02.04.1984
Efri deild: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4326 í B-deild Alþingistíðinda. (3692)

196. mál, lausaskuldir bænda

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa um þetta mál mörg orð. Öll meginatriði málsins hafa þegar komið fram. Ég kem hér aðeins til að undirstrika það að brtt. á þskj. 532, sem er flutt af mér og hv. þm. Helga Seljan og Kolbrúnu Jónsdóttur, er fyrst og fremst ætlað að leggja áherslu á að leysa vanda þeirra sem till. tekur til. Hún mun á engan hátt þrengja þá heimild sem frv. kveður á um. Hún leggur aðeins áherslu á ákveðin atriði. Ég tel það ákaflega mikilvægt að Alþingi lýsi yfir vilja sínum í lagasetningu og því er þessi brtt. flutt.

Um frv. sjálft ætla ég ekki að hafa mörg orð. Það er að mörgu leyti óljóst eins og hér hefur komið fram. Fjáröflunin er ekki alveg ljós. Lánstími og kjör lánanna eftir skuldbreytingu eru óviss, endurkaup skuldabréfa óviss. Ljóst er einnig að einhver fjöldi manna fær ekki lausn sinna mála með þessu. Frv. er því nokkuð ófullkomið á þessari stundu. Ég tel samt að hér sé um mikið nauðsynjamál að ræða og ég er efnislega fylgjandi þeim tilgangi sem frv. boðar. Þess vegna mun ég ekki setja mig á móti því að það nái að fara fljótt og vel í gegnum deildina.