02.05.1984
Neðri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5148 í B-deild Alþingistíðinda. (4510)

328. mál, sala hlutabréfa ríkissjóðs í Iðnaðarbanka Íslands

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég vísa til framsöguræðu minnar með máli á þskj. 679. Vegna fsp. hv. 5. þm. Austurl. um rök fyrir sölu hlutabréfanna skal ég aðeins geta þess, að arður af þessari hlutafjáreign nú nemur rétt rúmlega 500 þús. kr., en fáist 32 millj. kr. fyrir hlutafjáreignina, þá væri hægt með þeim bestu ávöxtunarmöguleikum sem við eigum völ á t. d. í Landsbankanum að fá um 6 millj. í ávöxtun á ári, þannig að við blasir að kapítaliséring á þessu fjármagni mundi gefa verulega í aðra hönd. Ekki er ég þar með að segja að sá háttur verði hafður á um ráðstöfun þessa fjár.

Við þurfum ekkert að orðlengja um það að flokkar okkar eru á öndverðum meiði um ríkisafskipti og ríkisrekstur. Það er miklu eldri afstaða hjá Sjálfstfl. heldur en Thatcherismi, miklu eldri. Ég er hins vegar í þeim frjálslynda armi sem er tilbúinn til þess að styðja það að ríkið hlaupi undir bagga með atvinnurekstri þegar þannig stendur á, einnegin til að bægja frá atvinnuleysi, hef enga fordóma á því. En í þessu falli er aðildin alveg óþörf. Við getum aflað okkur allra upplýsinga um stöðu lánamála iðnaðarins, ég kvíði engu um það, líka hjá þessum banka. Ég er þess fullviss að þeir sem aðallega eiga hlut að máli munu sjá jafnvel fyrir rekstri hans og fyrir þörfum iðnaðarins eftir sem áður, þótt á þann veg hátti ekki til, að iðnrh. skipi nærri helming af stjórninni hverju sinni.

Ég bendi einnig á að ríkið hefur ekki haft áhuga á að halda hlutdeild sinni í bankanum, þar sem hún var upphaflega 46% af hlutafjáreigninni en er núna komin niður í 27%, vegna þess að hið opinbera hefur ítrekað afsalað sér rétti til hlutafjáraukningar.

Ég nefndi það líka að síðan þessi banki var stofnaður hafa verið sett á Alþingi lög um hlutafélagabanka, um einkabanka, og þar hefur það ekki komið fram og engar tillögur til þess legið að ríkið ætti hlutdeild í þeim bönkum. Menn sáu það fljótlega eftir að þessi fyrsta afgreiðsla á hlutafélagabanka, einkabanka, fór fram að aðild ríkisins var ástæðulaus. Þetta var fyrsta tilraun síðan á dögum Íslandsbankans á síðustu öld og það voru nú vafalaust upp úr 1950 þær ástæður einnegin að iðnaðurinn var ekki mikils megnugur að leggja fram hlutafé. Þannig hefur það oft viljað brenna við að sótt hefur verið, og um of að mínum dómi, á ríkið um framlög til stofnunar fyrirtækja. Sjálfstfl. vill draga úr slíku, vill að einkaframtakið fái að njóta sín, en eins og ég segi: í því falli þar sem atvinnubrestur er yfirvofandi eða í því falli sem stórt er lagt undir, sem er ekki á færum annarra en samfélagsins, þá er ég tilbúinn til þess að leggja til aðild ríkisins og ríkissjóðs. Það er alveg ljóst mál og er öllum vitanlegt þótt við höfum það sem grundvallarstefnu að þar sem það á ekki við eigi ríkið ekki að vera að vasast í málum.

Ég legg svo til, herra forseti, að þegar þessari umr. lýkur verði málinu vísað til 2. umr. og iðnn.