05.04.1984
Sameinað þing: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4490 í B-deild Alþingistíðinda. (3821)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Síðasti ræðumaður, hv. 3. þm. Vestf., hóf mál sitt með því að lýsa óánægju sinni með það að horfur væru á að það yrðu minni umr. um þetta utandagskrárefni en hann hefði gert ráð fyrir eða hefði mátt ætla. Hv. þm. sagði að sýnilegt væri að ákvörðun forseta um að fresta þessum umr. á síðasta fundi hefði haft tilætluð áhrif, eins og hv. þm. orðaði það.

Af þessu tilefni skal tekið fram, að s. l. þriðjudag þegar hv. 3. þm. Vestf. kom að máli við forseta og óskaði eftir utandagskrárumr. var honum tjáð að af sérstökum ástæðum væru þrengri mörk fyrir því en venjulega hve lengi umr. gæti staðið þann dag. Því kynni að vera hyggilegra að fresta þessum umr. til fimmtudags. Hv. 3. þm. Vestf. hafnaði þessu og það var orðið við ósk hans um að hefja þessar umr. á síðasta fundi. Þeim umr. var haldið áfram á síðasta fundi í hartnær tvær klukkustundir.

Nú segir hv. 3. þm. Vestf. að það hafi verið ráð forseta að fara svo að sem gert var til þess að koma því til leiðar að færri tækju til máls en ella.

Þessi brigslyrði hv. 3. þm. Vestf. samræmast ekki þeim siðvenjum sem gera verður kröfu til að hv. þm. fylgi á Alþingi. Raunar eru þessu brigslyrði vítaverð þó að látið verði sitja nú við áminningu.