07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5449 í B-deild Alþingistíðinda. (4741)

178. mál, sala lagmetisiðju ríkisins á Siglufirði

Frsm. minni hl. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég stend hér að minnihlutaáliti við þetta frv. svohljóðandi:

„Nefndin hefur fjallað um frv., sem komið er frá Ed., og ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. nefndarinnar mælir með samþykkt frv., en undirritaður leggur til að það verði fellt.

Í samræmi við álit nefndar, sem iðnrn. skipaði haustið 1982 og skilaði áliti 26. apríl 1983, gerðu stjórnir fyrirtækjanna Þormóðs ramma í Siglufirði og Siglósíldar með sér samkomulag um að Þormóður rammi yfirtæki rekstur lagmetisiðjunnar um eins árs skeið og jafnframt var að því stefnt að fyrirtækin yrðu sameinuð á árinu 1984. Þessi breyting, ásamt aðgerðum til úrbóta hjá Siglósíld, m. a. með rækjuvinnslu og endurskipulagningu á fjármálum og rekstri fyrirtækisins, lofuðu góðu. Inn í þessa þróun var hins vegar gripið í miðjum klíðum með ákvörðun um að rifta samstarfssamningnum og selja fyrirtækið einkaaðilum sem að helmingi eru búsettir utan Siglufjarðar.

Kaupsamningur var undirritaður 17. des. 1983, með gildistöku frá 1. jan. 1984, þ. e. áður en leitað var heimildar Alþingis fyrir sölunni. Nú er Alþingi stillt upp fyrir gerðum hlut. Þetta eru ótæk vinnubrögð og óeðlileg ráðstöfun, þvert ofan í skipulegar aðgerðir sem undirbúnar höfðu verið til að tryggja áframhaldandi rekstur í samvinnu við Þormóð ramma.

Að öðru leyti vísast til ályktunar stjórnar Verkalýðsfélagsins Vöku á Siglufirði, frá 25. febr. 1982, sem birt er hér sem fskj.

Alþingi, 3. maí 1984.

Hjörleifur Guttormsson“.

Eins og fram kemur í þessu nál. fylgir með ályktun stjórnar Verkalýðsfélagsins Vöku og þar er þessi ráðstöfun gagnrýnd með svipuðum hætti og sagt m. a., með leyfi forseta:

„Við þessar aðstæður mæltu engin rök með sölu fyrirtækisins til einkaaðila og hefði sú ákvörðun verið mun skynsamlegri þá að halda samrekstri þessara tveggja fyrirtækja áfram.“

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta nú.