05.04.1984
Sameinað þing: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4490 í B-deild Alþingistíðinda. (3822)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í örstuttu máli verð ég að leiðrétta það sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda um atvinnumálanefnd þá sem ríkisstj. hefur gert tillögu um að sett verði á fót. Gert er ráð fyrir að í þá nefnd tilnefni fulltrúa aðilar vinnumarkaðarins. — Mér þætti vænt um ef hv. fyrirspyrjandi mætti vera að að hlusta á skýringu mína, herra forseti. Ég er að tala til hv. fyrirspyrjanda. Ég vil leiðrétta þau ummæli sem komu fram hjá honum áðan um atvinnúmálanefnd þá sem ríkisstj. hefur gert tillögu um að sett verði á fót. Gert er ráð fyrir að tilnefndir verði fulltrúar í þá nefnd frá ýmsum aðilum vinnumarkaðarins. Ríkisstj. hefur tilnefnt sína fulltrúa, sömuleiðis Vinnumálasamband samvinnufélaganna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, en Alþýðusamband Íslands hefur ekki tilnefnt sína fulltrúa og, ég hygg að ég fari rétt með, ekki heldur Vinnuveitendasamband Íslands. Ég vil hins vegar taka fram að ég hef átt fund með mönnum frá ASI, þar sem komið hefur fram áhugi þeirra á því að taka þátt í þessu nefndarstarfi og ég geri ráð fyrir því að ASÍ muni fljótlega skipa menn í nefndina. Þetta vildi ég að kæmi hér fram. Þetta er ástæðan fyrir því að þessi nefnd hefur ekki tekið til starfa.

Ég verð einnig að leiðrétta það sem hann sagði um afstöðu mína til kvótakerfisins. Ég sagðist ekki vera kvótamaður fremur en hann, ég hygg að ég muni það orðrétt, en ég sagði jafnframt að ég hefði ekki séð að vegna þess mikla samdráttar sem fyrirsjáanlegur var og er í þorskveiðum væri vart önnur leið fær eins og er og þess vegna samþykkti ég kvótann. Ég hygg að hæstv. sjútvrh. hafi svipaða afstöðu til þessa máls. Ég gerði einnig grein fyrir því að samþykktir hagsmunaaðila í þessu sambandi hefðu að sjálfsögðu áhrif.

Ég var til fróðleiks að bera saman hvernig ástandið kynni að vera og væri líklega ef fylgt hefði verið gömlu reglunni, sem ég starfaði eftir sem sjútvrh. Bátarnir hefðu að öllum líkindum fengið um 115 þús. lestir, rétt rúmlega helminginn af þorskaflanum. Þeirri reglu var almennt fylgt. Síðan var þeim þorskafla skipt á ársþriðjunga og mjög líklega hefði á vertíðinni verið gert ráð fyrir í kringum 80 þús. lestum af þorski. Mér kæmi satt að segja ekkert á óvart, miðað við þann afla sem verið hefur á Breiðafirðinum og sæmilegur hér suðvestanlands, að fljótlega hefði dregið til þess að þorskveiðar á fyrsta ársþriðjungi hefðu verið stöðvaðar um land allt þrátt fyrir að mjög víða um landið, t. d. á Norðurlandi, Austfjörðum og Suðausturlandi, fer víðs fjarri að kvótanum sé náð. Ég vek athygli á því að það væri ekki allt unnið atvinnulega þótt fylgt hefði verið gömlu reglunni.

Sjútvrh. getur að sjálfsögðu upplýst nánar um aflabrögð, en mér þótti fróðlegt það sem ég frétti í hádeginu að afli í marsmánuði muni að öllum líkindum, þegar lagt er saman, reynast heldur minni en í marsmánuði í fyrra þrátt fyrir þann afla sem hefur verið á Breiðafirði. Þrátt fyrir það mun botnfiskafli í marsmánuði vera minni en í fyrra. Ekki bendir það til þess að um gífurlega mikinn fisk sé að ræða.

Hv. fyrirspyrjandi krefst frá ríkisstj. upplýsinga um hvað muni verða gert. Bæði ég og sjútvrh. höfum upplýst að kvótinn er til endurskoðunar. Ég trúi því ekki, ég endurtek það, að nokkur vilji krefjast þess af sjútvrh. eða ríkisstj. að ákveðinn verði viðbótarkvóti fyrr en fiskifræðingar hafa lagt fram sínar tillögur. Fiskifræðingar hafa lofað að flýta sínum tillögum. Væntanlega verða.þær tilbúnar í næstu viku. Þá munu sjútvrh. og ríkisstj. fjalla um hvort bætt verður við kvótann án tafar og að öllum líkindum verða þá ef unnt er að bæta við afla, aðrar breytingar gerðar á kvótakerfinu.

Ég vil jafnframt leggja á það ríka áherslu að ríkisstj. mun bregðast við þeim vanda sem skapast af atvinnuleysi hvar sem er um landið. Ríkisstj. mun gera það og er tilbúin til þess, en ég vil ekki vera að spá fyrir fram um slíkt né get ég fullyrt að þessi vandi verði mikill eða lítill. Fyrst verðum við að sjá hvernig aflabrögð verða og hvort kvótinn er nýttur þegar upp er staðið og hvort kvótinn verður endurskoðaður alveg á næstunni.