26.03.1984
Efri deild: 69. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4100 í B-deild Alþingistíðinda. (3506)

252. mál, fjarskipti

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Hæstv. samgrh. hefur nú gert allítarlega grein fyrir þeim nýmælum og breytingum sem felast í þessu frv. til fjarskiptalaga og sé ég ekki sérstaka ástæðu til að fjölyrða mjög um það. En þar sem ég átti sæti í þeirri nefnd sem endurskoðaði þessi lög þykir mér ástæða til að geta hér nokkurra atriða.

Almennt má segja um þetta frv. að það horfir verulega í frjálsræðisátt frá því sem verið hefur. Er þar kannske til að taka að gefinn er frjáls innflutningur á notendabúnaði, þ. e. þeim símtólum og símtækjum sem eru fyrir innan vegg á heimili eða í fyrirtæki viðkomandi aðila. Þetta er auðvitað sjálfsagt mál og eðlilegt, sem hefði átt að vera komið til framkvæmda fyrir löngu, vegna þess að auðvitað á réttur póst- og símamálastofnunar hverju sinni ekki að ná nema að heimilisvegg eða húsvegg í hvaða tilviki sem er, rétt eins og gildir um rafmagn, og innan dyra á viðkomandi aðili að fá ráðið því sem hann ráða vill um lagnir og tækjabúnað. Þetta er meginatriði varðandi breytingar sem frv. gerir ráð fyrir.

Ýmsu öðru hefur hér verið breytt og fært til nútímahorfs. Það sem þó er meginatriði í þessu sambandi kemur hér fram í grg. Það er sú staðreynd að á tímum eins og nú eru, þegar framfarir í fjarskiptatækni allri eru jafnörar og raun ber vitni, þá verður löggjöf af þessu tagi í rauninni að vera í stöðugri endurskoðun.

Í athugasemd við frv. er frá því greint að á fundum nefndarinnar hafi töluvert verið rætt um hin svonefndu „kapalkerfi“, sem rutt hafa sér til rúms hér á landi til hliðar við lög og rétt, og raunar mætti kannske segja í trássi við lög og rétt, en verið látin afskiptalaus að mestu. Með leyfi forseta segir hér í grg.: „Nefndarmönnum er ljóst að slík „kapalkerfi“ eða boðveitur muni koma a. m. k. í þéttbýli á næstu árum, — kerfi sem geta flutt upplýsingar og myndefni til og frá heimilum.“ Þetta er mál sem þarf að ræða hér og taka afstöðu til. Nefndinni þótti hins vegar ekki ástæða til við þessa endurskoðun fjarskiptalaganna að fjalla um svo viðurhlutamikið mál sem næsta litla umr. hefur fengið hér í þjóðfélaginu. En auðvitað er nauðsynlegt að taka á því fyrr en varir.

