01.11.1983
Sameinað þing: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki fjölyrða um það mál sem hér kom fyrst upp á dagskrána, þ.e. byggingu Seðlabankans. hvort það sé rétt eða rangt að halda þeirri byggingu áfram með þeim kostnaði sem því fylgir í þjóðfélagi sem er fjárhagslega statt eins og okkar er í dag. Þá er Seðlabankinn orðinn tákn um það að nóg sé til af peningum í landinu og þess vegna á að stöðva hana. Í hugum fólksins er Seðlabankabyggingin orðin tákn um það að nóg er til af peningum í landinu. (Hripið fram í: Heyr.) Þess vegna er erfitt fyrir okkur, sem sitjum í ríkisstj. og förum með fjármál, að telja fólkinu í landinu trú um það að peningar séu af skornum skammti á sama tíma sem framkvæmdir sem þessar geta haldið ótrauðar áfram. Ekki meira um það.

Svarbréf hæstv. viðskrh., dags. 26. okt., við bréfi sem er skrifað í Seðlabankanum 26. okt., segir mér ekkert annað en að fyrir fram hafi verið ákveðið hvernig svara skyldi þeirri fsp. ef hún kæmi.

Ég hef haldið því fram hér í gegnum árin og margir hafa verið mér sammála — hv. 3. þm. Reykv. vitnaði í greinar fyrrv. hv. þm. Þórarins Þórarinssonar, ritstjóra Tímans, og annarra sem hafa verið mér sammáta — um að 13. gr. í lögum um Seðlabanka Íslands vísar í 10. gr. og í 10. gr. eru taldar upp þær peningastofnanir sem Seðlabankanum er falið að ákveða vexti fyrir. Það er hvergi í lögum um Seðlabanka Íslands að hann hafi heimild til að setja sér sína eigin vexti.

En það hefur verið gefin út reglugerð af ráðh. og það er vitnað í þá reglugerð. Og ég efast um það núna þessa síðustu daga að sú reglugerð hafi stoð í lögunum, reglugerðin gangi lengra en lög leyfa. Það er því kominn tími til þess, eins og kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv., að láta úr því skera hvort Seðlabankinn hefur heimild til að ákveða sína eigin vexti, sem ég álít að séu að sliga bankakerfið og þannig þjónustuna við almenning í peningamálum, og þyrfti að gera það sem fyrst. (Forseti hringir.)

Ég skal ljúka þessu með þeim orðum að viðskiptabankarnir hafa ekki alltaf fallist á vaxtaákvörðun Seðlabanka Íslands. Þann tíma sem ég hef verið bankaráðsformaður Útvegsbanka Íslands, kjörinn af hv. Alþingi, hef ég mótmælt þeim vöxtum.