21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4040 í B-deild Alþingistíðinda. (3445)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég verð nú að segja eins og er að mér þykir í hæsta máta óeðlilegt að þessari umr. sé hér fram haldið á þessum tíma sólarhrings, þó að fyrr hafi verið ráðgert að henni lyki í kvöld. Mér þykir það einkar óeðlilegt með hliðsjón af því að í henni hafa áður fengið tækifæri til að tala ýmsir hv. þm. og hæstv. ráðh. sem nú eru fjarverandi. Ég hef t. d., herra forseti, miklar athugasemdir að gera við ræðu sem hæstv. forsrh. flutti í dag og í annan stað vil ég beina spurningu til hæstv. forsrh. í tilefni af annarri ræðu sem hér var haldin, ræðu hv. 1. þm. Suðurl. Þess vegna vil ég nú bjóðast til að gera hlé á ræðu minni svo að a. m. k. hæstv. forsrh. geti hlýtt á mál mitt. Ég er reiðubúinn að gera hlé á til morguns og fyndist það að ýmsu leyti eðlilegra miðað við aðstæður og það fámenni sem hér er orðið.

(Forseti: Það verður gerður reki að því af hálfu forseta að hafa upp á forsrh., en mér er ekki kunnugt um hvort hæstv. forsrh. er hér í húsinu. Ég vænti þess að hv. 3. þm. Reykn. geti eigi að síður notað ræðutímann. Það verður gert allt sem unnt er til þess að fá hæstv. forsrh. til að vera hér í þingsalnum.)

Það er mikið vafamál, herra forseti, að ástæða sé til að slíta talfærum manna og hlustunaráhöldum við marklaust hjal, einungis til þess að drepa tímann, svo að ég geri allan fyrirvara á því að tala beinlínis í þeim tilgangi að fylla upp í tómárúm í þessum efnum. Ég get engu að síður hafið ræðu mína ef forseti óskar sérstaklega eftir því. En ég held að það muni ekkert flýta umr.

(Forseti: Ég bendi á að það eru allmargir hv. þm. á mælendaskrá sem sjálfsagt væru þá fúsir til að ræða málin á meðan. En þess er vænst að hæstv. forsrh. verði hér í þinghúsinu innan ekki mjög langs tíma.)

Ég skil þessa aths. forseta þannig að hann óski sérstaklega eftir því að ég hefji þá a. m. k. ræðuna og taki fyrir nokkur þau atriði sem kannske ber ekki brýna nauðsyn til að nái eyrum hæstv. forsrh.

Um það frv. sem hér er til umr. er það fyrst að segja að teljast verður í hæsta máta ankannalegt að það skuli yfirleitt vera hér til umfjöllunar. Það eru ekki nema fáeinar vikur síðan Nd. gekk frá afstöðu sinni í málinu. Það eitt hefur gerst í millitíðinni að launþegasamtökin í landinu hafa gert samning við atvinnurekendur undir sérstakri blessun og loforði ríkisstj. um sérstakar félagslegar umbætur. Þetta er notað og tilgreint sérstaklega til þess að framkvæma þá skattahækkun sem hér er flutt till. um. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það, það hafa aðrir gert áður, að þessi starfsaðferð er í fyllsta máta óviðurkvæmileg og óforsvaranleg með öllu. Ég tel það gjörsamlega óforsvaranlegt að koma með þessum hætti aftan að launafólki.

Ef það var hugmynd ríkisstj. að framkvæma skattahækkun á þessum forsendum þá hefði hún átt að skýra skýrt og skilmerkilega frá því opinberlega um leið og hún greindi frá afstöðu sinni varðandi samkomulag ASÍ og VSÍ. Allt annað var í rauninni óheiðarlegt í þessari stöðu. Það var ekki gert. Það kom ekkert fram um það á opinberum vettvangi að hugmyndin væri að hækka skatta á þeirri forsendu að hér væri um kauphækkun að ræða.

Í sambandi við þá skattaumræðu sem hefur átt sér stað undanfarna daga og vikur hefur verið farið með margar rangfærslur. Það hefur gerst hér í dag og hefur gerst áður. Því hefur verið haldið fram að greiðslubyrði yrði óbreytt eða mundi a. m. k. ekki hækka. Talsmenn ríkisstj. hafa haldið því fram að með því frv. um skattahækkun sem hér er flutt sé verið að fullnægja því stefnumiði ríkisstj. að koma í veg fyrir skattahækkun. Ég hef ásamt ýmsum öðrum sýnt greinilega fram á það, og það hafa reyndar opinberir embættismenn gert líka, t. d. ríkisskattstjóri, að þetta er rangt. Það er verið að þyngja skattbyrði á stórum hópi launafólks í landinu.

