09.05.1984
Efri deild: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5556 í B-deild Alþingistíðinda. (4808)

256. mál, hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Helgi Seljan:

Herra forseti. Aðeins örstutt. Þetta frv. er nú til lokaumr. hér í hv. deild og ekki vil ég tefja framgang þess. Ég fékk hins vegar í hendur frá einum þm. Norðurl. e. bráðsnjallt bréf með hugmynd, sem mér sannast sagna þykir vert að koma hér í þingtíðindi, þó ekki verði meira að sinni. Ekki síst er ástæða til að viðra slíka hugmynd þegar menn hafa sýnt þessu máli skilning og velvild, en haft um leið ærnar áhyggjur af kostnaði þeim sem af þessari framkvæmd allri leiðir, og þeim sérstaklega sem þurfa að greiða þann kostnað.

Bréfið er svohljóðandi, hæstv. forseti, reyndar stílað á þm. Norðurl. e., þannig að ég reiknaði nú með því kannske að þeir kæmu þessu hér á framfæri, og er frá Heilbrigðiseftirliti Eyjafjarðar:

„Með tilvísun til kynningar undirritaðs og héraðslæknis, Ólafs Oddssonar, á erfiðleikum varðandi framkvæmd laga nr. 50 1981, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, á fundi með yður 21. sept. 1983“, þ. e. þm. Norðurl. e. hafa sérstaklega fjallað um þetta ásamt héraðslækninum þar og framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Eyjafjarðar. Svo segir í bréfinu áfram: „Eins og fram kom eru helstu erfiðleikarnir þeir, að forsvarsmenn sveitarfélaga telja nýja skipan heilbrigðiseftirlits kosta sveitarfélögin aukin fjárútlát án þess að þeim séu tryggðir tekjustofnar á móti. Ýmsar tillögur munu hafa komið fram til að auka tekjustofna sveitarfélaga til að mæta þessum kostnaði, t. d. með sérstakri skattlagningu á eftirlitsskyld fyrirtæki, eins og er varðandi Vinnueftirlit ríkisins.

Nú langar mig að viðra við ykkur hugmynd mína um lausn á þessum vanda eða a. m. k. hluta hans. Í frv. til laga um tóbaksvarnir, sem nú mun liggja fyrir hv. Alþingi, er mér tjáð að heilbrigðisnefndir og heilbrigðisfulltrúar eigi að hafa eftirlit með að þessum lögum verði framfylgt. Ef af þessu yrði sýnist mér eðlilegt að leggja ákveðna prósentu ofan á verð tóbaks til að mæta þessum kostnaði.“ Og það er nú gert, að vísu ekki í prósentum heldur prómill í því frv. sem liggur fyrir þessari hv. deild nú um tóbaksvarnir. Síðan segir áfram í bréfinu: „Lauslega reiknað virðist mér að 2% álag á tóbak, sem á núverandi verðlagi væru 2% af 44.10 kr. eða 88 aurar á hvern vindlingapakka, alls 19–20 millj. kr., nægði til að standa straum af öllum kostnaði heilbrigðisnefnda á landinu, skipt milli svæða skv. höfðatölureglu. Einnig væri hugsanlegt að hluti álagsins rynni til Hollustuverndar ríkisins, t. d. 1/3 hluti, og afgangurinn skiptist á heilbrigðiseftirlitssvæði samkv. höfðatölureglunni og sveitarfélögin greiddu það sem á vantaði.

Ég vil taka það fram að útreikningar eru ónákvæmir, en byggja á upplýsingum um að meðaltalsneysla á hvern íbúa landsins séu 89 pakkar af vindlingum og 6 pakkar af vindlum.

Tillaga þessi er send í þeirri von að málið verði skoðað sem innlegg til lausnar á fjármögnun heilbrigðiseftirlits og stuðli þannig að því að starfsemin geti farið fram lögum samkvæmt.

Virðingarfyllst,

Valdimar Brynjólfsson, framkvæmdastjóri“.

Ég fékk þetta bréf því miður of seint í hendur til að geta formað og gengið skikkanlega frá brtt. við frv. með betri og fyllri upplýsingar að baki. En ég bið menn að hugleiða efni þessa bréfs með mér til næsta þings. Þá þykir mér rétt að skoða þetta mál í fyllstu alvöru og flytja frv. þar að lútandi, ef engir sérstakir annmarkar sýnast í vegi fyrir því að þessi framkvæmd gæti átt sér stað, og þrátt fyrir það að mönnum sé býsna illa við að taka upp nýja markaða tekjustofna, eins og við vitum að fjmrh. og fjárveitingavaldið í heild hefur verið nokkuð andvígt.

Þetta vildi ég að hér kæmi fram nú þegar þetta frv. væri að verða að lögum og kostnaðarhlið heildarlaganna hefur verið mjög í sviðsljósinu, alveg sérstaklega í Nd.