21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4035 í B-deild Alþingistíðinda. (3439)

196. mál, lausaskuldir bænda

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég sagði áðan að það væri forsendan fyrir því að greiða fyrir framgangi mála hér í þinginu að ráðh. svöruðu skýrt og greinilega einföldum spurningum sem til þeirra væri beint. Ég spurði hæstv. landbrh. áðan hvað það væri sem gerði það svo brýnt að hraða afgreiðslu þessa máls. Það kom ekkert svar við þeirri spurningu, engin útskýring á því hvaða nauður ræki menn til að afgreiða þetta á næstu klukkustundum. Hvaða vandi það væri sem ekki gæti beðið í fáeina daga, að menn fengju tíma til að fjalla eðlilega um málið. Við því kom ekkert svar. Ég spurði hæstv. fjmrh. að því hvort hann væri búinn að tryggja fjármagn til að gera mögulega þessa skuldbreytingu. Það kom heldur ekkert svar við því, ekki orð. Hæstv. fjmrh. hefur ekki einu sinni kvatt sér hljóðs. Og landbrh. vék ekki að því einu orði. Það er þó væntanlega frumatriði í þessu máli hvort fjármagn hefur verið tryggt og hvaðan það á að koma. Ef það er ekki, þá er þetta frv. bara lítilvægt pappírsgagn. Þetta er enn eitt dæmið um það að ekki fást hér í þinginu svör við lykilspurningum varðandi stjórnarfrv. heldur sitja ráðh. og lykilforustumenn stjórnarliðsins þegjandi þótt spurt sé um einföldustu og skýr atriði varðandi þetta efni.

Þá var einnig spurt hvort tekið yrði erlent lán. Það hefur heldur ekkert svar komið við þeirri spurningu. Síðan bar ég fram spurningu til hæstv. viðskrh., sem er nú fjarstaddur, en þá landbrh. í fjarveru hans, um það hvort allar innlánsstofnanir yrðu látnar sitja við sama borð hvað snertir þann möguleika að hagnýta þessi svokölluðu bændabréf til að fullnægja bindiskyldu sinni í Seðlabankanum ef á annað borð einhverjum innlánsstofnunum yrði veittur sá réttur áfram. Hæstv. landbrh. kom hér í ræðustól og ég gat ekki betur skilið en að hann væri að segja að þetta væri allt saman byggt á misskilningi hjá mér og var með fullyrðingar um að innlánsdeildirnar stæðu ekki í viðskiptum af þessu tagi. Það vissi ég fullvel. En við vitum líka með hvaða hætti þessi bréfakaup gerast og eftir hvaða leiðum. Ef hæstv. landbrh. veit það ekki og svar hans hér hefur verið ábending um það að hann viti það ekki, þá vil ég benda honum á að lesa mjög nákvæma lýsingu á því sem birtist í Morgunblaðinu s. l. sunnudag. Í raun og veru væri full ástæða til að lesa þann texta hér upp mjög nákvæmlega.

Þar kemur fram að samkvæmt upplýsingum forstöðumanns bankaeftirlits Seðlabankans falla allar innlánsdeildir samvinnufélaga innan þessara marka, að geta hagnýtt sér bændabréfin svokölluðu til að fullnægja bindiskyldunni í Seðlabankanum, nema ein, innlánsdeild KEA. Allar aðrar innlánsdeildir, 30 talsins, geta gert þetta. En síðan kemur fram að allir viðskiptabankarnir eru utan þessara möguleika og þrettán stærstu sparisjóðirnir. 27 minnstu sparisjóðirnir og 29 innlánsdeildir samvinnufélaganna geta fullnægt bindiskyldu sinni með þessum hætti, mismunandi mikið þó, allt eftir stærð þeirra. Fyrr í þessari grein er því lýst mjög nákvæmlega hvernig þetta gerist. Það er þess vegna ljóst að í þessari umr. hefur ekki heldur fengist neitt svar við því hvort þessi möguleiki verður látinn ganga jafnt yfir allar innlánsstofnanir eða hvort haldið verður áfram að mismuna þeim eins og gert hefur verið.

Ef mál væru hér með eðlilegum hætti, herra forseti, ætti ekki að ljúka þessari umr. fyrr en hæstv. viðskrh. hefur fengið tækifæri til þess að lýsa afstöðu sinni í þessu máli, vegna þess að eins og fram kemur í þessari grein og reyndar kom að nokkru leyti fram hjá hæstv. landbrh., þá er þessi möguleiki ekki byggður á lögum. Hann er byggður á venju og samkomulagi sem bankastofnanir, sem heyra undir hæstv. viðskrh., hafa byggt upp. Hæstv. viðskrh. hefur það þess vegna á sínu valdi að ákveða með hvaða hætti þetta verði framkvæmt. Ég tel nánast alveg útilokað að ganga til atkv. um þetta frv. og þær brtt. sem hér hafa verið fluttar án þess að hæstv. viðskrh., yfirmaður bankamála í landinu, veiti svör við þessum atriðum.

Herra forseti. Ég þakka fyrir það tækifæri að hafa fengið að gera hér þessa athugasemd. Í henni er fólgin ítrekun á því að fjórum lykilspurningum, sem allar snerta grunnþátt þessa máls, hefur ekki verið svarað hér. Og ég spyr: hvaða tilgangi þjónar það, hvaða hagsmunum þjónar það að vera að nauðga frv. í gegnum þingið á kvöldfundum án þess að einföldum lykilspurningum varðandi málið sé svarað? Hverjir eru það sem telja sig þannig stadda í landsstjórninni að þeir þoli ekki sólarhringsbið á umr. til þess að hægt sé að svara lykilspurningum? Eða er þetta mál þannig vaxið að það þoli einfaldlega ekki rökræna umr., þoli ekki skýrar spurningar vegna þess að þá kunni menn að vera staðnir að því að hafa ekki við þeim svör, og þess vegna sé verið að reyna að nauðga þessu svona í gegn? Ég vil þess vegna, herra forseti, ítreka þau tilmæli mín hér frá því fyrr í þessari umr. að vegna þess að hæstv. landbrh. veitti engin svör við þessum spurningum verði umr. ekki lokið fyrr en hæstv. viðskrh. hefur fengið tækifæri til þess að fjalla um málið.