03.04.1984
Sameinað þing: 75. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4368 í B-deild Alþingistíðinda. (3753)

209. mál, þróunarstofur landshlutanna

Flm. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Það hafa að undanförnu orðið talsverðar umræður, bæði innan þings og utan, um samskipti Reykjavíkur, þar sem flestar valdastofnanir þjóðfélagsins eru saman komnar, og annarra landshluta. Það er eðlilegt að slíkar umræður séu uppi þessa dagana þar sem bæði hérlendis og erlendis eru ýmsar hreyfingar í þessum efnum, nýjar hugmyndir og gamlar eru teknar upp og ræddar.

Það er einkennandi fyrir skipulag þessara átriða hjá okkur í dag að aðsetur flestallra valdastofnana þjóðfélagsins er hér í Reykjavík. Þetta er vafalaust arfur frá þeim tíma þegar ríkisvald fór að styrkjast, fór að taka að sér ýmsar sameiginlegar aðgerðir, t. d. í atvinnumálum, þegar endurbætur í landbúnaði og sjávarútvegi voru framkvæmdar, og þessum aðgerðum var stjórnað með samstilltu átaki og í mörgum tilfellum eftir lögum frá Alþingi og styrk af opinberu fé Þær takmarkanir sem þá voru á samgöngum milli landshluta vegna óbrúaðra áa og lélegra vega, aðrar takmarkanir á samskiptum, eins og hægar póstsamgöngur og kannske enginn sími, og ekki síst skortur á sérmenntuðu fólki úti um landið til ýmissa svona átaka, gerðu beinlínis kröfur til þess að aðgerðum ríkisvaldsins væri stýrt á einum stað, þ. e. frá Reykjavík þar sem þekking og aðstaða til stjórnunar var betri.

Nú eru hins vegar tæknilegar aðstæður orðnar talsvert breyttar. Nú eru aðstæður fyrir náin samskipti og samstarfs milli fólks, jafnvel þó heimsálfur skilji á milli, látum vera þó örfáir kílómetrar innan lítils eylands eins og Íslands skilji að. Það var fróðlegt erindi nýverið í Ríkisútvarpinu á sunnudagseftirmiðdegi sem Sigfús Björnsson dósent við Háskóla Íslands flutti um það sem hann kallaði nærtæk skref til upplýsingaþjóðfélags. Í þessu erindi var varpað ljósi á ýmsa af þeim möguleikum sem við annaðhvort sjáum fyrir okkur eða eru þegar farnir að gera áþreifanlega vart við sig í samskiptaháttum fólks. Það er hægt að senda bréf frá einni ljósritunarvél til annarrar á örfáum sekúndum með kostnaði sem er kannske ekki nema tíundi partur af því sem kostar að senda bréf í pósti. Það eru samtengdar tölvur og samtengdir tölvuskjáir á skrifborðum fólks um allt land, sem geta verið virk samskiptaleið ef óskað er. Það er því svo komið að það eru allar tæknilegar aðstæður til að dreifa valdi eða dreifa ákvarðanatöku frá Reykjavík og út um landið þar sem verkefnin eru sem verið er að vinna að hverju sinni.

Af þessum ástæðum svo og ýmsum fleiri ástæðum, sem við höfum heyrt að undanförnu, er sífellt meira horft til dreifingar valds og valdastofnana út um landið. Við sjáum ýmis merki þess að landshlutar, bæði hér og erlendis, eru að eflast og þeir sýna greinileg merki þess að vilja ráða sér sjálfir. Þeir finna til sérstöðu sinnar á mörgum sviðum, höfða til sérstöðu sinnar sömuleiðis og eflast að sjálfstæði. Eitt dæmi hérlendis er að það er mikil umræða um verkefnafærslu frá ríkisvaldinu í Reykjavík til sveitarfélaga. Við sjáum annað dæmi sem er að á síðustu árum hafa verið stofnaðar landshlutastofur ríkisstofnana eins og Vegagerðar og fleiri. Við sjáum merki um þetta í sambandi við fjölmiðlun á síðustu árum. Það hefur orðið gífurlegur vöxtur í landshlutablaðaútgáfu ýmiss konar. Annað dæmi er landshlutahljóðvarp sem komið hefur verið upp á Akureyri. Það eru uppi óskir annarra landshluta um að fá hliðstæða möguleika. Þetta verður vafalaust mikið rætt í sambandi við útvarpslagafrv. sem nú er á döfinni. Það má nefna nýlegar óskir skólamanna um aukið forræði landshluta sjálfra í skólamálum. Það má nefna styrkingu samtaka sveitarfélaga á einstökum svæðum sem hafa látið mjög kveða að sér að undanförnu. Ýmis samtök sveitarfélaga standa fyrir mikilsverðum rekstri. Nefna má Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum sem reka ýmiss konar þjónustu þar.

