13.04.1984
Efri deild: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4749 í B-deild Alþingistíðinda. (4147)

62. mál, húsaleigusamningar

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Virðulegi forseti. Félmn. Ed. hefur haft þetta frv. til umfjöllunar um alllangt skeið. Eins og fram kemur í nál. bárust umsagnir frá nokkrum aðilum um frv. N. flytur tvær smávægilegar brtt. við frv.

Ég held að það væri ekki úr vegi, vegna þess að það er langt síðan mælt var fyrir þessu frv., að ég færi örfáum orðum um það.

Það kemur fram í aths. með frv. að nefndin sem samdi frv. er sama nefnd og samdi frv. til laga um hin eiginlegu húsaleigulög sem tóku gildi 1979. Þess er jafnframt getið í aths. að nefndin hafi hagað störfum sínum við endurskoðun laganna m. a. með því móti að hafa samband við allar húsaleigunefndir í kaupstöðum landsins, sem kjörnar hafa verið skv. 76. gr. laganna, og óska eftir áliti þeirra á efni laganna og reynslunni af framkvæmd þeirra. Auk þess átti nefndin fundi með nokkrum húsaleigunefndum: „Yfirleitt voru nm. sammála um að setning laganna hefði verið mjög til bóta og reynslan af þeim væri almennt góð.“ Ýmislegt kom þó fram sem álitið var að betur mætti fara í lögunum, ekki síst til þess að gera þau skýrari.

Að mínum dómi er ekki um stórkostlegar breytingar að ræða í frv. sem hér liggur fyrir, en ég vildi þó leyfa mér að fara aðeins yfir greinar þess.

Í 1. gr. er lagt til að þeim aðilum sem skylt er að dreifa húsaleigusamningseyðublöðum verði heimilað að taka gjald fyrir dreifinguna.

Í 2. gr. er lagt til að standi „forgangsréttur“ í stað „forleiguréttar“. Þykir það réttara og nákvæmara lagamál.

Það er brtt. frá n. við 2. gr. frv. Félmn. leggur til að orðin „enda séu í húsinu þrjár íbúðir eða færri“ falli niður. Félmn. fellst ekki á að það verði þrengdar heimildir húseigenda samkv. 8. gr. laganna.

Í 3. gr. er lögð til sú breyting á 10. gr. laganna að enginn vafi leiki á að með aðilum sem ekki nota staðfest samningseyðublað teljist að hafi verið stofnað til ótímabundins leigusamnings sem lýtur reglum laganna í hvívetna.

4. og 5. gr. frv. eru eingöngu í þá veru að taka af tvímæli og þar er aðeins breytt orðalag.

Í 6. gr. kemur „forgangsréttur“ í stað „forleiguréttar“. Í 7. gr. er lagt til að reglan um að húseigandi skuli einn bera áhættuna af tjóni, sem húseigendatrygging nær til, skuli einungis eiga við um leigumála um íbúðarhúsnæði.

8. gr. frv. varð að vonum tilefni til nokkurra umræðna í n. Þó er raunin sú, að með þessari breytingu er ekki verið að gera annað en að taka af öll tvímæli um rétt leigutakans samkv. 51. gr. laganna, en tvær fyrstu málsgr. 51. gr. laganna hljóða svo, með leyfi forseta:

„Húsaleigu skal greiða fyrir fram, mánaðarlega nema um annað sé samið. Óheimilt er að krefja um leigugreiðslu fyrir fram til lengri tíma en sem svarar fjórðungi umsamins leigutíma. Leigutaki verður eigi krafinn um leigugreiðslur fyrir fram síðar á leigutímanum til lengri tíma en þriggja mánaða í senn.“

Í 9. gr. frv. er ekki að finna mikla breytingu. Þó er þar lagt til að bætist við eftirfarandi: „eða framleigja hið leigða húsnæði“. 1. málsgr. 51. gr. hljóðar því svo: „Óheimilt er leigutaka að framselja leigurétt sinn eða framleigja hið leigða húsnæði án samþykkis leigusala, nema annað leiði af ákvæðum þessa kafla.“

Í 10. gr. frv. er vikið að því að bæjarstjórnir í öllum kaupstöðum landsins skuli í samvinnu við húsaleigunefndir láta fram fara árlega könnun á fjölda leigjenda í íbúðarhúsnæði og framboði á leiguhúsnæði til íbúðar. Niðurstöður slíkrar könnunar skal senda til félmrn.

Það barst umsögn m. a. frá Sambandi ísl. sveitarfélaga þar sem einkum var vikið að þessari grein frv., 10. gr., og kvartað yfir því að slík könnun mundi leiða af sér ómældan kostnað fyrir sveitarfélögin. M. a. af þeim sökum og jafnframt því að í lögum um verkamannabústaði er gert ráð fyrir könnun sem þessari eða ekki ósvipaðri á fjögurra ára fresti leggur félmn. til í annarri af tveimur brtt. að í stað „árlega“ komi: á fjögurra ára fresti, þ. e. að slík könnun fari fram á fjögurra ára fresti.

Virðulegi forseti. Ég held ég hafi ekki fleiri orð um þetta frv. Í sjálfu sér er það einfalt að allri gerð sinni. Ég ítreka það, sem fram kom í umfjöllun n. um frv., að lög um húsaleigusamninga hafa reynst nokkuð vel síðan þau voru lögfest á árinu 1979.