30.04.1984
Efri deild: 86. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4975 í B-deild Alþingistíðinda. (4386)

332. mál, Búnaðarbanki Íslands

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki fjalla efnislega um þetta mál á þessu stigi. Út af fyrir sig er hér um býsna eðlilega skipan mála að ræða, að allir bankarnir heyri undir sama ráðh., og það sama meginsjónarmið get ég tekið undir, þó vissulega komi ýmis álitamál þar upp, eins og reyndar kom fram í lok þessarar grg. varðandi Stofnlánadeild landbúnaðarins alveg sérstaklega og sem ég kem nánar að síðar. Ég átta mig hins vegar ekki á því hvað rekur hæstv. ríkisstj. til þess alveg sérstaklega nú með svo miklum hraða að taka Búnaðarbankann undan landbrh. Ég átta mig ekki alveg á því hvaða gífurleg nauðsyn er á því. Ég treysti a. m. k. hæstv. núv. landbrh. ekkert síður en öðrum landbrh. til þess að fara með yfirstjórn Búnaðarbankans svo sem verið hefur, síður en svo, kannske jafnvel betur en sumum öðrum.

Það eru ýmis álitamál sem koma hér upp og það er kannske alveg sérstaklega varðandi Stofnlánadeild landbúnaðarins. Það segir nefnilega ekkert hér um það á hvern hátt skuli með fara. Mér þykir líklegt að óhjákvæmilegt sé að í tengslum við þetta verði lögum breytt um Stofnlánadeild landbúnaðarins. Það er alveg óhjákvæmilegt, held ég, m. a. varðandi stjórn hennar og tengsl við Búnaðarbankann sem slíkan, alveg sérstaklega um viðskiptaleg og stjórnmálaleg tengsl einnig og ýmislegt sem fer þar fram sameiginlega í dag varðandi starfslið og viðskipti ýmis. Í kjölfar þessa máls hlýtur því að þurfa að fylgja ákveðin breyting á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins, yfirstjórn hennar og hvernig hún skuli á annan hátt starfa.

Ég nefni viðskiptatengslin alveg sérstaklega vegna þess kannske að það hefur oft komið fyrir að staða stofnlánadeildarinnar hefur verið slík að hún hefur átt í erfiðleikum með það að standa við skuldbindingar sínar gagnvart bændum í lok hvers árs. Þá hefur það oft farið svo að Búnaðarbankinn sem slíkur, vegna þeirra tengsla sem stofnlánadeildin er í við hann, hefur þar hlaupið sérstaklega undir bagga og oft svo að munað hefur mikið um fyrir bændur þá sérstaklega, sem hafa þá fengið sína fyrirgreiðslu miklu fyrr en ella. Hér verður óneitanlega að einhverju leyti höggvið á þannig að sú fyrirgreiðsla verður þá ekki sú hin sama og verið hefur. En ég segi það hins vegar í framhaldi af þessu að vissulega eru fyrir þessu samræmingarrök sem teljast sjálfsögð og vonandi er að það leiði þá í raun til bættrar yfirstjórnar bankamála í landinu. Ekki er ég að vantreysta hæstv. núv. viðskrh. í því efni, en þar er við ramman reip að draga og þyrfti kannske fyrst og fremst að koma böndum á þann sem þar deilir og drottnar, þ. e. yfir Seðlabankann fyrst og fremst, því að menn gera lítið í tengslum við viðskiptabankana ef ekkert er gert með þann yfirbanka allra ríkisstjórna.

Það er sagt í grg., sem ég hef varla haft tíma til að lesa, að núverandi skipan mála sé talin eiga sinn þátt í örri fjölgun bankaútibúa á undanförnum árum. Það kann vel að vera að þessi skipan mála hafi átt sinn þátt í því, en ég dreg í efa að það hafi verið örari fjölgun útibúa t. d. hjá jafnstórum banka og Búnaðarbankanum en hjá öðrum viðskiptabönkum. Mér þætti a. m. k. gaman að heyra rök fyrir því að þar hefði verið um meiri og örari fjölgun útibúa að ræða en hjá öðrum viðskiptabönkum. Ég dreg það stórlega í efa miðað við stærð og umfang þess banka.

Ég legg sem sagt áherslu á að í fyrsta lagi leiði þetta ekki til þess að skyldur Búnaðarbankans við landbúnaðinn verði ekki hinar sömu og verið hafa, m. a. í tengslum við lánamál landbúnaðarins og stofnlánadeildina alveg sérstaklega, og vildi þess vegna spyrja hæstv. forsrh. hvað væri fyrirhugað að gera í beinu framhaldi af þeim slitum sem verða með þessari lagabreytingu milli Búnaðarbankans annars vegar og stofnlánadeildarinnar hins vegar, bæði stjórnunarlega og reyndar viðskiptalega líka. Og í öðru lagi, sem er kannske enn frekari ástæða til þess að spyrja um vegna þess að að því er ýjað einnig í þessu, það er ýjað að sameiningu og fækkun viðskiptabanka, það verði lögð fram frumvörp á næsta þingi eða í upphafi næsta þings, þá væri fróðlegt að spyrja hæstv. forsrh. hvort einhver stefnumörkun væri komin í kjölfar álits bankamálanefndarinnar hjá hæstv. ríkisstj. í þeim efnum og þá kannske alveg sérstaklega hvort það væri ætlun þessarar ríkisstj., sem væri þá út af fyrir sig afreksverk og kannske það eina afreksverk sem hún ynni, að koma betri skikk og skipan á Seðlabankann og hafa betri og virkari yfirstjórn á þeim banka en verið hefur, því miður, á undanförnum árum og áratugum.