27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4201 í B-deild Alþingistíðinda. (3585)

239. mál, ný þjóðminjalög

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans og gleðst yfir því að heyra að það er ásetningur hæstv. ráðh. að leggja fram nú á þinginu frv. til nýrra þjóðminjalaga. Mér er ljóst að þar verður um mikinn bálk að ræða — hlýtur að vera það — sem tekur væntanlega til margra nýrra þátta, eins og hæstv. ráðh. vék raunar að í sínu máli.

Ég geri einnig ráð fyrir að það verði torvelt að ljúka afgreiðslu slíkra laga á þessu þingi, svo skammt sem er eftir af starfstíma þess ef að líkum lætur. Engu að síður tel ég mjög mikilsvert að frv. þetta komi hér fram á þinginu og vissulega mun ég leggja mitt af mörkum til að það hljóti þar fullnaðarafgreiðslu. En þótt svo yrði ekki er mjög gagnlegt að slíkt frv., sem hefði að geyma ýmis nýmæli í þessu þýðingarmikla máli, gæti legið fyrir til kynningar þeim sem áhuga hafa á málinu milli þinga, þannig að þeir geti komið við ábendingum, sem unnt væri þá að taka til athugunar á næsta þingi, og greiða þá væntanlega fyrir afgreiðslu málsins og setningu nýrra laga.

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin og vænti að þetta frv. sjáist í þinginu innan skamms.