11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4652 í B-deild Alþingistíðinda. (4048)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur Einarsson:

Virðulegi forseti. Ég skal nú ekki vera lengi. Mig langaði aðeins að koma að tveimur atriðum, sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson vék að í ræðu sinni hér áðan þegar hann var að glíma við ummæli hv. þm. Svavars Gestssonar. Það var um kjarasamningana. Þar lýsti hv. þm. Þorsteinn Pálsson því fjálglega hvernig fólkið í landinu hefði tekið ábyrga afstöðu í kjarasamningum, hefði tekið ábyrga afstöðu þrátt fyrir óábyrgan málflutning hv. þm. Svavars Gestssonar og Alþb. Menn skyldu kannske spyrja sig ef fólkið í landinu og samningsmenn þess voru svona ábyrgir, hversu ábyrgir voru hinir samningsaðilarnir? Hvað vissu þeir sem voru að semja við ASÍ og BSRB á þessum tíma um það sem væri í vændum? Því þrátt fyrir það að menn láti eins og þetta gat hafi komið öllum á óvart og dottið skyndilega ofan úr skýjunum, þá hlýtur stjórnmálavit og fjármálavit þessarar styrku og öruggu ríkisstj. að hafa verið nægilega mikið til þess að gera sér grein fyrir því að einhvers staðar vantaði 1500 millj. eða jafnvel 2000 millj. Þá upphæð vantar ekki svo glatt án þess að menn taki eftir því jafnvel þó á ýmsum tímum í vetur hafi komið yfirlýsingar frá ráðh. um að þeir hafi nú ekki gert sér grein fyrir og ekkert vitað í raun hvernig ástandið í ríkisbúskapnum var. Menn týna ekki svo auðveldlega 2000 millj. Það liðu ekki margir dagar frá því að búið var að undirrita samninga við þetta ábyrga fólk í landinu þangað til þessi örugga og trausta ríkisstj. kom fram á vígvöllinn og lýsti gatinu. Nú styðjumst við aðeins að vísu við lausafregnir vegna þess að hin örugga og opna ríkisstj. lætur ekki svo lítið að skýra fólki frá því hvað hún hefur í hyggju. Menn verða að snapa það upp úr dagblöðum sem þeir segja síðan að misfari með orð þeirra. En hvað vissu þessir menn um það sem væri í vændum þegar þeir sömdu við hið ábyrga fólk í landinu? Það getur ekki verið annað en það, að þeir hafi vitað að von var á skattahækkunum. Það getur ekki verið annað en það, að þeir hafi vitað að von var á hækkun á ýmiss konar þjónustu. Þetta kemur ekki fram nú sem ábyrg afstaða við hina ábyrgu samningamenn fólksins sem þeir sömdu við fyrir nokkrum vikum og mánuðum. Ég held því að á sama tíma og menn tala hátt um það að fólkið í landinu hafi tekið ábyrga afstöðu í samningsmálunum þá skyldu þeir sjálfir athuga hversu ábyrgir þeir voru í sinni afstöðu til þessara mála.

Annað atriði, sem mig langar til að taka aðeins upp, var það að við þyrftum að vinna okkur út úr vandanum. Að við hefðum tapað í þjóðarframleiðslu og nú lægi okkur á að vinna okkur út úr vandanum. Það væri ekki fyrr en þjóðarframleiðsla hefði aukist, fyrr en arður hefði aukist, að menn gætu átt von á því að eitthvað batnaði. Þetta er kannske eitt aðalatriðið. Þá spyrja menn sig: Hvað. sjáum við til þessara manna sem vilja vinna sig út úr vandanum? Það er kannske ein hryggilegasta niðurstaðan af þeirri fjármálaumræðu sem hér hefur farið fram síðan í haust, bæði í sambandi við fjárlög og lánsfjárlög, að það örlar ekki mikið á nýjum lausnum. Ég tel að skattabreytingar, sem voru gerðar um daginn í sambandi við atvinnurekstur, muni hugsanlega, eins og ég sagði þá, skila okkur einhvern tímann á næstu árum styrkara atvinnulífi. En þar er ekkert sem skilar sér öðruvísi en á mjög löngum tíma og það eru ekki þessar lausnir sem munu verða til þess að bjarga fólkinu í landinu á allra næstu árum. Það þarf eitthvað annað að koma til. Og þess vegna hljótum við að spyrja: Hvar eru hinar nýju lausnir? Hvar er nýsköpunin í atvinnumálum? Hvar er nýsköpunin? Við sjáum hennar nefnilega ekki mikil merki. Steinullarverksmiðjan, er það nýsköpun? Menn geta spurt: Hvað með stóriðjuna? Hvað með samningana í sambandi við járnblendið um daginn? Það fór frekar lítið fyrir orkuhækkuninni þar. Ég held að menn þurfi að leita ansi grannt ef þeir ætla að finna hvar úrbót morgundagsins á að koma, vegna þess að þrátt fyrir allt tal um nýsköpun örlar ekki á neinum vilja til þess að láta þau loforð rætast.

Þetta voru tvö atriði sem mig langaði til að minnast á hér. Ég ætta líka að ítreka það álit mitt og ítreka þær óskir mínar að ríkisstj. skilji ekki svo við þetta þing fyrir páska, að við fáum ekki einhverjar bitastæðar upplýsingar um það hvað ríkisstj. hyggst fyrir í efnahagsmálum. Það er ekki sæmandi að láta þetta leka út sem kannske meira og minna misfærðar fréttir í blöðun. Það eru þarna á ferðinni of stórir hlutir til þess að þeir eigi skilið slíka meðferð og það er of margt fólk sem bíður eftir því að fá eitthvað að vita í þessu efni til þess að það eigi skilið slíka meðferð. Þess vegna vil ég ítreka þær óskir við ríkisstj. að á morgun eða föstudag fái þingið yfirlit yfir það hvað hefur verið til umr. á samráðsfundum stjórnarflokkanna og hvernig þessi hugmyndasmíði og tillögusmíði stendur núna. Ég tel að það sé skylda þeirra að láta þessar upplýsingar af hendi.

Um viðbrögð hæstv. forsrh. við þessum óskum mínum og hinar rökvísu orðræður, sem hann hafði hér í frammi, ætla ég ekki að fjölyrða.