02.05.1984
Neðri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5141 í B-deild Alþingistíðinda. (4503)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. 2. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það er svo með ýmislegt sem menn kynnast um dagana að þegar líður langur tími frá því að þeir verða þess varir átta þeir sig á því að þeir eru farnir að sakna þess, jafnvel þó að það sé leiðinlegt. Þannig er það með reiðilestra hv. þm. Halldórs Blöndals. Hann hélt svona ræður einu sinni í viku eða svo á síðasta kjörtímabili, svipaðar og hann hélt hér áðan, stundum tvisvar á dag, og allt í einu var hann lifandi kominn aftur, blessaður maðurinn, með álíka takta og þá, þegar hann var að hella sér yfir þáv. ríkisstj. Í þetta skipti var hann hins vegar að ráðast heiftarlega að núv. hæstv. félmrh. undir dulnefninu Jóhanna Sigurðardóttir og kallaði hæstv. ráðh. snikksnakkara sem hefði glapist á tískuhugmyndum húsnæðissamvinnufélagakerfisins Búseta.

Ég tel að það sé engin ástæða til að svara hv. þm. frekar í þessu efni. Hann talaði að vísu um forráðamenn Búseta eins og þar væru á ferðinni ótíndir bófar sem ætluðu að svíkja undan skatti og hrifsa til sín reyturnar þegar félögin yrðu hugsanlega lögð niður. Ég er hins vegar sannfærður um að hv. 5. þm. Norðurl. e. er svo vel gerður að ef hann kynnir sér betur þau gögn sem liggja fyrir frá húsnæðissamvinnufélaginu Búseta kemst hann að þeirri niðurstöðu að hér er um að ræða fyrirkomulag sem er um margt skynsamlegt og heppilegt. Hins vegar er ljóst af ræðu hans að hann getur ekki samþykkt að húsnæðissamvinnufélögin fái peninga úr verkamannabústaðakerfinu eða félagslega íbúðabyggingakerfinu yfirleitt. Hv. þm. er búinn að tala sig svo fastan hér á móti húsnæðissamvinnufélögunum að hann getur ekki með nokkru móti fallist á þau sjónarmið sem t. d. hafa komið fram hjá hæstv. félmrh. í þessu efni.

Nokkur orð um ræðu hv. 5. þm. Reykv. — Það er oft talað um að verkamannabústaðakerfið hafi aldrei náð þeim þriðjungi af félagslegum íbúðabyggingum sem gert er ráð fyrir að stefnt skuli að skv. lögunum. Ég held að nauðsynlegt sé að hafa það skrifað á blað, a. m. k. í þingtíðindum, að auðvitað nálgaðist verkamannabústaðakerfið mjög þennan þriðjung eftir að lögin voru sett árið 1980. T. d. var það þannig árið 1981 að þá voru veitt F-lán alls 1072, en ný verkamannabústaðalán voru 205 eða hátt í 20% það árið. 1982 voru veitt 1182 F-lán, en 304 lán í verkamannabústöðunum. Á því ári er þetta um það bil 30%. Á árinu 1983 voru veitt 1087 F-lán, en 326 ný lán í verkamannabústöðunum. Það er rétt um 30% líka. Ef hins vegar eru teknar endursöluíbúðirnar er greinilegt að verkamannabústaðakerfið er með langt yfir 33% á móti F-lánunum á hverju þessara ára, 1981, 1982 og 1983. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir hv. 5. þm. Reykv, og aðra hv. þm. að átta sig á að sú ákvörðun sem tekin var 1980 skilaði þessum þriðjungi ríflega þegar endursölukerfið er tekið með, en tæplega þegar eingöngu er miðað við hinar nýju íbúðir. Hins vegar stefnir í það núna að þetta fari langt niður fyrir 1/3.

Hæstv. ráðh. sagði áðan að hann gæfi ekki yfirlýsingu um meðferð vaxtamála. Ég er satt að segja nokkuð undrandi á því að hæstv. ráðh. skuli ekki treysta sér til að greina okkur frá því hvað uppi er í þessum efnum því að ég er fyrir mitt leyti sannfærður um að starfsmenn Seðlabankans eru þegar farnir að velta því fyrir sér hvaða vaxtatillaga verður gerð fyrir ríkisstj. varðandi Byggingarsjóð ríkisins. Það hlýtur að vera. Hvort vaxtaprósentan er 3, 3.5 eða 4 eða hvað það er get ég auðvitað ekki sagt um, en hún hlýtur að vera einhvers staðar á þessu bili og ég held að það eigi að vera alveg útlátalaust fyrir hæstv. ráðh. a. m. k. að greina þinginu frá því hver er tillaga Seðlabankans á þessu stigi varðandi vexti af lánum Byggingarsjóðs ríkisins. Ég vil a. m. k. fara fram á það við hæstv. ráðh. að hann greini frá þessu við 3. umr. málsins hið síðasta, vegna þess að ég er sannfærður um að þessi tala er til og ég er jafnsannfærður um að það er ekkert óeðlilegt að fara fram á það við ráðh. Ég skil ekki alveg í hverju er fólgin ósanngirni af okkar hálfu að bera fram þessa ósk.

Að lokum nokkur orð um Byggingarsjóð ríkisins og þróun hans. Auðvitað er það alveg rétt hjá hv. þm. Jóni Baldvin Hannibalssyni, hvað sem svo líður öllum ágreiningi um hvernig staðið var að því að koma raunvaxta- og verðtryggingarkerfinu á, að eiginfjárstaða Byggingarsjóðs ríkisins hefur verið að batna stórum á síðustu árum. Þannig er það t. d. að á árinu 1983 eru afborganir, vextir og verðbætur, þ. e. sem færast tekjumegin í Byggingarsjóði ríkisins, rúmlega tvisvar sinnum hærri en var t. d. á árunum 1976, 1977 og 1978. Og á árinu 1984 mun það vera þannig að þetta er stærsti tekjuliður Byggingarsjóðs ríkisins eða í kringum 480 millj. kr., ef ég man rétt. Hvað sem líður öllum deilum um raunvaxtastefnuna, og ég hef m. a. haft uppi árásir á Alþfl. ótæpilega af þeim ástæðum, er hitt ljóst, að Byggingarsjóður ríkisins hefur á liðnum árum verið að eflast m. a. vegna þess að menn hafa látið sig hafa það að leggja þessar byrðar á þá sem tekið hafa húsnæðislánin. Þetta segi ég út af orðum hv. þm. Halldórs Blöndals. Og þó að menn vilji gagnrýna það sem einstakir flokkar hafa lagt til í þessum efnum verða menn að gæta sanngirni í þeirri gagnrýni líka.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, herra forseti. Það er orðið mjög áliðið nóttu og ég vona og held að umr. hafi verið gagnleg þó að vissulega hafi stjórnarliðið af og til brugðið sér í viðjar persónuleikans rétt til þess að rifja upp gamla tíma fyrir okkur hina hér í þingsalnum. Það hefur verið fróðlegt, en ég tel ekki að það sé mikil ástæða til að eyða löngum tíma í að svara hv. þm. Halldóri Blöndal hér frekar að sinni nema biðja hann og hæstv. félmrh. um að reyna að koma sér saman um einhverja formúlu í málinu því að þeir eru í grundvallaratriðum ósammála og það er útilokað fyrir Alþingi að vísa á húsnæðismálastjórn sem einhvern túlk í þessu máli.