25.04.1984
Neðri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4873 í B-deild Alþingistíðinda. (4288)

204. mál, Ljósmæðraskóli Íslands

Ólafur Þ. Þórðarson:

Virðulegi forseti. Þennan dóm forseta virði ég og hef því mál mitt á því að harma það að hæstv. heilbrmrh. skyldi ekki taka það alvarlega að svara þeim spurningum sem til hans var beint áðan en vildi aftur á móti koma því á framfæri að um misskilning af minni hendi væri að ræða. Ég vil biðja hæstv. heilbrmrh. að líta á 5. gr. þess frv. sem hér er til umr. Þar er það sett fram sem skilyrði fyrir inngöngu í skólann að umsækjandi hafi lokið prófi í hjúkrunarfræði og hlotið hjúkrunarleyfi frá heilbrmrn. Það er rétt að menn átti sig á því hverjir það eru sem hafa slíkt leyfi. Ég vil, með leyfi forseta, lesa 3. gr. laga sem birt eru í Stjórnartíðindum 1974 13. mars og nefnast hjúkrunarlög:

„Enginn má kalla sig sérfræðing í hjúkrun nema hann hafi fengið til þess leyfi ráðherra.

Ráðh. setur reglugerð um skilyrði til að öðlast sérfræðileyfi að fengnum till. hjúkrunarráðs. Hjúkrunarfélag Ístands skal tilnefna tvær sérfróðar hjúkrunarkonur eða hjúkrunarmenn til þátttöku með ráðinu í meðferð einstakra mála er varða sérgrein þeirra og fá þau þá atkvæðisrétt í ráðinu.

Hjúkrunarráð skal einnig fjalla um veitingu sérfræðileyfa.“

2. gr. víkur svo að því í framkvæmd hvaða menntun menn þurfa að hafa sé um þá að ræða sem lokið hafa prófi hér á landi, með leyfi forseta:

„Leyfi skv. 1. gr. skal veita þeim sem lokið hefur prófi í hjúkrunarfræðum frá hjúkrunarskóla hér á landi eða frá Háskóla Íslands. Ráðh. getur og veitt hjúkrunarleyfi öðrum er lokið hafa jafngildu námi erlendis og eru að öðru leyti hæfir að dómi hjúkrunarráðs er ráðh. skipar.“

Það er ekki nauðsynlegt að lesa meira.

Læknar eiga að geta lokið námi á sex árum. Skv. þeim inntökukröfum sem hér er verið að setja í Ljósmæðraskóla Íslands má gera ráð fyrir því að ljósmæður þurfi í framtíðinni 5–6 ára nám eftir stúdentspróf. Mig undrar það að hæstv. ráðh. skuli tala um misskilning þegar það er gagnrýnt að menn beri fram breytingar á lögum á þann veg að ljósmæðranám verði þyngt það mikið að það nálgist það að vera sama og hjá læknum.

Ég vil undirstrika það að ef við værum í þeirri stöðu að barnadauði hér á landi væri mikill, fjöldi kvenna færist af barnsförum og ástandið væri í einu orði sagt alvarlegt mundi þingheimur að sjálfsögðu vera reiðubúinn að gera þær breytingar sem þyrfti á þessum lögum og tryggja það að eðlilegt ástand yrði í landinu miðað við nágrannalöndin. En ég spurði hæstv. ráðh. og óska eftir svörum við því: Er ástandið hér á landi verra en í nágrannalöndunum og eru kröfurnar, sem þar eru gerðar til menntunar, sambærilegar því sem hér er verið að fara fram á?

Ég hef enga ástæðu til að halda uppi málþófi og er ekki að því. Að sjálfsögðu á að taka þetta mál fyrir í n. En ég vil undirstrika það að ég er algerlega andvígur þeirri stefnu að það eigi að byggja upp menntamúra sem stuðla miklu frekar að því að ná fram kaupkröfum en að tryggja að sú þjónusta, sem eigi að inna af hendi, sé sómasamlega unnin.