25.04.1984
Neðri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4889 í B-deild Alþingistíðinda. (4304)

243. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær umr. sem hér hafa farið fram um þetta mikilvæga mál þó að margt hafi komið hér fram sem mætti kannske halda langa svarræðu við. Í sambandi við þá ræðu sem hv. 3. landsk. þm. flutti vil ég benda á eitt grundvallaratriði. Mér finnst að fram komi í ræðum þess fólks sem þegar hefur tekið til máls og enn fremur í þeirri ákvörðun að flytja frv. endurskoðunarnefndarinnar óbreytt að svo virðist vera að hv. þm. hafi alls ekki lesið athugasemdir við einstakar greinar stjfrv. Þar kemur m. a. fram skýring á 1. gr. frv. sem aðallega hefur verið gagnrýnd. Hér hefur verið fellt út úr frv. endurskoðunarnefndarinnar, eftir að búið er að taka fram í aðalgrein frv. að tilgangur laganna sé að „koma á“ jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum, að sérstaklega skuli bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði.

Ég ætla aðeins að koma inn á þetta frekar en ég vil benda hv. 3. landsk. þm. á að veigamikill þáttur í þessu lagafrv. er hversu hlutverk Jafnréttisráðs er aukið og eflt í þessum lögum eins og sjá má í 15. gr. laganna þar sem verkefni Jafnréttisráðs er tilgreint:

1. Að sjá um að ákvæðum 2.–12. gr. laga þessara sé framfylgt.

2. Að vera stefnumótandi aðili í jafnréttismálum hér á landi. Skal ráðið vinna framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn og leggja fyrir félmrh. Þar skal kveðið á um aðgerðir til að koma á jafnrétti kynjanna.

3. Vera ráðgefandi gagnvart stjórnvöldum, stofnunum og félögum í málefnum er varða jafna stöðu og jafnrétti með konum og körlum.

4. Að sjá um fræðslu- og upplýsingastarfsemi til félagasamtaka og almennings.

5. Að fylgjast með þjóðfélagsþróuninni sem m. a. varðar þetta lagaefni og gera tillögur til breytinga til samræmis við tilgang laganna.

6. Að stuðla að góðri samvinnu við samtök atvinnurekenda og launafólks og önnur félagasamtök svo að stefnu og markmiði þessara laga verði náð með sem eðlilegustum hætti.

7. Að taka til rannsóknar af sjálfsdáðum stöðu kvenna og karla að því leyti er lög þessi varðar. Opinberum stofnunum, atvinnurekendum og félagasamtökum á vinnumarkaði er skylt að veita Jafnréttisráði hvers konar upplýsingar hér að lútandi.

8. Að taka við ábendingum um brot á ákvæðum þessara laga og rannsaka málið af því tilefni og senda að rannsókn lokinni niðurstöður til þeirra aðila sem málið snertir.

9. Að hafa samband við jafnréttisnefndir sveitarfélaga.

Þetta verkefni Jafnréttisráðs er mjög aukið eins og hér kemur fram og það hefur með þessu hlutverki möguleika á því að sjá um að þessum lögum verði framfylgt.

Af því sem hér hefur komið fram tel ég einnig ástæðu til að nefna að hv. 3. landsk. þm. sagði eitthvað efnislega á þá leið að refsiákvæði væru engin í þessu frv. Í VI. kafla laganna eru fjórar greinar um viðurlög og réttarfar. Þar stendur í 17. gr.:

„Fallist viðkomandi aðili ekki á tilmæli ráðsins skv. 16. gr. er ráðinu heimilt að höfða mál til viðurkenningar á rétti aðila í umboði hans. Gildir það einnig þótt ekki sé um skaðabótakröfu að ræða.“

Í 18. gr.:

„Sá sem af ásettu ráði eða gáleysi brýtur gegn lögum þessum er skaðabótaskyldur skv. almennum reglum.“

Í 19. gr.:

„Brot á lögum þessum skal varða fésektum, nema þyngri refsing liggi við að lögum. Félögum, fyrirtækjum og stofnunum má dæma fésektir, hafi brot á lögum þessum verið framið á þeirra vegum, þau átt þátt í því eða hagnast á brotinu.“

Og í 20. gr.:

„Þegar héraðsdómari fer með mál vegna brota á lögum þessum kveður hann til tvo meðdómendur. Kveðja skal öðrum fremur til menn sem hafa víðtæka þekkingu á jafnréttismálum og á öðrum þeim sviðum sem málið varða.“

Nánar er um þennan VI. kafla í útskýringum með greinum frv. og enn þá ítarlegar tekið fram en í frumvarpsgreinunum sjálfum eins og hv. þm. geta lesið.

Ég get tekið undir það með hv. 2. þm. Reykn. að að sjálfsögðu er margt í þessum málum sem við erum vonandi öll hér inni sammála um að takast þarf á við og reyna að færa til betri vegar. Ég tek alveg undir með hv. þm. að við stöndum frammi fyrir vissum vandamálum hvað varðar nútíð og framtíð og það er staðreynd að ný tækni ryður sér til rúms og er þegar komin inn á okkar svið sem breytir viðhorfum til atvinnumála það mikið að það er nauðsyn að takast á við þetta verkefni.