Framfarir á þessu fjarskiptasviði hafa verið svo örar undanfarin ár að það er raunar með ólíkindum. Það var t. d. fyrsta árið 1956 að talsímakapall var lagður yfir Norður-Atlantshaf. Áður hafði sæsíminn verið lagður, ritsími, en fyrir símtöl milli landa yfir Atlantshafið var notast við ótryggt loftskeytasamband eða radíósamband. Það var svo 9 árum seinna sem fyrsti gervihnötturinn var sendur á loft, fyrsti fjarskiptahnötturinn. Fjarskiptahnettirnir, sem nú eru hér yfir miðbaug í 36–38 þús. km hæð og snúast þar með jörðu, eru sennilega einhver mesta bylting sem orðið hefur í tækni og fjarskiptum á þessari öld. Þessi fyrsti fjarskiptahnöttur, sem sendur var á loft 1965, fyrir 19 árum, var nú ekki burðugri en svo, að um hann gátu ekki farið nema 240 símtöl samtímis, en þeir fjarskiptahnettir sem verið er að senda á loft á þessu ári, INTELSAT 4, INTELSAT 5 og INTELSAT 5 A anna 15 þús. símtölum samtímis. Talið er að árið 2025 muni fjarskiptahnattakerfin sem þá verða komin í notkun anna 130 þús. millj. símtala samtímis eða jafngildi þess í öðrum fjarskiptum. Þá verða íbúar jarðarinnar væntanlega ekki nema 12 þús. millj., en hins vegar munu þá verða komnar til ýmsar nýjar þarfir, svo sem sjónvarpsfundir milli landa, þar sem menn sitja hver á sínum heimastað og ræðast við. Þá verður væntanlega komið til nýtt hágæðasjónvarp sem tekur meira pláss á bylgjusviðinu en sjónvarp gerir núna og gefur margföld myndgæði á við það sem nú er. Væntanlega verður líka komið þrívíddarsjónvarp, segja þeir sem leitast við að spá fyrir um slíka hluti, og sitthvað fleira, þannig að ekki fer þetta allt undir símtöl. Þessir INTELSAT 5 fjarskiptahnettir geta sent ótrúlegt magn upplýsinga. Með þeim sendihraða sem menn ráða yfir nú er hægt að senda allt efni alfræðiorðabókar á borð við Encyclopædiu Britannicu yfir Atlantshafið sex sinnum á hverri mínútu.

Árið 1986 koma INTELSAT 4 fjarskiptahnettir í notkun. Þeir munu anna 36 þús. símtölum samtímis eða 120 sjónvarpsrásum. A. m. k. 12 slíkir hnettir verða sendir á loft og hver af þessum hnöttum getur annað öllu efni Britannicu-orðabókarinnar 25 sinnum á hverri einustu mínútu. Það er stundum verið að reyna að segja okkur það hér að kostnaður við gervihnetti og þvíumlíkt fari vaxandi. Staðreyndin er sú að þessi kostnaður fer hraðlækkandi með hverju árinu sem líður. Það eru nú 170 lönd og landsvæði sem njóta þjónustu INTELSAT hnattanna og notkunaröryggi þessa kerfis er rúmlega 99.9%. Það sem gerast mun í þessum fjarskiptum á næstunni er það, að þetta hætti að verulegu leyti að vera fjarskipti milli manna. Þetta verða annars vegar fjarskipti milli manns og tölvu og hins vegar fjarskipti milli tölva eða tölvubanka.

Ég vék áðan að verðinu á þessari þjónustu, sem okkur er sagt hér að standi kannske í vegi fyrir því að við getum nýtt okkur alla þessa tækni. Raunar er það svo, ég er þeirrar skoðunar, að Póstur og sími og þeir samningar sem við höfum við Mikla norræna ritsímafélagið hafi staðið þróuninni í þessum efnum hér fyrir þrifum. En nú kemur að því áður en langt um líður að við getum keypt Mikta norræna ritsímafélagið út úr jarðstöðinni, sem við eigum hér, og við eigum að gera það sem fyrst.

Ef miðað er við verðbólgu þá er INTELSAT-þjónustan 18 sinnum ódýrari núna en hún var 1965. Jafnframt því hefur það gerst að jarðstöðvar til móttöku á upplýsingum og fjarskiptum frá gervihnöttum verða ódýrari með hverju árinu. Þessar jarðstöðvar eru í sívaxandi mæli notaðar til að annast símaþjónustu innan lands. Einkanlega hefur þetta komið þróunarlöndunum vel, þar sem símakerfið var vanbúið eða vanþróað, og ýmis þeirra, t. d. Indland og ýmis Afríkuríki, hafa tekið slíkar stöðvar í sína þjónustu í sívaxandi mæli. Jarðstöðvar eru nú orðið ekki dýrari en svo að það væri hverju meðalfyrirtæki raunar í lófa lagið að koma sér upp eigin jarðstöð.

