03.11.1983
Sameinað þing: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

48. mál, stöðvun framkvæmda við byggingu Seðlabanka Íslands

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það sem er aðalatriðið í þessu máli er það, að fyrir liggur að Seðlabankinn hefur ákveðið fyrir nokkru að verja hagnaði sínum til að byggja hús. Og það er samdóma álit manna í þessum sal, trúi ég, að ekki sé við hæfi að á sama tíma og fjölskyldurnar í landinu eru að skera niður útgjöld sín mjög verulega, á sama tíma og þjóðarbúið verður fyrir stórfelldum efnahagslegum áföllum skuli það vera að gerast að menn séu að byggja dýrindis höll, eins og sagt er að Seðlabankinn sé að byggja utan í Arnarhólnum, þar sem menn eru að saga gabbró þessa dagana samkv. fréttum Ríkisútvarpsins.

Menn eru sammála um að slíkt sé í rauninni ekki við hæfi. Það er enginn ágreiningur um það, að ég held, í þessum sal, ekki heldur af hálfu hæstv. viðskrh., sem heldur þó mjög fram þessum byggingarframkvæmdum Seðlabankans þó að hann beri aðallega fyrir sig rök úr fortíðinni. Þá er spurningin sú: Er rétt við þessar aðstæður að stöðva þessar framkvæmdir, eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir leggur hér til? Ég er þeirrar skoðunar, að rétt sé og eðlilegt að stöðva þessar framkvæmdir eða a.m.k. að fresta þeim um sinn, meðan tekin er þá ákvörðun um hvernig þessi bygging verður notuð. Það er ljóst, að eftir að búið er að reisa húsið verður að ákveða hvernig á að nýta það. Og mér finnst að það sé ekkert sjálfgefið að það verði í þágu Seðlabankans, heldur séu margar aðrar þarfir hér í landinu sem þarf að sinna — margar aðrar en þarfir þeirra í Seðlabankanum til þess að byggja yfir peninga sem ekki eru til. Og af því að þm. eru sammála um þetta sjónarmið, ætli við getum þá ekki sameinast um að þingið taki afstöðu til þess hvernig á að nota húsið, að menn beiti nú allri sinni þekkingu og kunnáttu til þess að finna hvað er hentugast í þeim efnum?

Ég held að þar komi mjög margt til. Margvísleg starfsemi hér í landinu, m.a. menningarstarfsemi, býr við afskaplega þröngan húskost, að ekki sé meira sagt. Og það er hlálegt að á sama tíma og verið er að stöðva þjóðarbókhlöðuna, eins og hæstv. ríkisstj. leggur hér til, stöðva þá byggingu sem á að reisa yfir handritin og þá starfsemi sem þar á að fara fram, þýtur Seðlabankabygging upp. Það er hlálegt að slíkt skuli gerast.

Ég held að við þurfum einfaldlega að átta okkur á hvernig við getum ákveðið að nýta þetta hús, en í öðru lagi er það mín skoðun, að þessi umr. leiði til þess að við veltum fyrir okkur hvernig stendur á því að Seðlabankinn og ríkisbankarnir yfirleitt eru ekki með sína fjárfestingu inni í yfirstjórn fjárfestingar ríkisins yfir höfuð. Fjárfesting bankanna er hvergi í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, hvergi nokkurs staðar. Ég teldi að eðlilegt væri í tilefni af þessari umr. að tekin yrði ákvörðun um að ríkisbankarnir verði teknir inn í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisins, þannig að hæstv. fjmrh. geti tekið afstöðu til þessarar fjárfestingar eins og annarrar fjárfestingar í landinu þegar hann er að leggja fram fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Ég býst við því, eftir undirtektum hér í þinginu að dæma, að meiri hluti hins háa Alþingis sé reiðubúinn að styðja fjmrh. í því efni að fjárfesting ríkisbankanna verði tekin inn í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun framvegis. Þetta finnst mér vera sú jákvæða niðurstaða sem maður getur fengið út úr umr. hér í dag.

Það má lengi pexa um það, hver á upphaf máls og hver hafi ekki staðið sig nógu vel á liðnum árum. Um það geta menn lengi deilt. En sú umr. leiðir menn ekkert áfram í þessu máli. Ég held að aðalatriði sé að við áttum okkur á því, hvert getum við komist með þessa framkvæmd, hvernig á að nýta hana og þá fjármuni sem þarna er um að ræða í þágu lands og þjóðar á næstu árum og hvað þarf að laga í þessu efni. Ég held að ég hafi bent hér á tvennt sem er býsna þýðingarmikið í þeim efnum.

