03.04.1984
Sameinað þing: 75. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4375 í B-deild Alþingistíðinda. (3756)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skil mætavel áhyggjur hv. fyrirspyrjanda. Í ýmsum sjávarplássum um landið virðist stefna í að kvótinn verður nýttur fyrr en gert var ráð fyrir og að sjálfsögðu hefur það mikil áhrif á atvinnuástand. Ég fullvissa hv. þm. um að ríkisstj. hefur fjallað um þessi mál og fylgist með þróun mála. Ég geri ráð fyrir að sú atvmn., sem ríkisstj. ákvað að setja á fót fyrir alllöngu og óskaði tilnefningar í frá aðilum vinnumarkaðarins, verði fljótlega sett á fót. Því miður hafa ekki borist tilnefningar frá öllum, en ég vænti þess að það verði innan mjög skamms. Hins vegar sýnist mér, þegar ég hlusta á hv. fyrirspyrjanda, að réttara hefði verið að beina þessum spurningum til hæstv. sjútvrh. Ég skal að vísu svara nokkru um kvótann og fiskafla, en ég verð að taka það fram að þar lýsi ég eigin viðhorfi til þeirra mála.

Ég vil fyrst segja eins og hv. þm. að ég er ekki kvótamaður fremur en hann. Hins vegar verð ég að segja að eftir að tillögur um samdrátt í þorskafla lágu fyrir frá fiskifræðingum sýndist mér ljóst að sú leið til stjórnunar fiskveiða sem við höfum farið yrði ófær við þessar aðstæður. Það verður að gera sér grein fyrir því að sú leið byggðist á því að skipta árinu í þrennt, takmarka veiðar innan hvers þriðjungs ársins og stöðva þær þegar náð væri ákveðnu hámarki. Miðað við að draga um helming úr afla t. d. bátaflotans var ljóst að bátaflotinn á Suðvesturlandi og víðast á Vesturlandi hefði fyllt þann kvóta sem honum yrði ætlaður á fyrsta ársþriðjungi ef ekki kæmu aðrar takmarkanir til. Það kerfi gekk því nánast ekki upp. Auk þess var það yfirlýst stefna og samþykkt hagsmunaaðila að rétt væri að taka upp kvóta á hvert skip. Ég verð því að segja að þó menn hafi sínar efasemdir held ég að önnur leið hafi vart verið fær.

Ég vil einnig lýsa þeirri skoðun minni, að eftir þær leiðréttingar sem gerðar voru sé þessi fyrsta tilraun til kvótaskiptingar á veiðum eins vel gerð og gera má ráð fyrir í byrjun. Það koma ætíð í ljós einhverjir annmarkar. Á því er ekki nokkur vafi. Ég vek athygli á að þessar reglur eru unnar af fulltrúum þeirra aðila sem hér eiga stærstra hagsmuna að gæta og ég held að þeir hafi lagt sig fram við að móta reglur sem eru viðunandi.

Ég vil einnig segja að samkv. þeim upplýsingum sem ég hef fengið víða af landinu er mér tjáð að því fari víðs fjarri að menn hafi fullnýtt kvótann og sums staðar reyndar langt frá því. Aflabrögð hafa sums staðar verið slök eins og t. d. um austanvert landið. Mér er einnig sagt og hef fyrir því ábyggilegar upplýsingar að í sumum sjávarplássum hafi menn brugðist þannig við kvótanum að þeir hafi beinlínis hægt á veiðum. Ég gæti nefnt dæmi um staði þar sem togarar hafa verið bundnir við bryggju þrjá, fjóra daga með það í huga að kvótinn nýttist lengur og að gefa bátunum á þessum tíma vissan forgang, en ég get líka nefnt staði þar sem ekkert hefur verið hægt á togurum og þeir hafa landað hingað og þangað um landið af því að vinnslustöðvar í þeirra sjávarþorpum gátu alls ekki tekið við aflanum. Ég verð að segja það fyrir mitt leyti að ég tel að slík nýting á kvóta sé ekki skynsamleg og ekki þá tekið tillit til mikilvægis þess að vinna haldist sem jöfnust í landi.

