22.03.1984
Neðri deild: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4088 í B-deild Alþingistíðinda. (3485)

160. mál, frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. um frv. til laga um frádrátt frá skattskyldum tekjum manna vegna fjárfestingar í atvinnurekstri. Hér er um að ræða 160. mál en nál. er á þskj. 469.

Frv. þetta er flutt í beinum tengslum við frv. til l. um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt þar sem er að finna skilyrði þess að framlög manna til fjárfestingar í atvinnurekstri séu frádráttarbær frá skattskyldum tekjum. Markmið þessa frv. er að örva fjárfestingu í atvinnustarfsemi og örva almenning til þátttöku í atvinnulífinu með kaupum á hlutabréfum.

Það er alveg ljóst að afkoma almennings í landinu verður ekki byggð á öðru en traustu og þróttmiklu atvinnulífi og eigi að skjóta öruggum stoðum undir efnahagslega velsæld atmennings og aukinn kaupmátt í framtíðinni verður það ekki gert nema með eflingu þess atvinnulífs sem öll efnahagsleg framleiðsla landsmanna byggist á. En það er alkunna að atvinnufyrirtæki á Íslandi hefur skort eigið fé og skattalög hafa fram til þessa ekki gert það fýsilegt að almenningur verði sparifé sínu til kaupa á hlutabréfum. En markmið þessa frv. er að gera hér á nokkrar breytingar.

Meiri hl. fjh.- og viðskn. hefur yfirfarið frv., rætt við sérfræðinga og yfirfarið umsagnir hagsmunasamtaka og mælir með því að frv. verði samþykkt, þó með sérstakri breytingu sem meiri hl. n. leggur fram á þskj. 470. Þar er um að ræða breytingu á 11. gr. frv. Þar er í frv. eins og það liggur fyrir gert ráð fyrir að frádráttur vegna kaupa á hlutabréfum í hlutafélögum sé háður því skilyrði að um sé að ræða hlutafélög með hlutafé að fjárhæð 10 millj. kr. og að fjöldi hluthafa sé a. m. k. 100. Það kom fram við 1. umr. þessa máls að víða hagar svo til að erfitt getur reynst að safna svo mörgum hluthöfum, t. a. m. í litlum byggðarlögum. Vegna þess að hlutafé almennt er ekki mjög mikið í íslenskum fyrirtækjum gæti hér verið um að ræða of strangar kröfur. Á hinn bóginn er nauðsynlegt að setja hér um ákveðnar takmarkanir til þess að koma í veg fyrir misnotkun á þessu ákvæði. Ég lýsti því yfir fyrir mitt leyti við fyrri umr. málsins að eðlilegt væri að taka þetta sjónarmið til athugunar í n. Nefndin hefur rætt þetta og meiri hl. leggur til að þessum viðmiðunum verði breytt á þann veg að í staðinn fyrir 10 millj. kr. hlutafé komi 5 millj. kr. og í staðinn fyrir kröfu um 100 hluthafa komi ákvæði um 50 hluthafa.

Með þessari breytingu leggur meiri hl. til að frv. verði samþykkt en einn nm. í meiri hl. skrifar undir nál. með fyrirvara og mun gera sérstaklega grein fyrir honum.