Nú getur ríkisstj. auðvitað haft ýmsar ástæður fyrir því að vilja leggja á háa skatta og þá væri sjálfsagt og eðlilegt fyrir ríkisstj. að rökræða málið út frá þeim forsendum. En það hefur hún ekki gert. Þannig hefur þessi umr. orðið bjöguð og ekki þjónað þeim eðlilega tilgangi skoðanaskipta sem verður að telja að eigi að eiga sér stað í sölum þingsins.

Í þessu sambandi vil ég láta koma skýrt fram að það hefur verið stefnumið okkar Alþfl.-manna að einkum og sér í lagi við þær aðstæður sem ríkja núna í þjóðfélaginu bæri nauðsyn til að ríkisstj. kæmi til móts við launafólkið í landinu með skattalækkunum, svo að boginn yrði ekki spenntur um of og hætta væri á að hann brysti. Í samræmi við þetta höfum við, bæði nú og fyrr, staðið að till. um skattalækkanir sem hér hefur verið dreift í sambandi við þessa umr. Þær till. eru ekki um miklar skattalækkanir vegna þess að við viljum sýna ábyrgð í þeirri stöðu sem nú er. En þær mundu koma að mjög verulegu gagni og það mundi vera tryggt með þeim að þeir launþegar sem fá greinilega skattþyngingu, þ. e. obbinn af öllum launþegum sem eru með sæmilegar tekjur, mundu ekki verða fyrir íþyngingu í greiðslubyrði á sköttum á þessu ári. Það er verulegur áfangi.

Í annan stað höfum við gert ráð fyrir að komið yrði til móts við þá sem alverst standa í þjóðfélaginu með útgreiðslu á ónýttum persónuafslætti. Þetta mál höfum við flutt oft áður.

Þegar þessi mál voru hér áður til umr. í þinginu náðum við ekki nema takmörkuðum árangri að því er varðaði þessar skattalækkanir, en nú viljum við gjarnan að á það reyni einu sinni enn. En það er síðast og ekki síst í þessum brtt. að við gerum ráð fyrir því að þeirri reglu verði haldið sem hefur verið í gildi hér áratugum saman, nefnilega að fyrirtækin beri sambærilegan skatt við einstaklinga, að sú prósentutala í heildartekjusköttum sem einstaklingar í efsta skattþrepi verða að bera sé hin sama og hjá fyrirtækjunum í landinu. Það er varasamt, og meira en varasamt það er hættulegt, að brjóta þessa reglu vegna þess að þá er augljós hætta á því að tilflutningur á tekjum eigi sér stað hjá þeim sem hafa til þess möguleika á framtali til að sleppa við skatt að flytja tekjur í hinn lægri skattstiga.

Í ræðu sinni hér í dag sagði hv. 1. þm. Suðurl. að ástæðan fyrir því að ríkisstj. flytti nú þá till. um skattahækkun sem hér er til umr. væri sú að forsendur hefðu breyst. Þetta væri hliðstætt því sem hefði gerst þegar fulltrúar stjórnarflokkanna tóku sér fyrir hendur að lækka skattprósentuna lítillega, þegar fyrir lá ný áætlun um þjóðhagsspá á grundvelli þess að þorskveiðar og aðrar fiskveiðar yrðu mjög takmarkaðar. Þá hefði það verið gert að lækka skattana lítillega vegna þess að þjóðartekjur drægjust saman. Nú hefði það hins vegar gerst með samningunum að þjóðartekjur yrðu væntanlega eitthvað hærri og þá væri rétt að framkvæma aðra leiðréttingu.