Þetta eru örfá dæmi um að landshlutar eru að vakna til vitundar um eigin vilja, óskir og raunar möguleika til sjálfræðis sem eru af tæknilegum ástæðum greinilegri en fyrr. Af þessu tilefni hefur þingflokkur BJ flutt till. til þál. um þróunarstofur landshlutanna. Þetta er 209. mál á þskj. 372. Flm. eru auk mín hv. þm. Kristófer Már Kristinsson, Stefán Benediktsson og Kolbrún Jónsdóttir. Ályktunin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa nefnd til að semja frv. til l. um þróunarstofur landshlutanna.

Frv. þetta feli m. a. í sér eftirtalin atriði:

1. Þróunarstofur hafi forgöngu um mótun byggðastefnu og veiti alhliða ráðgjöf á öllum sviðum atvinnulífs.

2. Stjórnir þróunarstofa séu skipaðar fulltrúum lýðræðislega kjörinna landshlutasamtaka.

3. Þróunarstofur hafi sjálfsforræði til áætlanagerðar, ákvarðanatöku og fjármagnsútvegunar.

4. Þróunarstofur starfi í nánum tengslum við Byggða- og áætlanadeild (núverandi Framkvæmdastofnunar) sem verði sjálfstæð stofnun undir umsjón félmrn.

5. Þróunarstofur skuli m. a.

a) sjá um gerð og framkvæmd byggðaáætlana. sé leitað til Alþingis eftir fjármagni til stuðnings byggðaáætlunum og það fjármagn samþykkt á fjárlögum skuli þróunarstofur bera ábyrgð á veitingu fjárins í samræmi við áætlanir;

b) vera sameiginlegur vettvangur þess ráðgjafarstarfs sem þegar fer fram á ýmsum sviðum;

c) varðveita iðnþróunarsjóði landshlutasamtaka;

d) starfa í tengslum við landshlutastofur ríkisfyrirtækja.“

Í upphafi grg. með þáltill. segir svo:

Þessi till. til þál. er hluti af stefnumörkun BJ á sviði byggðastefnu og valddreifingar. Á þskj. 4 (till. til þál. um gerð frv. um framkvæmd byggðastefnu sem mælt var fyrir hér í haust) birtist fyrsti hluti þessarar stefnu þar sem m. a. voru settar fram tillögur um ýmsar breytingar á starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins.

Að þessu sinni er gerð grein fyrir tillögum um skipulag þessara mála á heimaslóð og lagt til að settar verði á fót þróunarstofur í landshlutum.

Almenn markmið tillagnanna eru þau að staðfesta frumkvæði heimamanna við gerð byggðaáætlana, umsjá þeirra með framkvæmd áætlana og ábyrgð þeirra á vörslu og veitingu fjármuna sem varið er til byggðastefnu úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.

Á þennan hátt má komast út úr þeim vítahring miðsóknar og miðstýringar sem einkennt hefur framkvæmd byggðastefnu og raunar flestöll samskipti stjórnvalda í Reykjavík og heimamanna úti um landið.

Um einstaka liði í þáltill. má segja eftirfarandi:

Í 1. lið er lögð áhersla á það tvíþætta hlutverk þróunarstofa að hafa forgöngu um gerð og framkvæmd byggðaáætlana annars vegar og hins vegar að vera uppspretta hugmynda, upplýsinga og víðtækrar ráðgjafar í daglegri önn atvinnulífsins í viðkomandi landshluta. Þess vegna er lagt til að þeir ráðunautar, sem þegar eru að starfi í ýmsum greinum, t. d. landbúnaði, iðnþróun, sjávarútvegi, fiskvinnslu, fiskeldi, skólamálum o. fl., hafi sameiginlegt aðsetur á stofunum.