Það væri kannske ástæða til að minnast á ýmislegt fleira í þessu sambandi, aðeins til að benda á hvað framfarirnar hafa verið óskaplega örar og eiga eftir að verða enn þá örari. Ég geri ráð fyrir að menn hafi heyrt talað um svonefnda minniskubba, sem eru í tölvum, í tölvuúrum og vasareiknitölvum sem menn eiga. Fyrir 10 árum var hægt að setja 16 upplýsingaeiningar á einn minniskubb. Nú er hægt að setja 236 þús. slíkar einingar í samsvarandi minniskubb og menn sjá í rauninni ekkert því til fyrirstöðu að hægt sé að gera enn þá betur. Og allt verður þetta ódýrara eftir því sem fram líða stundir. Árið 1952, þegar tölvurnar voru að koma á markað, kostuðu 100 þús. reikningseiningar 1 dollar 25 cent. Árið 1980 kosta jafnmargar reikningseiningar, 100 þús., 0.25 cent. Það eru 400 þús. útreikningar fyrir 1 cent.

Á tímabilinu frá des. 1974 til 1979 hækkaði verð á bensíni í Bandaríkjunum um meira en 100%, verð á byggingarefnum um 65%, og verð á kjöthakki um 74%. Á sama tíma lækkaði reiknikostnaður í tölvum um 95%.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa þessi orð öllu fleiri. En ég held að við þurfum að huga mjög alvarlega að því sem er að gerast á þessum vettvangi. Við eigum að horfa fram og við eigum að notfæra okkur þær byltingar í fjarskiptum og fjarskiptatækni og upplýsingaflæði sem nú eru að eiga sér stað.

Ég geri ráð fyrir að einhverjir hv. þm. hafi hlýtt á fréttir Ríkisútvarpsins í gær. Þar var talað við einn af yfirverkfræðingum Pósts og síma sem sagði frá því að að því kæmi hér von bráðar að svonefndir glertrefjaþræðir eða ljósleiðarar yrðu teknir í notkun sem símakaplar í þéttbýli. Til marks um afkastagetu slíkra leiðara má geta þess, að strengur af því tagi með ljósleiðurum, sem er hálfur þumlungur í þvermál, getur annað 40 þús. símtölum samtímis, en jafngildur þráður með koparvírum, eins og nú eru notaðir, getur sennilega annað 30–40 símtölum samtímis. Við erum að lifa byltingu í þessum efnum og ég óttast að við höfum ekki næga gát fylgjumst ekki nógu vel með því sem er að gerast. Í rauninni væri fullkomin ástæða til að setja á stofn sérstaka nefnd, sem hefði það hlutverk eitt að horfa fram á við í þessum efnum, fylgjast með því sem er að gerast, kynna sér spádóma færustu sérfræðinga um hvernig þessi mál muni þróast og gera síðan tillögur um það hvernig við ættum að bregðast við. Á sviði þessarar tækni eru það nefnilega ekki hráefni sem skipta máli. Það er mannauður og menntun fólksins sem eru forsenda framfara. Ég er ekki í vafa um það að við Íslendingar getum notið góðs af. Við getum skapað atvinnu, við getum skapað velmegun með því að nýta okkur þessa tækni betur en við höfum gert. Það hefur raunar á sumum sviðum verið gert og því ber að fagna.

En að lokum, virðulegi forseti, vil ég leggja áherslu á að þetta frv., þessi endurskoðun sem hér hefur átt sér stað, er aðeins þrep á lengri leið, aðlögun þessara laga að breyttum tímum. Hér þarf að gera enn þá betur. Í rauninni held ég að væri veruleg ástæða til að huga að því hvort ekki ætti að setjast nú á rökstóla og líta sérstaklega m. a. á það sem varðar kapalkerfi og þá tækni sem er nýjust þar. Vegna þess að hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá kemur slíkt kerfi og við verðum að búa okkur undir að taka ákvarðanir um hverjir skuli eiga og reka slík kerfi, hvort það eiga að vera fyrirtæki með gróðasjónarmið ein, hvort það eiga að vera bæjarfélög, hvort það á að vera hið opinbera. Þetta eru allt saman atriði sem við þurfum að taka afstöðu til. Og því fyrr, því betra.