07.11.1983
Efri deild: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (436)

19. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Flm. (Kolbrún Jónsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim mönnum sem hér hafa rætt um frv., a.m.k. fyrir góðan vilja til að ræða þetta í n. og að við getum farið ofan í saumana á þessu. En út af þeirri fsp. sem 6. landsk. þm. kom með um hvað við vildum hafa í staðinn, þá vil ég benda honum eindregið á að við erum ekki að leggja til að lögin frá því 1961 verði lögð niður, heldur sú breyting sem var gerð á lögunum í desember 1964, þegar oddamanni yfirnefndar var bætt inn í verðlagsráð. Það var ekki verið að leggja til að verðlagsráðið sjálft yrði lagt niður. Samningsaðilarnir geta náttúrlega sem frjálsir menn samið hvernig sem þeir velja sér. Ég kom einmitt inn á það áðan, að vegna þess hve illa gekk að ná samningum þegar þetta var gefið algerlega frjálst var tekin sú ákvörðun að setja átta menn í að semja frv. til laga 1961. En lögunum var breytt 1964. Það er sú breyting sem við ræðum hér um.

Raunveruleg verðmæti verða ekki til í samningum um fiskverð frekar en í öðrum samningum. Það er því skipting á verðmætum sem um er verið að tala. Þó flotinn sé illa staddur í dag verður það ekki leyst með því að oddamaður eða neinn af þeim toganum geri það. Bæði kemur þar iðnaðarvandamál og fleira inn í, því þetta eru allt nýleg skip sem eru í vandræðum. En það er allt annað mál sem við þyrftum að ræða miklu frekar, held ég, og kannske kynna okkur mun betur.

Ég hef einmitt litið yfir listann yfir þá togara sem eru núna mjög illa staddir eða í vanskilum. Það er alveg greinilegt að þessi skip eru smíðuð á árunum frá 1976 til dagsins í dag og mörg þeirra eru íslensk smíði. Það er því ýmislegt sem á þarf að líta í því sambandi.

Ég held að ég sé ekki að orðlengja þetta frekar og þakka fyrir.