptum einstaklinga, hópa og þjóða; að glæða ábyrgðartilfinningu fyrir eigin ákvörðunum og gerðum; að þroska skilning á því hve einstaklingar, hópar og þjóðir eru háð hvert öðru; að skilja eðli og orsakir deilna og athuga, skilja, meta og nýta aðferðir til að leysa deilur; að þekkja ýmsa líffræðilega og félagslega þætti sem hafa áhrif á mannlega hegðun; að rækta skilning á réttlæti og velferð meðal einstaklinga og þjóðfélaga; að glæða virðingu og ábyrgðartilfinningu einstaklinga fyrir frelsi einstaklingsins og mannréttindum, menningarlegum fjölbreytileika, umhverfinu, samvinnu, bæði innan bekkjarins og utan, hugsun sem skírskotar til viðmiðunar við heiminn, þjóðareiningu, bæjarsamfélag eða smærri hópa; að þróa sjálfsvitund, skilning á öðrum og þá hæfileika sem nauðsynlegir eru til að gera einstaklingnum kleift að taka virkan þátt í að mynda réttlát og friðsamleg tengsl við aðra; að þróa kennsluaðferðir sem byggjast á samvinnu og hlutdeild í samræmi við það sem að ofan greinir.

Um framkvæmd friðarfræðslu gilda sömu lögmál og um annað nám. Það verður að sníða eftir getu og aldri og vera í samræmi við þroskastig barnsins eða unglingsins. Það er eðlilegt að kenna börnum að kljást við sín eigin vandamál fyrst og fremst, þau sem eru í nánasta umhverfi. Í slíkri fræðslu er t. d. bæði auðvelt og eðlilegt að nota leiki sem skapa samheldni og góðan anda í hópi barna. Með því að höfða til samstarfs má byggja upp gagnkvæman stuðning og umhyggju barnanna hvers fyrir öðru. Það má sniðganga þá leiki sem neyða börn til að keppa hvert við annað eða taka þátt í ójafnri keppni. Þar er hægt að forðast útilokunarleiki, refsileiki, leiki þar sem meiri hluti þátttakenda er ekki virkur en þeir sem gengur vel leika lengst og keppa um vinninginn. Það má í staðinn leggja áherslu á leiki þar sem það að sigra eða tapa er ekki eina viðmiðun velgengninnar.

Hverjar eru svo þær hetjur sem við bjóðum börnum okkar upp á? Er ekki stríðshetja í gömlum stíl úrelt fyrirbæri á 20. öld, á tímum kjarnorkuvopna? Þurfa ekki börn okkar að hugleiða hetjur af annarri gerð, eins og t. d. Mahatma Gandhi, Martin Luther King, Albert Schweitzer, móður Theresu? Væri ekki nær fyrir börn að eygja hugrekki og hetjudáðir í daglegu lífi í starfi til að finna nýjar aðferðir til að skapa betri og réttlátari lífskjör?

Önnur hlið friðaruppeldis er að kenna börnum félagslega og vitsmunalega færni til samvinnu með því að búa til og gera hluti saman og njóta svo saman gleðinnar yfir unnu verki. Þau þurfa enn fremur að læra að meta yfirlýsingar og upplýsingar, vera gagnrýnin og þróa með sér hæfileika til að líta á mál frá mismunandi sjónarhóli.

Friðarfræðsla í skólum erlendis, t. d. í þeim löndum sem við höfum mest menningartengsl við, eins og Norðurtöndin, Bretland og Bandaríkin, er sjaldnast aðskilin námsgrein, en er öllu heldur aðlöguð sem ný vídd eða viðurkenning þess að í hverri námsgrein þurfum við stöðugt að mæta málefnum friðar og deilna í daglegu lífi og á alþjóðavettvangi. Það er nauðsynlegt að leggja áherslu á að friðarfræðsla er ekki hugsuð sem ný námsgrein sem skjóta þurfi inn í námsefnið á kostnað einhverrar annarrar námsgreinar. Markmiðið er miklu fremur að tryggja það að innan almennrar námsstefnu skóla sé skýr stefna um friðarfræðslu.

Það er ekki hlutverk Alþingis að hanna námsefni handa börnum landsins, en eðlilegt er að þessi fræðsla verði tekin upp í tengslum við þá námsefnisgerð og það þróunarstarf í skólum sem nú er unnið að. Markmið friðarfræðslu falla mjög vel að þeim markmiðum sem lýst er í aðalnámsskrá grunnskóla. T. d. hefur sú námsskrá í samfélagsfræði sem gerð hefur verið á vegum skólarannsóknardeildar menntmrn. markmið sem gætu myndað eðlilegan grundvöll og tengsl við friðarfræðslu. Þessi námsskrá hefur notið styrkja frá Ford stofnuninni í New York og hefur enn fremur fengið viðurkenningu frá fulltrúum Sameinuðu þjóðanna, Harvard háskóla og Evrópuráðsins.