Um 1. lið má raunar ýmislegt fleira segja. Við teljum að með því að safna þeim aðilum sem þarna er talað um saman á einn stað verði þeir í fyrsta lagi aðgengilegri fyrir fólkið sem leitar þjónustu þeirra og í öðru lagi teljum við mikilvægt að þeir hafi sameiginlegt aðsetur þar sem þeir geta þegið ráð hver hjá öðrum og geta skapað sér örvandi umhverfi í því verkefni að hjálpa til við að þroska atvinnulíf í landshlutanum. Þannig gætu þeir myndað sér sameiginlegt umhverfi nýsköpunar og hugmyndasmíði sem við teljum að sé mikilvægt.

2. lið þáltill. er lagt til að stjórnir stofanna endurspegli á sem lýðræðislegastan hátt vilja íbúanna á svæðinu. Slíku samkomulagi er hægt að ná innan þeirra landshlutasamtaka sem nú starfa, enda er ekki hægt að reikna með öðru en að vilji fulltrúanna í þeim standi til lýðræðislegra vinnubragða. Í þessu sambandi má jafnframt benda á hugmyndir BJ um almennar kosningar fylkisstjórnvalda sem mundu auðvelda lýðræðislega lausn þessara mála.

Í sambandi við þessa grg. má víkja að því að það hefur orðið ýmsum landshlutasamtökum erfitt að eins og er er stjórn þeirra víðast hvar á jafnréttisgrundvelli, þannig að þar hafa jafnmarga fulltrúa bæði þeir smæstu og þeir stærstu. Þetta hefur í einstökum atriðum valdið erfiðleikum þegar að því kemur að taka afstöðu til dreifingar stórra peningaupphæða eða reksturs á fjárfrekum framkvæmdum. Það má telja að ef vilji fólks standi á annað borð til samvinnu af þessu tagi, eins og lagt er til í till., ætti að vera hægt að leysa þetta. Auðveldast væri þetta mál leyst á þann hátt að til væru lýðræðislega kosin landshlutasamtök þar sem einn maður hefði eitt atkv. í landshlutanum og engum vafa væri undirorpið það umboð sem þeir hefðu.

Í 3. lið þáltill. er lögð áhersla á frumkvæði og ábyrgð heimamanna í byggðamálum. Það er augljóst að þekking á staðbundnum landkostum, atvinnulífi, hefðum og lífsháttum er nauðsynleg undirstaða að markvissri sókn í byggðamálum. Það er jafnljóst að heimamenn eru best í stakk búnir til að fylgjast með og bera ábyrgð á því að aðgerðir í byggðamálum séu í samræmi við áætlanir.

Í þessu sambandi langar mig aðeins að víkja að þáttum sem ég held að séu mikilvægir hvað þessu viðvíkur. Það er mikilvægt, þegar um er að ræða að hafa hönd í bagga með þróun atvinnulífs á ákveðnum stöðum eða landshlutum, að tækniþekking, sem komið er á fót eða aflað er í landshlutanum, sé í einhverju samhengi við menningu og daglegt líf fólksins á svæðinu. Þar er sem dæmi munurinn á milli sjávarbyggða og landbúnaðarbyggða. Það geta einnig verið á einstökum stöðum hefðir í t. d. iðnaðarmálum, eins og t. d. á Akureyri. Það er mikilvægt að fjallað sé um það af staðarmönnum hvernig atvinnuhættir séu vænlegastir til árangurs á svæðinu. Þetta gerist best með þeirra forsjá.

Í öðru lagi langaði mig að geta þarna um hlutverk skólakerfisins sem eins og ég sagði áðan hefur verið til umræðu í þessu sambandi. Skólamenn hafa nýlega farið fram á að þeir fái aukið sjálfsforræði bæði til mótunar námsefnis og til rekstrar skólanna. Ég tel að það sé mjög mikilvægt atriði að skólar á hverjum stað geti auðveldlega aðlagað sig staðbundnum hefðum eða möguleikum í atvinnulífi. Það kemur sömuleiðis vel til greina í sambandi við skólana og skipulag þeirra að kenna grundvallaratriði í atvinnulífi og atvinnurekstri. Það má með námskeiðum skapa áhuga á slíku. Það má skapa áhuga á framtaki og nýsköpun í atvinnumálum. Það er því ýmislegt sem skólakerfið getur gert ef það er frjálst að því að taka eigin ákvarðanir eftir því sem hugur manna stendur til á hverjum stað.

