30.04.1984
Efri deild: 86. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4974 í B-deild Alþingistíðinda. (4385)

332. mál, Búnaðarbanki Íslands

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstj. er gert ráð fyrir að bankalöggjöfin verði tekin til endurskoðunar. Jafnframt segir í sömu grein í sáttmálanum að yfirstjórn bankanna verði öll færð undir eitt rn. Það frv. sem hér er flutt er flutt til áð framkvæma síðara ákvæðið í umræddri samþykkt stjórnarflokkanna og er gert ráð fyrir að yfirstjórn Búnaðarbanka Íslands verði með því falin viðskrh. í stað landbrh. sem hefur hingað til haft það hlutverk.

Bankamálanefnd, sem unnið hefur að heildarendurskoðun löggjafar um bankakerfið, hefur einnig tekið undir þetta sjónarmið og gert ráð fyrir slíkri breytingu í drögum að frv. um viðskiptabanka sem nefndin hefur skilað viðskrh. Hins vegar er ljóst að ekki vinnst tími til að fá það frv. samþykkt á þessu þingi. Ríkisstj. telur samt mikilvægt að fá strax samþykkt fyrrnefnt stefnuatriði og hefur því ákveðið að flytja tvö frv. um að viðskrh., sem fer með bankamál, skuli einnig fara með þau mál er snerta Búnaðarbankann og Iðnaðarbankann.

Kostirnir við að allir viðskiptabankarnir heyri undir sama ráðh. eru augljósir. Reyndar má segja að önnur skipan mála sé ekki eðlileg. Séu bankarnir undir sama ráðh. tryggir það samræmdari afstöðu stjórnvalda gagnvart bönkunum en verið hefur. Núverandi skipan mála er t. d. af ýmsum talin eiga sinn þátt í örri fjölgun bankaútibúa á undanförnum árum. Þá er þessi breyting til þess fallin að ýta undir þau viðhorf að hver viðskiptabanki skuli sinna atvinnulífinu í heild, en sé ekki bundinn að verulegu leyti af þjónustu við tillekna atvinnugrein, atvinnurekstur. eða hagsmunahóp. Þessi viðhorf eru æskileg og í samræmi við tillögur bankamálanefndar.

Með tillögum bankamálanefndar fylgdi bókun um sameiningu og fækkun viðskiptabanka. Í bókuninni kemur fram að nefndin er sammála um að sameining viðskiptabanka væri til mikilla hagsbóta. Í því sambandi er bent á að sú stækkun banka sem leiða mundi af sameiningu yrði til þess að þjónusta þeirra við atvinnulífið mundi batna, sparnaður í bankarekstri ykist og jafnari dreifing yrði milli banka á úflánum til atvinnuvega svo og á landfræðilegri dreifingu útlána. Þá segir í bókuninni að meiri hl. nefndarinnar sé þeirrar skoðunar að það mundi flýta sameiningu og fækkun viðskiptabanka ef viðskrh. hefði forgöngu um tæknilega útfærslu sameiningar sem leggja mætti fyrir Alþingi í frv.-formi á næsta þingi. Frv. þetta og frv. til l. um breyt. á lögum nr. 113/1951, um Iðnaðarbanka Íslands, tengjast því máli. Frv. til l. um Seðlabanka Íslands, viðskiptabanka og sparisjóði verða hins vegar lögð fyrir Alþingi í upphafi næsta þings.

Að lokum skal þess getið að Stofnlánadeild landbúnaðarins, sem starfar á grundvelli laga nr. 45 frá 1971 ásamt síðari breytingum, lýtur nú yfirstjórn landbrh. Frv. þetta gerir ekki ráð fyrir að hér verði breyting á. Á hinn bóginn mun veðdeild Búnaðarbankans, sem starfar skv. lögum nr. 34/1979, falla undir yfirstjórn viðskrh., sbr. aðrar veðdeildir. Leiðir það af orðalagi 1. gr. frv.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.