02.05.1984
Neðri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5058 í B-deild Alþingistíðinda. (4486)

70. mál, tóbaksvarnir

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. heilbr.- og trn. fyrir afgreiðslu á þessu máli og lýsa því yfir að ég tel flestar brtt. sem n. flytur vera til bóta og get í reynd fallist á þær allar.

Ég vil gjarnan minna á að þegar lögin voru sett um ráðstafanir til þess að draga úr tóbaksreykingum á árinu 1977 hafði verið í gildi ákveðið framlag, markaður tekjustofn af seldum sígarettum ÁTVR, en það var fellt niður með setningu þeirra laga og gert samkomulag á milli þáv. heilbr.- og trmrh. og fjmrh. um að þetta framlag yrði ekki minna á fjárlögum og það yrði tryggt að hægt yrði að halda þessari starfsemi áfram. Það stóðst fyrsta árið, en eftir það var þetta loforð fótumtroðið þannig að þessi fjárframlög hafa verið ákaflega lítils virði og ekki eingöngu á þessu ári, heldur einnig á þremur árum þar á undan. Sú nefnd, sem átti að annast þetta verkefni, hefur fyrir löngu síðan ætlað að segja af sér vegna þess að hún hefur ekkert fjármagn til að vinna að verkefninu, en ég óskaði eftir því við formann nefndarinnar að hún frestaði nú afsögn sinni og við sæjum hver afdrif þessa frv. yrðu, og var orðið við því.

Eins og hv. síðasti ræðumaður gat um eru fjármunir til þessarar starfsemi nánast engir, og ef það á að halda áfram á þeirri braut verður ekkert gert í sambandi við tóbaksvarnir.

Mér er það ekkert kappsmál endilega að ákveða hér með lögum markaðan tekjustofn, ef reikna má með því að fjárveitingavaldið á hverjum tíma standi við þau fyrirheit sem ákveðin löggjöf gerir kröfu til. En af þeirri reynslu sem ég hef orðið fyrir vil ég heldur taka upp markaðan tekjustofn. Og með allri virðingu fyrir fjmrh. og fjvn.-mönnum hef ég orðið fyrir miklum vonbrigðum í sambandi við þetta mál, að þegar er verið að taka þessi mál fastari tökum skuli enn vera skorið við nögl. Þess vegna mun ég ekkert hika við að greiða atkv. með mörkuðum tekjustofni í þessu sambandi. Ef við lítum aftur á hvað þetta eða hitt kostar held ég að með því að liggja á fræðslu, liggja á aðgerðum gegn vaxandi tóbaksnautn séum við að stórauka útgjöld á öðrum sviðum og þá sérstaklega á sviði heilbrigðismála. Við vitum hvernig fólk fer með sína heilsu með óhóflegri tóbaksnautn. Þetta þekkja ýmsir sem eru aðstandendur þessa frv. frá fyrri dögum og nm. og aðrir slíkir og menn hafa lært af reynslunni. Ég held að það sé afar mikils virði að löggjöf sem þessi komi til virkra framkvæmda. Nú vil ég vera íhaldssamur í þessum efnum eins og öðrum og ekki fara í neitt of háar upphæðir. Það er ekki endilega alltaf skylda að eyða öllum fjármunum sem veittir eru ef það er hægt að komast af með minna. En vegna þessarar bitru reynslu vil ég tryggja aðgerðir í þessum málum með þessum hætti og því greiði ég atkv. með till. meiri hl. nefndarinnar.