11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4662 í B-deild Alþingistíðinda. (4053)

228. mál, vinnumiðlun

Flm. (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Á þskj. 400 er frv. til l. um breytingu á lögum um vinnumiðlun sem ég flyt ásamt hv. varaþm. Sighvati Björgvinssyni og Guðmundi H. Garðarssyni. Frv. gerir ráð fyrir þeirri einu breytingu á lögunum um vinnumiðlun frá 9. apríl 1956 að jafnframt því sem vinnumiðluninni verði ætlað að veita öryrkjum og unglingum sérstaka þjónustu verði gert ráð fyrir því að vinnumiðlun hafi sérstakar skyldur við aldraða.

Eins og kunnugt er hafa verið í gildi um tveggja, þriggja ára skeið lög um málefni fatlaðra þar sem kveðið er á um að föttuðum beri að tryggja atvinnu og leita þeim atvinnu við hæfi með sérstökum hætti. En í lögunum um málefni aldraðra eru engin sérstök ákvæði um það að veita beri öldruðum sérstaka þjónustu á vegum vinnumiðlana. Þess vegna er þetta frv. flutt. Frv. lýtur að því að sú einfalda breyting verði gerð á lögum nr. 52/1956 um vinnumiðlun að meðal hlutverka hennar verði að útvega eldra fólki sem er starfsvant og hefur starfsheilsu aðstoð til þess að afla sér atvinnu við hæfi.

Í gildandi lögum er gert ráð fyrir því að vinnumiðlun sem starfrækja beri í hverjum kaupstað eða kauptúni með 300 íbúa eða fleiri hafi slíkum skyldum að gegna gagnvart öllum öðrum, þ. á m. gagnvart unglingum og öryrkjum. Eini hópurinn sem af einhverjum ástæðum hefur orðið útundan er eldra fólkið í upptalningu laganna. Þó er atvinnuvandi eldra fólksins oft einna mestur, t. d. fólks sem látið hefur af störfum sökum langs starfsaldurs en heldur enn starfsþreki og vill fá að halda áfram að vinna sér og öðrum til gagns. Það er ekki aðeins til hagsbóta fyrir heildina að starfskraftar þessa fólks, sem hefur aflað sér mikillar reynslu og þekkingar, fái að njóta sín heldur er það einnig beinlínis heilsufræðilegt og félagslegt atriði að fólk, sem vill vinna, fái að vinna.

Við Íslendingar höfum búið við þær sérstöku aðstæður miðað við aðrar svokallaðar þróaðar þjóðir að hér hefur verið full atvinna og það hefur verið möguleiki á því að tryggja einnig öldruðu fólki atvinnu lengur en annars staðar. Á öldrunarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin var á árinu 1982 vakti það alveg sérstaka athygli hvaða möguleika Íslendingar buðu öldruðum til starfa miðað við það sem kostur er á annars staðar. Kom það m. a. fram í máli nokkurra þingfulltrúa, útlendinga, að e. t. v. væri þessi möguleiki aldraðra til starfa á Íslandi ein skýringin á því að fólk er hér langlíft og heldur betri heilsu fram eftir aldri en gengur og gerist í öðrum löndum eins og kunnugt er.

Fátt er meira niðurdrepandi fyrir andlegt og líkamlegt heilbrigði fólks sem vanist hefur vinnu og skilað miklu ævistarfi en að uppgötva einn góðan veðurdag að ekkert viðfangsefni sé lengur fyrir hendi þótt hvorki vinnuvilja né starfsheilsu bresti. Skapar þetta oft mikinn og sáran vanda sem iðulega er mætavel unnt að leysa ef einhver vill veita sitt lið. Margt eldra fólk, sem vanist hefur því um ævina að líta á sjálft sig sem fullgilt til verka, veigrar sér við og forðast að ganga bónarveg milli vinnustaða í atvinnuleit eftir að hafa skilað fullu ævistarfi. Öðru máli gegndi ef það gæti leitað milligöngu vinnumiðlunar á vegum sveitarfélagsins sem með lögum hefði verið falið að veita eldri þjóðfélagsþegnum sömu fyrirgreiðslu og þjónustu og öllum öðrum.

Með sama hætti er það algengt að fólk sem látið hefur af störfum vegna starfsaldurs flytjist í nýtt umhverfi þar sem það þekkir lítið til. Segir það sig sjálft hversu miklu auðveldara það væri fyrir það fólk að geta eins og allir aðrir þegnar þjóðfélagsins snúið sér til vinnumiðlunar í viðkomandi sveitarfélagi með fyrirspurnir um vinnumál en að leita á náðir ókunnugs fólks í framandi umhverfi.

Þetta eldra fólk sem oft hefur öðlast mikla reynslu og þekkingu á langri vegferð er oft á tíðum vinnukraftur sem nýtist ekki síður, jafnvel betur, en sumir þeir sem meiri starfsorku hafa. Sé vinnan þessu fólki ekki um megn eru vandfundnir samviskusamari og ötulli einstaklingar. Ýmsir atvinnurekendur mundu án efa hafa áhuga á því að fá ýmislegt af þessu fólki til starfa ef hér væri unnið að með kerfisbundnum hætti. Ef þetta frv. yrði að lögum gætu þeir leitað eftir því við vinnumiðlanir í sveitarfélögum að þær hefðu milligöngu um starfsútvegun fyrir eldra fólkið.

Ekki verður í fljótu bragði séð nein haldbær ástæða fyrir því að eldra fólk skuli sérstaklega undanþegið þeirri þjónustu sem vinnumiðlanir veita eins og nú er skv. lögum. Sýnist raunar fráleitt að sleppa eldra fólki sérstaklega í upptalningu laganna um vinnumiðlun. Þetta frv. er flutt til þess að kanna hvort aðrir alþm. séu ekki sammála okkur flm. um það að hérna sé um að ræða verkefni sem verði að taka á og að sennilega hafi það fallið út af hreinni vangá að nefna aldraða þegar skyldur vinnumiðlunar eru taldar upp.

Nú er það svo, virðulegi forseti, að um nokkurra ára skeið hafa verið í endurskoðun lög um vinnumiðlun. Vinnumiðlun hefur ekki verið virk hér á Íslandi. Því miður hefur vinnumiðlun fyrst og fremst verið fólgin í skráningu atvinnuleysis og upplýsinga um það, en ekki hefur verið um að ræða hér á landi það sem kalla mætti virka vinnumiðlun. Um nokkurt skeið hafa þess vegna lögin um vinnumiðlun verið í sérstakri endurskoðun.

Í félmrn. starfaði nefnd að þeim málum fyrir fáeinum árum undir forustu Sigurðar heitins Guðgeirssonar prentara. Sú nefnd lauk ekki störfum en núv. hæstv. félmrh. mun hafa tekið það mál upp og vonandi þokast það eitthvað áleiðis. Jafnvel þó að heildarlögin um vinnumiðlun séu í endurskoðun fyndist mér full ástæða til þess að taka á þessu sérstaka máli, að leggja þá lagaskyldu á herðar vinnumiðluninni að hún eigi að þjóna eldra fólki sérstaklega með störfum sínum.

Ég vona að hv. Alþingi taki þessari litlu till. vel og ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2 . umr. og hv. félmn.