13.04.1984
Efri deild: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4743 í B-deild Alþingistíðinda. (4128)

310. mál, menntaskólar

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég vil alveg sérstaklega taka undir með hæstv. menntmrh. það sem að hún sagði síðast um stóraukna þýðingu fullorðinsfræðslunnar og endurmenntunarinnar í heild sinni með alveg sérstöku tilliti til þeirrar öru tækniþróunar sem við stöndum nú andspænis, þeirra miklu breytinga sem í mörgum greinum hafa orðið, þannig að sú grunnmenntun sem menn höfðu í upphafi aflað sér verður á skömmum tíma býsna úrelt og gengur ekki til fullnustu.

Þau mál sem hæstv. ráðh. mælti hér fyrir, að mér skildist báðum jafnhliða, eru þess eðlis að þau eru sjálfsögð miðað við núverandi ástand þessara mála. Ég tel þau fyrst og fremst réttmæt sem tímabundna lausn, þar sem undirstrikuð er nauðsyn þessa náms og, eins og hæstv. ráðh. kom inn á, að möguleikarnir, sem hingað til hafa verið gefnir í þessu efni, hafa verið vel nýttir og vissulega komið mjög mörgum að gagni og sýnir það best þýðingu þessarar fræðslu.

Um fullorðinsfræðsluna sem slíka og aðlögun hennar að menntakerfinu hefur m. a. verið rætt í fyrirspurnatíma á Alþingi í vetur og óþarfi að fara nánar út í það hér. Ég get tekið undir það, sem kom fram í máli hæstv.menntmrh. þá, að sú leið kann að vera einmitt heilladrýgst að fella þetta nám að hinu almenna framhaldsnámi sem allra mest og best í stað þess að vera með sérstaka löggjöf fyrir fullorðinsfræðsluna eina. Það þýddi þá um leið að frambúðarlausn á skipan fullorðinsfræðslunnar yrði fólgin í því að færa lagaákvæði um hana, sem nauðsynleg væru, inn í almenna löggjöf um framhaldsskóla, framhaldsmenntun að loknum grunnskóla. Þá er ég kominn að erindi mínu nú sem allt of oft áður í tengslum við þessi mál öll, þegar þau hafa verið rædd hér: Hvernig líður vinnu að þeirri löggjöf, framhaldsskólalöggjöfinni, sem svo lengi hefur verið beðið eftir sem hinu eðlilega framhaldi af grunnskólalögum, sem nú eru orðin áratugs gömul, í ljósi reynslunnar af þeim og þeirri starfsemi í framhaldsskólunum sem nú fer fram að nokkru utan beinna lagafyrirmæla, sjálfsagt í tengslum við reglugerðir og annað slíkt, en e. t. v. án nákvæmrar lagastoðar, þar sem skólarnir hafa reynt að aðlaga sig breyttum aðstæðum og nýjum kröfum og rutt á margan hátt, eins og reyndar var komið inn á í máli hæstv. ráðh., nýjar leiðir án a. m. k. nægilegra skýrra lagaákvæða þar um?

Þessi spurning vaknar óneitanlega nú þegar þessi tvö frv., sem til umr. eru sem bráðabirgðalausn, sem vel kann að nægja til skemmri tíma, koma hér fram, en allt kallar þó á nýja löggjöf um framhaldsskólana í heild. Það má segja um það að þar hafi margir um fjallað og margt um spjallað, en ætíð hafi skort þann herslumun sem þurft hefur til samkomulags um ýmis grunnatriði, og kannske ekkert frekar ýmis menntunaratriði í þeim málum, heldur kannske öllu frekar kostnaðarhlutdeildina, skiptinguna á milli ríkis og sveitarfélaga, sem oft hefur reynst hvað illkleifastur múr á þessu máli.

Um leið og ég tek undir efni frv. og tel þau sjálfsögð sem tímabundna lausn á þessum málum nú í framhaldi af því sem þar hefur verið gert leyfi ég mér að spyrja hæstv. ráðh. um áform og vinnu að frv.-gerð um framhaldsskóla í heild sinni, hverjar vonir hún geti gefið Alþingi, og þá kannske skólamönnum og nemendum alveg sérstaklega, um það hversu máli þessu vindur fram með tilliti til nýrrar heildstæðrar löggjafar.