04.04.1984
Efri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4445 í B-deild Alþingistíðinda. (3776)

222. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Skúli Alexandersson):

Virðulegi forseti. Það er nú sjálfsagt ástæðulaust að halda áfram nokkurri umr. um þetta mál í hv. deild. Það er nokkurn veginn vitað mál hver afgreiðsla þess verður. En mig langaði að undirstrika það, sem kom fram í ræðu hv. þm. Karls Steinars, að það er nokkurn veginn ljóst að það er ekki sérstaklega mikill vilji hjá hv. — (EgJ: Af hverju líturðu á mig?) Ég lít ekki á þig, ég lít fram hjá þér. — fulltrúum í sjútvn. að koma þessu máli áfram. Meiri hl., sem. stendur að baki hv. formanni, sá ekki ástæðu til þess, sumir þó, að vera hér í Ed. þegar umr. átti sér stað. Ég sé reyndar að hv. þm. Egill Jónsson er kominn núna. Þeir koma kannske til atkvgr. Við verðum að sjá hvað þá kemur fram.

Mér láðist að geta þess í umr. áðan að ásamt okkur Karli Steinari og Kolbrúnu Jónsdóttur er flm.brtt. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir.

Hæstv. sjútvrh. flutti yfirlýsingu um lífeyrismál sjómanna í ræðu sinni fyrir fundarfrestun. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því að það mál skuli vera komið á þann rekspöl sem þar kom fram, en ég held að rétt sé að taka það þó fram að það er nokkuð merkilegt að þessi yfirlýsing skuli koma fram við þessa umr. hér í Ed. Það er eins og hálfgerð dúsa fyrir þá skerðingu sem sjómenn verða fyrir við samþykkt þessa máls. Ég held að það sé langt frá því að hægt sé að líta svo á að lífeyrissjóðsmál sjómanna séu að einu eða neinu leyti tengd því máli sem við erum að ræða nú, enda tekið fram í yfirlýsingu sjómanna að þetta sé fyrst og fremst samningsmál. Það sem fram kom í ræðu hæstv. ráðh. var fyrst og fremst að samkomulag hefði orðið um að kjósa nefnd sem skili áliti innan ákveðinna tímamarka. Ég lýsi yfir að ég fagna því. Það er vitaskuld áfangi á þeirri leið að laga stöðu sjómanna í sambandi við lífeyrismálin.

Hæstv. ráðh. nefndi enn og undirstrikaði að hér væri ekki verið að rýra kjör sjómanna. Þetta væri þáttur sem hefði aldrei komið til skipta. Við 1. umr. í Ed. kom það fram, og ég vil undirstrika að það er skoðun sjómanna og okkar sem að minnihlutaáliti stöndum, að þó að þetta hafi ekki beinlínis komið til skipta var það viðurkennt sem trygging sjómanna fyrir launagreiðslum og þar af leiðandi ekki hægt að líta svo á að það hafi eingöngu áður gengið beint til útgerðar. Því er mótmælt.

Mér barst í hendur núna í fundarhléi útskrift úr fundargerðarbók stjórnar Fiskifélags Íslands. Ég held að það sé vert að lofa hv. Ed. að heyra hvernig afgreiðslu þetta mál fékk þar. Það eru tekin fyrir lög nr. 51 28. apríl 1983, um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins. Með leyfi forseta les ég fundargerðina:

„Fiskimálastjóri gerði ítarlega grein fyrir frv. og lagði hann fram álit ráðgjafarnefndar um sjávarútvegsmálafrv. Að lokinni framsögu sagði fiskimálastjóri að hann og framkvæmdastjóri Aflatryggingasjóðs, Þórarinn Árnason, væru boðaðir á fund sjútvn. Alþingis í fyrramálið kl. 9 og bað um persónulegt álit viðstaddra á fundinum svo að hann gæti haft það sem veganesti á fundinn.

Guðjón Kristjánsson sagðist alfarið á móti því að færa meira fjármagn til útgerðar utan skipta, ræddi og 2. gr. frv. og sagði lítið sem ekkert fjármagn eftir til að greiða úr fjárhagsörðugleikum sjómanna þegar fæðið hefði verið gert upp. Ef þetta frv. verður samþykkt kann það að leiða til ófriðar.

Kristján Ásgeirsson sagðist alfarið sammála Guðjóni: Nóg er tekið utan skipta af sjómönnum.

Hilmar Bjarnason: Sammála að mæla gegn frv., nóg væri tekið utan skipta.

Ingólfur Arnarson: Ég er í höfuðatriðum sammála fyrri ræðumönnum. Ég óttast að verði frv. samþykkt, þá hefði verið stigið fyrsta skrefið að því að leggja almennu deildina niður til frambúðar.

Marteinn Jónasson: Hvað er það sem knýr á um breytingu á sjóðnum? Ég er þessu andvígur.

Ríkharður Jónsson: Ef þetta frv. verður samþykkt mun það ganga að hlutaskiptareglunni dauðri. Alfarið andvígur breytingu.

Ingólfur Stefánsson sagðist vera andvígur að breytingin yrði gerð á lögunum.

Jón Páll Halldórsson lýsti aðspurður andstöðu sinni við þessar breytingar.

Hilmar Rósmundsson og Gunnlaugur Karlsson tjáðu sig ekki og Þorsteinn Jóhannesson var eigi mættur á fundinum.“

Mér finnst þessi fundargerð segja nokkuð og það að fulltrúar fiskvinnslunnar, sem þarna eru staddir, skuli allir vera á sama máli og sjómenn um að þarna skuli ekki breyta í neinu. Það er aftan að hlutunum farið ef þessi breyting á sér stað á aflatryggingasjóðslögunum í þeirra nafni.

Hæstv. sjútvrh. sagði sem svo virtist að allir menn væru sammála um að kjör sjómanna væru ekki góð. Þrátt fyrir það er enn haldið með þessu frv. og, ef að lögum verður, farin sú leið að létta undir með útgerð með því að skerða hlut sjómanna. Þeirri leið hlýtur að vera mótmælt. Það skulu verða mín síðustu orð um frv.