Það má nefna fleira sem þróunarstofur gætu aðstoðað fólk með. Eitt atriði væri þjálfun og aðstoð í eyðublaðafrumskóginum svokallaða. Menn gætu fengið aðstoð t. d. við lánsumsóknir, framtalsaðstoð, bókhaldsaðstoð eða rekstrarráðgjöf af einhverju tagi. Þetta er allt saman þjónusta sem er nokkuð dýr og kannske ekki á færi lítilla fyrirtækja að taka. Það má hugsa sér að á fyrstu stigum fyrirtækjarekstrarins væri þetta þjónusta sem væri veitt af þróunarstofum landshlutanna. Þetta eru örlítil dæmi sem ég vildi koma að í sambandi við þennan lið.

Það er eitt atriði enn sem er kannske vert að minnast á í þessu sambandi. Það fjallar um fjármögnun. Í 3. lið þáltill. er talað um fjármögnun þar sem sagt er að þróunarstofur hafi sjálfsforræði til áætlanagerðar, ákvarðanatöku og fjármagnsútvegunar. Í þessu sambandi tel ég að það væri mjög við hæfi að virkja bankastarfsemi á hverjum stað meir til þátttöku í efnahagslífi. Við sjáum þess dæmi í ýmsum löndum sem við teljum að séu framarlega í eflingu atvinnulífs og þar sem orðið hafa verulegar efnahagslegar framfarir, eins og Þýskalandi og Japan, að þar standa bankar mjög nálægt fyrirtækjunum. Þeir eiga jafnvel fulltrúa í stjórnum þeirra. Þeir eru ráðgjafar þeirra í peningamálum. Þeir standa að framleiðsluáætlunum með stjórnum fyrirtækjanna og taka á þann hátt virkan þátt í eflingu atvinnurekstrarins. Þetta er atriði sem er langbest framkvæmt með þátttöku bankafólks og atvinnumanna hverra á sínum stað. Hugsanlega þarf ekki um þetta milligöngu þróunarstofa, en ef svo er væri það eðlilegt hlutverk þeirra.

Í 4. lið þáltill. er lagt til að þróunarstofur starfi í samvinnu við þá aðila sem sinna byggðamálum undir stjórn ríkisvaldsins. Þannig fæst eðlilegt flæði upplýsinga og tækifæri til samræmingar markmiða í víðu samhengi.

Það er óþarfi að ræða þetta frekar en það mætti hugsa sér þetta þannig, að byggða- og áætlanadeildir núverandi Framkvæmdastofnunar yrðu lagðar niður í núverandi mynd, en hlutverk þeirra yrði ýmiss konar úrvinnsla og söfnun upplýsinga, kannske á stærri grundvelli, og gætu þær verið nokkurs konar upplýsingabankar og ráðgjafarbankar fyrir þróunarstofurnar úti um landið sem stæðu í nánara sambandi við verkefnin sjálf.

Í 5. lið þáltill. er lagt til að þróunarstofur varðveiti og annist greiðslur úr iðnþróunarsjóðum sem ýmis landshlutasamtök hafa þegar sett á fót. Þar er einnig rætt um að þróunarstofur starfi með landshlutastofum ríkisfyrirtækja, svo sem Vegagerðar, Pósts og síma og RARIK, svo dæmi séu nefnd.

Um þetta þarf ekki að hafa mörg fleiri orð. Þörf samstarfs og samræmingar á störfum ríkisfyrirtækjanna innan landshlutanna liggur í augum uppi. Það getur verið óskynsamlegt að vinna að mörgum stórum verkefnum nákvæmlega sömu mánuðina vegna skynsamlegrar dreifingar atvinnunnar innan landshlutans. Þarna gæti líka komið sá þáttur að athuga með áhuga heimamanna á eða möguleika heimamanna til undirverktakastarfsemi í ýmsum þeim verkefnum sem eru á vegum ríkisfyrirtækjanna. Þó ekki væri annað er mikilsvert að kynna með góðum fyrirvara heima í héraði hver áform ríkisfyrirtækin hafa um framkvæmdir innan landshlutanna.

Herra forseti. Ég óska þess að þáltill. verði vísað til atvmn.