13.04.1984
Neðri deild: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4781 í B-deild Alþingistíðinda. (4191)

32. mál, verðlag

Frsm. (Guðmundur Einarsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá fjh.- og viðskn. um frv. til l. um breytingu á lögum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti nr. 56/1978 með síðari breytingum. Nál. hljóðar svo með leyfi forseta:

„Nefndin hefur fjallað um frv. á nokkrum fundum og leggur samhljóða til að það verði samþykkt með breytingu sem gerð er till. um á sérstöku þskj. Nefndin leitaði umsagnar allmargra aðila og á fund hennar kom Georg Ólafsson verðlagsstjóri.

Páll Pétursson var fjarstaddur afgreiðslu málsins. Guðrún Agnarsdóttir, þm. Samtaka um kvennalista, er samþykk afgreiðslu nefndarinnar.

Undir þetta skrifa Guðmundur Einarsson, Þorsteinn Pálsson, Svavar Gestsson, Jón Magnússon, Björn Dagbjartsson og Kristín H. Tryggvadóttir.

Brtt. nefndarinnar er á þskj. 640 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við 1. gr. Síðasta mgr. falli niður.“

Ég vil lesa frv. eins og það yrði að þessari breytingu gerðri. Það er þá á þessa leið:

„13. gr. laganna orðist svo:

Verðlagsstofnun skal, í því skyni að örva verðskyn neytenda, efla verðsamkeppni og til að tryggja sanngjarna verðlagsþróun rannsaka verð, verðmyndun og verðþróun á einstökum vöru- og þjónustuflokkum og gera samanburðarkannanir á verði milli seljenda.

Skal stofnunin rannsaka sérstaklega verðmyndun og verðþróun í þeim þjónustugreinum þar sem verðlagning er frjáls en þjónustan seld skv. samræmdri, leiðbeinandi verðskrá.

Verðlagsstofnun skal birta opinberlega greinargerðir og fréttatilkynningar um framangreindar kannanir á þann veg að þær séu öllum aðgengilegar, svo og að upplýsa helstu breytingar á hinu opinbera verðmyndunarkerfi.“

mgr. sem nefndin leggur til að falli niður hljóðar svo:

„Verðlagsstofnun skulu árlega tryggðir í fjárlögum fjármunir til þeirrar rannsóknar- og útgáfustarfsemi sem um ræðir í þessari grein.“

Fjh.- og viðskn. aflaði fjölmargra umsagna um þetta frv. Ég get nefnt, án þess að lesa umsagnirnar efnislega, frá hverjum þær komu. Það var umsögn frá Alþýðusambandi Íslands, frá Sambandi ísl. samvinnufélaga, frá Neytendasamtökunum, frá Vinnuveitendasambandi Íslands, frá Félagi ráðgjafarverkfræðinga, frá Lögmannafélagi Íslands, frá Arkitektafélagi Íslands, frá Félagi löggiltra endurskoðenda, frá Kaupmannasamtökunum, frá Tannlæknafélagi Íslands og frá Verðlagsstofnun. Að auki mætti Georg Ólafsson verðlagsstjóri á fund n. og var því meðmæltur að frv. yrði samþykkt og lagði áherslu á þau sjónarmið sem að öðru leyti komu fram í því bréfi sem Verðtagsstofnun sendi nefndinni um þetta mál.

Að svo mæltu legg ég til að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til 3. umr.