21.03.1984
Efri deild: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3959 í B-deild Alþingistíðinda. (3373)

42. mál, orkulög

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég kannast ekkert við að hafa sótt það með ofurkappi að þetta mál yrði afgreitt í hv. deild. Ég hef alls ekki og aldrei átt neinn orðastað við formann n. til að mynda, hv. 4. þm. Vestf., um afgreiðslu málsins, ekki sótt það með neinu ofurkappi. Þegar frv. var lagt fram bað ég skrifstofustjóra minn að athuga með stöðu mála á hinu háa Alþingi, sem oft hefur orðið nokkur misbrestur á, að ráðherrar gættu þess að dreifa málum milli deilda, og kom í ljós að það var mikill munur þar á, að hallaði á Ed., hvað málaflokkar og mál voru þar miklu færri. Þetta réði einvörðungu og auðvitað fjarri öllu lagi að ég mundi hafa kveinkað mér við að eiga orðastað við kunningja minn, Hjörleif Guttormsson, hv. 5. þm. Austurl. Allt þetta tal er auðvitað fjarri öllu lagi.

Sannleikurinn er sá, að þetta frv., þótt að lögum yrði, breytir ekki mjög miklu. Eins og frsm. meiri hl. n. margbenti á eru ákvæði í lögum um að það verður að leita samþykkis orkuráðh. um taxtabreytingar á orku. Ég held að tilurð þessara brbl. hafi verið auglýsingamennskan einber og ekkert annað í kosningahríð þar sem stjórn sem var búin að missa tök á öllu var að auglýsa að nú ætti að fara að stemma stigu við og taka myndarlega á og stjórna. Ég get engin rök fundið fyrir brbl. önnur vegna þess, eins og ég segi, að það verður engin breyting á töxtum nema orkuráðh. samþykki skv. þeim lögum og greinum laga sem margítrekað er búið að benda hér á.

Hitt er svo annað mál og snýr að hinu háa Alþingi, hvernig málsmeðferðin var, eins og skýrlega hefur verið rakið hér af hv. 4. þm. Vestf.

Frv., ekki eingöngu sama eðlis heldur og frá orði til orðs, fékk ekki brautargengi í þessari hv. deild á síðasta Alþingi. Það var vísað til ræðu hv. 5. þm. Vesturl. Davíðs Aðalsteinssonar, þáverandi formanns iðnn., og fór ekkert á milli mála um afstöðu hans til málsins. (ÞK: Það var vísað til ræðu sem hann flutti við 1. umr. þessa máls. Þá var hann ekki formaður.) Nei, þá var hann ekki formaður, það er rétt. Hann hélt ræðu við 1. umr. þessa máls, þegar það var lagt fram, það er rétt, og fór ekki milli mála um afstöðu hans þá.

En enn eitt atriði í þessu sambandi. Ég lagði þetta frv. fram strax vegna þess að ég álít að það sé skylda ríkisstj. að leggja brbl. sem sett hafa verið milli þinga fyrir hið háa Alþingi eins fljótt og kostur er. Við höfum nú séð önnur vinnubrögð í þessu sambandi og hirði ég ekki um að rekja það nú og hér, en á síðasta Alþingi var meira en lítið áberandi að dregið var úr hömlu og fram að lokum þings, ef ég man rétt, að leggja fram brbl. sem mönnum sýndist misjafnt um. Ég hlaut, miðað við stefnu ríkisstj. um að t. d. sveitarfélög fengju að hafa sjálfræði í verðlagningu þjónustu sinnar, að leggja til að þetta frv. yrði fellt, enda var Sjálfstfl. alltaf andstæður þessu og ég gat engan veginn annað, þegar til alls er litið, en lagt til að þessi brbl. yrðu felld vegna afstöðu minnar og míns flokks, sem og hafði orðið samkomulag um í ríkisstj.

En þótt við viljum auka að þessu leyti vald sveitarfélaganna stendur ekki til, svo að ég svari þeirri fsp. sem hv. 3. þm. Norðurl. v. beindi til mín, að gefa þjónustustofnunum í umsjá ríkisins lausan tauminn að þessu leyti — og að ég tali nú ekki um þar sem þær eiga að hafa einokunaraðstöðu, ef við eigum að nefna það því nafni. Við skulum taka sem dæmi Póst og síma. Það stendur ekki til. Þetta er bundið við sveitarfélögin, að þau fái til þess meira olnbogarými að ákveða gjöld fyrir þá þjónustu sem þau veita, sem hjá mjög mörgum þeirra er einmitt á þessu sviði. (RA: Af hverju þá Landsvirkjun?) Af hverju þá Landsvirkjun? Hún er ekkert undanþegin þessu. Landsvirkjun er ekkert undanþegin þessu. Landsvirkjun getur engu breytt í sínum orkuverðsákvörðunum nema með leyfi iðnrh. hverju sinni.