Ég vil nefna það hér að á vegum félmrn. starfar nú sérstök nefnd sem skipuð er aðilum vinnumarkaðarins til þess að gera úttekt á áhrifum nýrrar tækni á íslenskt atvinnulíf. Þetta er mjög mikilvægt mál og hefur þegar fengið mjög jákvæðar undirtektir aðila vinnumarkaðarins. Þetta er áhugamál sem þarf að finna stöðu í til þess að takast á við þetta verkefni. Ljóst er að til þess að mæta þessum nýju verkefnum þarf breytt viðhorf, aukna menntun, símenntun og endurmenntun fólks á öllum sviðum af báðum kynjum.

Ég gæti að sjálfsögðu flutt langt mál um mismun á þessum frv. Eins og ég sagði í minni framsögu er þar um að ræða að verulegu leyti ákvæði sem eiga betur heima með skýringum og athugasemdum með svona frv. en í lagafrv. sjálfu, það er alveg augljóst. Með leyfi forseta stendur í grg. með því frv. sem hv. þm. vitnaði til að félmrh. hafi „lagt fram frv. til l. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Frv. þetta, 243. mál, þskj. 431, gjörbreytir tillögu nefndarinnar og kollvarpar þeim jafnréttishugmyndum sem þar eru lagðar til grundvallar“ —ég endurtek — „sem gerbreytir tillögum nefndarinnar og kollvarpar þeim jafnréttishugmyndum sem þar eru lagðar til grundvallar.“

Að sjálfsögðu eru ekki hér færð nein rök fyrir þessari fullyrðingu frekar en mörgum öðrum í grg. með þessu frv. T. d. er ekki gerð nánari grein fyrir þessum jafnréttishugmyndum endurskoðunarnefndarinnar sem frv. félmrh. kollvarpaði. Það kemur hvergi fram og hefur ekki komið fram í ræðum þeirra hv. þm. sem hér hafa tekið til máls.

1. mgr. 1. gr. stjfrv. og frv. stjórnarandstöðuþm. hljóðar svo:

„Tilgangur laga þessara er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum aldri.“

Er hægt að kveða skýrar að orði um vilja til að koma á jafnrétti í jafnréttislögum? Ég er þess fullviss að yfirgnæfandi meiri hluti Íslendinga sem leggur til grundvallar vestrænan skilning á hugtakinu jafnrétti mundi svara þessari spurningu neitandi. Endurskoðunarnefndin og nokkrir stjórnarandstöðuþm., sem hafa látið teyma sig blindandi í þessu máli, telja þetta ekki fullnægjandi. Þessir aðilar virðast vera þeirrar skoðunar að í jafnréttislögum þurfi endilega að taka fram að sérstaklega skuli bæta stöðu annars aðilans umfram hinn. M. ö. o., hér er á ferðinni sú tegund jafnréttishugmynda sem byggir á því að allir séu jafnir en sumir séu jafnari en aðrir. Raunverulega er þetta grundvallaratriði.

Af svipuðum toga er 10. gr. í frv. stjórnarandstöðuþm. Þar er kveðið á um það að einstaklingurinn þurfi að sanna sakleysi sitt fyrir ákæruvaldinu. Slíkt fyrirkomulag að sakborningur þurfi að sanna sakleysi sitt fyrir dómstólum þekkist hér á landi en einungis í afmörkuðum undantekningartilfellum eins og t. d. í áfengislöggjöfinni. Fyrirkomulag sem þetta var og er hið venjulega fyrirkomulag í mörgum löndum sem búa við ákveðna tegund stjórnarhátta sem ekki eru tengdir því lýðræði, frelsi og víðfeðma réttaröryggi sem við Vesturlandabúar njótum.

En það er ekki einungis afstaðan til einstaklinganna sem slíkra eða skoðanir á réttarstöðu borgaranna sem koma fram í frv. stjórnarandstöðunnar og ég felli mig ekki við. Ég er andvígur áliti þeirra í samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem kemur fram í 14. gr. frv. Þar eru sveitarfélög skikkuð til að skipa jafnréttisnefndir hvort sem þeim líkar betur eða verr, hvort sem þau eru stór eða smá. Ég hefði talið að þetta væri einn af þeim málaflokkum sem best væru komnir hjá kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum og að þeir hefðu besta aðstöðu til að fjalla um án afskipta ríkisvaldsins.

Virðulegi forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr. meira. Ég hefði haft mikla löngun til þess að hafa langt mál um þetta frv. Ég hef kynnst nokkuð og hef lagt mig fram um að kynnast nokkuð því starfi sem fram hefur farið á vegum Jafnréttisráðs og þeirra aðila sem hafa unnið að þessum málum, og ég verð að segja í fullri hreinskilni að það er langt frá því að þessir aðilar, Jafnréttisráð, hafi getað unnið að þessum málum eins og núgildandi lög hafa gert ráð fyrir, því miður. Kannske má rekja það til þess sem verið er að gera lítið úr hér, að í núgildandi lögum er aðeins talað um að „stuðla að“ jafnrétti. Það má vel vera að það sé skýringin. En í þessu lagafrv. sem ég er hér að mæla fyrir er gert ráð fyrir því að „koma á“ jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Þar er reginmunur á.

Ég vænti þess, virðulegi forseti, að um þetta mál geti náðst samstaða hér á þinginu. Mér finnst ástæða til að skerpa línur í þessu mikilvæga máli og ég er sannfærður um það að fyrst tókst að ná samstöðu um það stjfrv. sem hér liggur fyrir eru í gerð þess og í þeim meginlínum sem það leggur frá núgildandi lögum mikilvægar breytingar sem örugglega geta stuðlað að framgangi þess að jafna rétt kvenna og karla. Ég held að ég hljóti að álykta að allir hv. þm. séu sammála um að ná því marki.