Nú hefur það komið fram að sá 220 þús. tonna kvóti sem reiknað var með í þorskveiðum væri greinilega kominn upp í 240 þús. tonn. Þá eru forsendurnar breyttar frá því sem áður var og væntanlega enn nýtt tilefni til að endurskoða skattstigann. Spurningin er þess vegna sú: Er hugmyndin að þingheimur fái fljótlega að sjá enn eina endurskoðun af hálfu ríkisstj. á tekjusköttunum og þeim skattprósentum sem við skuli miða? Ef taka á alvarlega þær röksemdir sem hv. 1. þm. Suðurl. flutti í dag er auðvitað rökrétt að enn fari fram ný umr. um skattstigann og ríkisstj. hljóti þá að bera fram enn eina till. Ég get um þetta vegna þess að röksemdir af þessu tagi eru greinilega með öllu óhaldbærar. Það væri óbærilegt ef menn ættu að vera sífelldlega að fikta við skattstigann með þessum hætti.

Ég tók eftir því, herra forseti, í umr. hér í dag að hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. og hv. 1. þm. Suðurl., formaður Sjálfstfl., leyfðu sér að fara með hrein ósannindi þegar þeir sögðu að stjórnarandstaðan og hv. þm. Ólafur Jóhannesson væru í raun að krefjast þess að álagning færi fram eftir gömlu reglunum. Og út frá þeirri forsendu leyfðu þeir sér að bera saman einhverja ímyndaða skatta skv. gömlum reglum og skattvísitölu sem þeir bjuggu sér þá til sjálfir. Þetta tel ég mjög ósæmilegan málflutning, ekki síst þegar fyrir liggur að ekki einungis við þessa umr., heldur ítrekað við allar umr. um þetta mál hér í þinginu, hefur stjórnarandstaðan flutt brtt. til lækkunar á skattstigunum þar sem stefna stjórnarandstöðuflokkanna kemur mjög greinilega í ljós. Ég held að okkur sé lítill sómi að því að fara með rangfærslur af þessu tagi.

Ég tók líka eftir því, herra forseti, að hv. 1. þm. Suðurl., Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstfl., gerði það að umtalsefni í ræðu sinni í dag að þegar forsvarsmenn launþegasamtakanna komu til viðræðna við ríkisstj. um hinar félagslegu aðgerðir í sambandi við kjarasamningagerð hefði það verið skýrt tekið fram af ríkisstj. hálfu að hún hefði fyrirvara um alla fjármálastjórn og þar með talið að hækka skatta. Ég veit ekki hvort hv. þm. hafa tekið eftir því hvað í þessum orðum felst. Í þessum orðum felst það að hv. þm. er að lýsa forseta Alþýðusambands Íslands og formann Bandalags starfsmanna ríkis og bæja ósannindamenn í sambandi við það bréf sem þeir sendu þingflokkum í dag. Það er hvorki meira né minna.

Ég verð að segja það alveg eins og er að mér þykir harla ólíklegt að forseti ASÍ og formaður BSRB hafi setið þegjandi og samþykkjandi undir yfirlýsingu af þessu tagi og ákveðið það með sjálfum sér að um þetta skyldu þeir ekkert segja út á við. Ég tel það mjög ólíklegt. En það er annað í þessu máli sem vakti athygli mína í dag. Það var það að hæstv. forsrh., sem tók einmitt til máls hér í dag í þessari umr., fór ekki einu orði um það að slík yfirlýsing hefði verið gefin af hálfu ríkisstj. þegar samkomulagið milli ASÍ og VSÍ var blessað eða þegar samningarnir voru gerðir við BSRB. Það vekur vissulega athygli að hæstv. forsrh. skuli ekki gera þetta lykilatriði að umræðuefni.

Þess vegna vildi ég beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh. sem er nú einu sinni oddviti og fremsti talsmaður ríkisstj. og ætti frekar öðrum að gefa yfirlýsingar fyrir hennar hönd, hvort það hafi verið hæstv. forsrh. sem gaf þessa yfirlýsingu, ef hún var gefin, eða hvort það hafi verið einhver annar sem hafi gefið hana í nafni ríkisstj. Mér þykir þetta ákaflega forvitnilegt og þó alveg sér í lagi með tilliti til þess að í þeim orðum sem hv. 1. þm. Suðurl., Þorsteinn Pálsson, notaði um þetta efni í dag fólst í rauninni ásökun á hendur forustumanna helstu verkalýðssamtakanna í landinu um það að sú yfirlýsing sem þeir hefðu látið frá sér fara í dag væri röng, væri ekki sannleikanum samkvæm. Ég tel nauðsynlegt að þingið fái úr því skorið hver sé skilningur oddvita ríkisstj., hæstv. forsrh., í þessu efni.