02.11.1983
Efri deild: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulega frú forseti. Þessi umr. hefur farið nokkuð vítt og breitt, en mig langar aðeins til að halda áfram þeim þræði sem snertir mál húsbyggjenda.

Ég þakka hæstv. fjmrh. svörin við spurningu minni hér áðan. Hann setti traust sitt á að það sparifé sem losnaði úr ríkissjóði á árinu mundi skila sér aftur í ríkissjóð vegna kaupa sparifjáreigenda á ríkisskuldabréfum. Hvaða ástæður hefur ráðh. til að ætla að þessir sparifjáreigendur þurfi ekki að nota féð í annað, t.d. í það að koma yfir sig þaki, því að þessir sparifjáreigendur eru einmitt að hluta til sama fólkið og nú þarf að byggja eða kaupa sér húsnæði í fyrsta skipti? Er ekki líklegt að þeir vilji nota sparifé sitt til að koma sér þaki yfir höfuðið beint frekar en lána það ríkissjóði svo að ríkissjóður geti lánað þeim það aftur? Ég er hrædd um að þetta dæmi hæstv. ráðh. gangi ekki upp.

Aðrar lausnir á fjáröflun til húsbyggjenda eru ekki á ferðinni. Hvar á að taka peninga? segir hæstv. ráðh. iðulega þegar fjár er vant til þjóðþrifa- og nauðsynjamála. (Gripið fram í.) Ég sagði ekki að þú hefðir sagt það núna, heldur iðulega. En það vitum við bæði, að auðvitað er hvergi peninga að taka. Við tínum ekki peninga eins og krækiber á hausti, heldur er þetta spurning um hvernig við notum þá peninga sem við höfum, hvernig við skiptum þeim á milli þeirra málaflokka sem við teljum nauðsynlega. Og þá kemur náttúrlega spurningin: Hvaða málaflokka teljum við nauðsynlega? Hvaða mál hafa forgang?

Ég lýsi áhyggjum mínum hér og nú yfir því að hæstv. ráðh. skuli ekki hafa slegið þann varnagla að hafa önnur ráð tiltæk til að leysa vanda húsbyggjenda, ef sú tilraun sem hér er sett fram og ég tel ákaflega virðingarverða eins og ég sagði í upphafi skyldi mistakast, eins og nokkrar líkur gætu verið á. Og þá vil ég að endingu spyrja hæstv. ráðh. að því: Mun hann hafa hug á að veita lánasjóðum húsbyggjenda forgang næst þegar hann leggur drög að skiptingu þeirra fjármuna sem við höfum sameiginlega yfir að ráða?