02.05.1984
Neðri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5140 í B-deild Alþingistíðinda. (4502)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Þessar umr. eru farnar að verða allsérkennilegar og hafa verið lengi í kvöld um margt sérkennilegar. Ég ætla að segja það í sambandi við ræðu hv. síðasta ræðumanns, 5. þm. Reykv., þegar verið er að vitna í þetta fræga frv., sem hin svokallaða vinstri stjórn gafst á sínum tíma upp á að koma fram vegna kjarkleysis Alþfl., að það voru í því frv. veigamikil atriði sem ekki var hægt að fallast á. M. a. var það aldrei tíundað í ræðu hv. þm. að eitt meginefnið í frv. var að stytta lánstímann í 21 ár. Það var ein meginforsendan fyrir því hvernig átti að fjármagna Byggingarsjóð ríkisins að mati þeirra hv. Alþfl.manna á þeim tíma. Þetta gagnrýndi ég og fleiri sem ekki vildum styðja frv. með þessu ákvæði í.

Ég held líka að menn gleymi því, þegar þeir eru að ræða um þessi mál, að það var nýtt viðmiðunarform sett 1980 og það er hin svokallaða staðlaða íbúð. Sú viðmiðun er atriði sem vissulega er umdeilanlegt. Hún er núna í endurskoðun. En miðað við það form sem var á þegar frv. sem hv. þm. var að nefna var lagt fram getum við sagt að í dag er þessu þannig varið með þeirri hækkun sem núv. ríkisstj. ákvað, 50% hækkun lána, að þetta stenst. Viðmiðunin er um 50% af vísitöluhúsinu. Hún er í gildi í dag, líklega rúmlega það, sennilega um 56–57% af vísitöluviðmiðuninni.

Það mætti margt segja um þessar umr., en ég skal reyna að stytta mál mitt, hæstv. forseti.

Ég verð að segja í sambandi við umr. um c-lið, um félagslegar byggingar, að búið er að gera allt of mikið úr umr. um það mál. Vissulega er alveg ljóst að ef hið svokallaða búsetuform nær hér fótfestu að því er varðar að koma upp húsnæði þarf að setja lög. Það er algerlega eftir að skilgreina þetta félagsform og það verkefni er fram undan. Það er margt sem þarf að athuga í sambandi við þau mál.

Ég get alveg tekið undir það, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. e., að auðvitað er það ljóst að ef þetta félagsform fær framgang gengur það að einhverju leyti út yfir verkamannabústaðakerfið. Það rýrir umsvif í verkamannabústaðakerfinu. Það er alveg ljóst.

Ég ætlaði ekki að segja margt hér, en það var beint til mín nokkrum spurningum.

Ég get sagt hv. 2. landsk. þm.: Auðvitað hef ég áhyggjur af þróun byggingarsjóðanna. Það hafa allir sem um þessi mál fjalla. Við þyrftum að hafa miklu sterkari byggingarsjóði en við höfum.

Ég ætlaði aðeins að endurtaka það sem hv. frsm. meiri hl. félmn. sagði hér, að það er sérkennilegt við þessar umr. allar að það er alltaf rætt um þetta mál í heild eins og hér væri um að ræða ákvörðun sem hefði átt að vera í gildi frá 1. jan. s. l. hvað snertir fjármögnun. Auðvitað er ljóst að þó að frv. hafi verið lagt fram á s. l. hausti er sú staða þannig í dag að það er kominn maímánuður þegar það verður — vonandi — að lögum. Það er alveg ljóst að ríkisstj. varð að taka sínar ákvarðanir í haust við afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga án þess að gera ráð fyrir að þetta frv. yrði að lögum fyrr en á miðju ári. Þar af leiðandi er blekking að vera að tala um þetta eins og hér er gert og reynt að útbreiða í fjölmiðlum.

Ég hef ekki tækifæri til þess hér og ég geri ráð fyrir að ef menn vilja vera sanngjarnir geti þeir ekki ætlast til þess að ég fari að gefa hér einhverjar yfirlýsingar um meðferð vaxtamála í sambandi við þessi væntanlegu lög. Auðvitað geri ég það ekki á þessari stundu. Það er útilokað og það er ekki hægt að ætlast til þess. Ef ríkisstj. tekur erlend lán til að standa við ákvæði í lánsfjárlögum til að tryggja að það sé staðið við t. d. skuldbindingar Atvinnuleysistryggingasjóðs hlýtur að liggja í augum uppi að það verður endurlánað til húsnæðismálakerfisins og þá væri miðað við innlend kjör. Það þarf ekki að fara neinum orðum um það. Það er alveg augljóst mál.

Ég held að ég ræði þetta ekki frekar. Ég mun að sjálfsögðu óska eftir því við húsnæðismálastjórn að sú útlánaáætlun sem við munum byggja á það sem eftir er þessa árs verði til sem allra fyrst. Ekki hefur verið talið eðlilegt að hún væri staðfest fyrr en við værum búnir að fá meiri upplýsingar um þessi mál öll, sem hér er um að ræða, því að auðvitað tökum við mið af því ástandi sem er á lánamarkaðinum og því efnahagsástandi sem um er að ræða.

En ég endurtek: Ríkisstj. mun standa við þá fjáröflun sem gert er ráð fyrir í húsnæðismálakerfinu í ár, bæði að því er varðar lánsfjárlög og fjárlög. Það er öruggt mál.