Hv. þm. spurði hvort kvótinn yrði aukinn. Því get ég alls ekki svarað á þessari stundu. Þetta hefur að sjálfsögðu verið rætt við sjútvrh. Fiskifræðingar höfðu lofað endurskoðun tillagna fyrir lok þessa mánaðar. Þeir hafa nú fallist á að skila tillögum í næstu viku og með tilvísun til þeirrar áherslu sem menn hafa lagt á það í bak og fyrir að farið verði að tillögum fiskifræðinga trúi ég því varla að menn ættist til þess að sjútvrh., án þess að hafa viðbrögð fiskifræðinga og niðurstöður af leiðöngrum þeirra, auki kvótann á sitt eindæmi. Ég trúi því vart. En hann hefur tjáð mér að þeir hafi lofað sér því að hraða tillögugerð. Þeir eru nýlega komnir úr öðrum leiðangri og rannsóknarskip var sent nú einnig á Breiðafjörð til að skoða betur þorskgengd þar. Væntanlega verður því ákvörðun um viðbótarkvóta tekin í næstu viku.

Hv. þm. sagði að óhjákvæmilegt væri að auka kvótann um 40 til 50 þús. tonn. Var það ekki rétt tekið eftir? Því vil ég vekja athygli á að slík aukning og reyndar hver sem hún yrði hlýtur að ganga jafnt yfir landið. Þeir staðir sem nýtt hafa kvótann fyrst geta alls ekki haft forgang yfir aðra sem kannske hafa gætt meiri forsjálni í að nýta sinn kvóta. Þetta mundi þýða u. þ. b. 15–16% aukningu því að ég hygg að þorskkvótinn með leiðréttingum sé kominn yfir 230 þús. lestir. Eins og aflabrögð hafa verið í sumum verstöðvum landsins sýnist mér að þetta þýddi svona eins og þrjár ferðir á bátana. Þetta leysir því ekki allan vanda á slíkum stöðum: Það sýnist mér alveg ljóst.

Ég vek athygli á því að við nálgumst óðum þann tíma sem ætíð hefur verið þorskveiðistopp, þ. e. páskatímann. Það eru u. þ. b. 10–11 dagar í það að þorskveiðistopp hefði orðið skv. gömlu reglunni. Mér sýnist því e. t. v. of mikið gert úr þeim bráða vanda sem talinn er fram undan. Hitt viðurkenni ég, að ef svo fer að viss sjávarpláss hafa nýtt kvótann snemma á árinu bæði bátar og togarar, er þar mjög mikið vandamál, mjög stórt vandamál og vitanlega verður að taka á því. Reynt hefur verið að draga úr slíkri hættu með því að veita víðtæk leyfi til rækjuveiða og hefur það reyndar verið gagnrýnt á sumum stöðum landsins að þau leyfi séu allt of mörg og of nærri rækjumiðum gengið og kannske markaði, en að sjálfsögðu hefur það verið gert í þeirri viðleitni að draga úr hættu á atvinnuskorti. Ég vil jafnframt nefna að gert er ráð fyrir verulegri aukningu í veiðum á kola og dragnótaheimildir eru auknar. Á sumum þeim stöðum sem hér um ræðir eru áreiðanlega möguleikar til slíks ef menn vilja.

Ég vil á þessari stundu fyrst og fremst fullvissa hv. fyrirspyrjanda og hv. þm. um að ríkisstj. er að fullu ljóst að sums staðar stefnir í vanda. Ég hygg hins vegar að það sé miklu staðbundnara en kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda og ég vil fullvissa hv. þm. um að hvert slíkt tilfelli verður vandlega skoðað.