Með leyfi forseta vil ég vitna í aðalnámsskrá grunnskóla í samfélagsfræði þar sem stendur:

„Í samfélagsfræði er m. a. stefnt að því að nemendur séu færir um að setja sig í annarra spor og geti þannig gert sér grein fyrir eigin viðhorfum og annarra þótt þau séu ólík. Geri sér grein fyrir eigin gildismati og annarra. Viðurkenni ólík sjónarmið og rétt hvers manns til að hafa sjálfstæða skoðun. Hafi áhuga á að kynnast vandamálum í samskiptum manna og leita lausna á þeim, viðurkenni gildi samstarfs og nauðsyn samhjálpar í samskiptum manna, öðlist nægilegt sjálfstraust til að geta snurðulaust tekið þátt í gagnkvæmum skoðanakynnum og umborið gagnrýni, öðlist það viðhorf að þeir þurfi stöðugt að afla sér nýrrar þekkingar og skoða hana gagnrýnum augum.“

Sumir hafa látið í ljós ótta um að friðarfræðsla verði vettvangur einhliða áróðurs. Þeim mundi ég svara að ofangreind markmið friðarfræðslu ættu einmitt að koma í veg fyrir að einstaklingar verði einhliða áróðri að bráð. Friðarfræðsla miðar að því að auka víðsýni, umburðarlyndi, skilning og þekkingu. Það er miklu fremur þegar skilningur og þekking á málefni er fyrir hendi að hægt er að draga sjálfstæðar ályktanir og mynda sér skoðanir óháð áróðri. Brýna nauðsyn ber enn fremur til að byrja nú þegar að velja og útbúa viðeigandi námsefni sem nota mætti við friðarfræðslu. Má í því sambandi vísa til úrvalsnámsefnis um þessi mál hjá Norðurlandaþjóðum, Bretum og Bandaríkjamönnum.

Foreldrar, skólar og aðrir uppalendur geta ekki stungið höfðinu í sandinn og neitað að taka tillit til þeirra áhrifa sem börn og unglingar verða fyrir í nútímaþjóðfélagi. Auk félaganna eru fjölmiðlar, þrýstingur almenningsálitsins og aldarandinn allur virkir þættir til mótunar barna okkar, skoðana þeirra, viðhorfa og hegðunar. Á þeim dynur auglýsinga- og upplýsingaflóð. Umhverfi þeirra, hlutverk og hagir allir hafa gerbreyst frá því sem foreldrar þeirra vöndust. Heimilisgerðin er önnur og möguleikar til samskipta milli fólks á mismunandi aldri eru mun minni en áður. Börn og unglingar eru meira samskiptum við eigin aldurshópa en áður var og er líklegt að það þrengi lífssýn og lífsreynslu þeirra að ýmsu leyti. Fjölmiðlar verða æ aðgangsfrekari á tíma einstaklingsins og sjónvarp og myndbönd flytja ofbeldi í auknum mæli að augum og gljúpum hugum barna og unglinga. Er það bæði í fréttum af átökum og styrjöldum og líka í leiknum myndum þar sem einstaklingar beita hvor annan grófu ofbeldi í návígi. Tæknin hefur líka fært okkur tölvuleiki og þeir eru vinsælt tómstundagaman barna — reyndar svo mikill tímaþjófur að mörgum finnst nóg um. Langflestir þeirra vinsælu tölvuleikja sem börn sækjast eftir byggjast á herskáum baráttuleikjum, sem örva árásar- og varnarviðbrögð. Stríðsleikföng eru seld af fjölbreytilegri gerð og gerast sífellt margslungnari. Oft eru þau svo eðlilegar eftirlíkingar af raunverulegum fyrirmyndum sínum að glæpamönnum tekst að blekkja fórnarlömb og lögreglu með leikfang að vopni.

Hvað er það sem við viljum leggja áherslu á og draga fram í fari barna okkar? Hvers konar áhrifavalda og umhverfi veljum við þeim og hvernig framtíð viljum við búa þeim? Þó að einhver ágreiningur geti verið um áherslur og leiðir tel ég þó fullvíst að flestum foreldrum og uppalendum sé það sameiginlegt að vilja búa börnum sínum sem best veganesti til lífsgöngunnar. Slíkt veganesti hlýtur að miða að því að börnunum takist að lifa af og að sú lífsafkoma megi verða þeim sem farsælust. Allt það sem ógnar lífsafkomu og hag barna hlýtur því að verða foreldrum mikið áhyggjuefni, svo mikið áhyggjuefni að þeir og aðrir uppalendur geti sameinast til varnar. Það ber að fagna því að nú nýlega voru stofnuð samtök um friðaruppeldi hérlendis. Þessi samtök ætla einkum að stuðla að því að nám og uppeldi rækti með fólki friðarvilja þess, veki skilning á öðrum þjóðum og umburðarlyndi með þeim og hvetji til alþjóðlegrar samvinnu. Það er enn fremur eðlilegt og skylt að Alþingi álykti og setji lög um þau mál sem mættu verða til lífs og velfarnaðar fyrir landsmenn. Því vona ég að þm. fjalli friðsamlega um þetta mál af víðsýni, velvild og skilningi.

Ég legg að lokum til að því verði vísað til hv. allshn. Sþ. að lokinni umr.