Það er kostulegt til þess að vita, að hagnaður seðlabankans er ósnertur með öllu af skattyfirvöldum þessa lands. Hagnaður Seðlabankans, sem nemur mörgum millj. kr. t.d. á árinu 1982, fyrst og fremst vegna gengisbreytinga á því ári, er þannig, að skattyfirvöld koma þar hvergi nálægt. Þess vegna hefur það alltaf verið okkar skoðun í Alþb. og fleiri þm. hér og þingflokka, að það væri rétt að taka hagnað Seðlabankans beint inn í ríkissjóð, það er einn möguleikinn, eða að taka hagnað Seðlabankans beint inn í stofnfjársjóði atvinnuveganna eða taka hagnað Seðlabankans t.d. inn í Byggingarsjóð ríkisins. Þetta held ég að við ættum að skoða og ákveða að gera. Um þetta þarf held ég ekki að vera ágreiningur, ef velviljaðir menn setjast niður og reyna að átta sig á hlutunum.

Þetta vildi ég nefna hér, herra forseti. En hitt er fróðlegt líka, sem fram hefur komið hér í þessari umr., það er þessi sjóðandi ágreiningur sem er hér á fyrsta degi landsfundar Sjálfstfl. í þessu seðlabankamáli. Það kemur hér fram að viðskrh. vill byggja, en hæstv. fjmrh. vill ekki byggja. Það kom fram hjá hæstv. fjmrh. hérna fyrir nokkrum dögum, að hann telur að Seðlabankinn framkvæmi lögbrot á hverjum degi, en hæstv. viðskrh. segir að Seðlabankinn sé ekki að fremja nein lögbrot af neinu tagi. Þannig koma þeir sér ekki saman um jafneinfaldan hlut og það, hvernig á að taka á þessum málum, þó að þeir séu úr sama flokknum, og segir það nokkuð um ástandið í Sjálfstfl. þegar mál eins og seðlabankamálið verður rifrildisefni þessara ráðh. úr þessum virðulega ræðustól. (Gripið fram í.)

Hitt er líka fróðlegt, herra forseti, að það skuli gerast hér og koma fram sem hæstv. fjmrh. upplýsti áðan varðandi húsnæðislánakerfið og hv. 2. landsk. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði um. Hæstv. fjmrh. segir: Ef ríkisskuldabréfin, sem nú er verið að tala um að bjóða út, seljast ekki, en þau eiga að gefa 200 eða 250 millj. kr. ef ég man rétt, þá verður ekki leitað á náðir Seðlabankans, það verður ekki dregið þar yfir frekar en orðið er, en yfirdráttur byggingarsjóðanna nemur þar mjög verulegum upphæðum um þessar mundir. Í annan stað segir hæstv. fjmrh.: Það verða ekki tekin erlend lán í þessu skyni. Og í þriðja lagi segir hann: Það verða ekki lagðir á skattar í þessu skyni. Og hann segir sem svo: Niðurstaðan er þá sú, að húsbyggjendur verða að draga saman seglin. — Þetta er út af fyrir sig sjónarmið sem hæstv. fjmrh. hefur kynnt áður og kemur engum á óvart. En það kann hins vegar að koma á óvart að hæstv. forsr. og hæstv. félmrh. hafa á hverju götuhorni um margra mánaða skeið lofað að það fólk sem fékk lán á síðustu árum geti fengið 50% hækkun á þeim sömu lánum útborguð í nóv. og í des. Hæstv. fjmrh. er að segja með orðum sínum, að hæstv. forsrh. og félmrh. séu ómerkir orða sinna í þessu efni, það sé ekki að marka yfirlýsingar þeirra og þeir um það bil 2000 húsbyggjendur, sem nú eiga gildar umsóknir hjá Byggingarsjóði ríkisins, geti búist við því að þeir fái ekki úrlausn sinna mála fyrr en einhvern tíma á næsta ári vegna þess að þessi skírteini seljast ekki.

Hér er stærsta fréttin að mínu mati í því máli sem hæstv. fjmrh. flutti áðan. Ég kannast við hans sjónarmið og þau rök sem hann hefur uppi í málinu. En það hefði kannske verið betra að hæstv. fjmrh. hefði kynnt þeim forsrh. og félmrh. sjónarmið sín og rök áður en þeir fóru að bera fyrir húsbyggjendur þau loforð sem þekkt eru og menn gera ráð fyrir að verði efnd á þeim skammdegisdögum sem eftir lifa af árinu 1983. Það er hrikalegt, þegar því hefur aftur og aftur verið lofað af hæstv. félmrh. og forsrh. að þessi lán verði hækkuð og að menn muni borga það út núna í nóv. og des., að koma núna fram, eftir að umsóknarfrestur er runninn út, eftir að Húsnæðisstofnunin hefur tekið þessar umsóknir til meðferðar og komist að þeirri niðurstöðu að þarna séu 2000 gildar umsóknir sem eigi rétt á lánum, og segja: Það verður ekki hægt að standa við þetta. — Þetta eru alvarleg tíðindi.